Sögumolar | 22.December

Þjóðverjar undirbúa innrás á Ísland 1940

Flestum er kunnug sagan af þegar Bretar hernámu Ísland í maí 1940 en færri vita af því að Þjóðverjar höfðu uppi svipaðar hugmyndir um hertöku landsins. Í kjölfar innrásar Breta, gaf Adolf Hitler fyrirskipun um undirbúning innrásar. Herforingjar hans gerðu hernaðaráætlun sem bar nafnið Íkarus (Fall Ikarus) sem byggðist á því að innrásarfloti Þjóðverja myndi laumast framhjá herskipum Breta og skipa innrásarliði á land á vesturströnd Íslands.

Ástæðan fyrir innrásarfyrirætlunum Hitlers voru í raun tvær. Í fyrsta lagi að hindra að herlið annarra ríkja, líklega Breta eða Bandaríkjamanna, kæmu sér upp bækistöðvar á Íslandi á undan Þjóðverjum og í öðru lagi að koma hér upp flugbækistöðvum til verndar kafbátum á Atlantshafi.

Líklega hefur Hitler komið með fyrstu áætlun eða hugmyndir þegar í apríl mánuði 1940 enda nýbúinn að hernema Noreg og aðeins átti eftir að skjótast yfir Norður-Atlantshafið og hernema Ísland í kjölfarið. Nota átti farþegaskipin Bremen og Europa fyrir liðsflutningana.

Ástæðan fyrir því að hætt var við innrásina er að erfitt hefði reynst að verja landið eða halda uppi samgöngum vegna yfirburðastöðu breska flotans á Norður-Atlantshafinu. Á Íslandi voru engir flugvellir og er það meginástæðan fyrir því að ekki varð af þýska hernáminu, því að breski sjóherinn gat komið í veg fyrir birgðaflutninga Þjóðverja til Íslands ef þeir síðarnefndu höfðu enga flugvélavernd. Ef Þjóðverjar hefðu unnið kafbátastríðið við Bandamenn, hefði staðan breyst og það verið Bandamenn sem hefðu ekki getið haldið eyjunni.

Íslendingar voru heppnir að ekki var barist um landið með landátökum Breta við Þjóðverja, ekki hefði verið gott að segja hversu mikið tjón hefði orðið hér né mannfall. Nóg var mannfallið úr röðum íslenskra sjómanna en allt að 229 Íslendingar kunna hafa farist af styrjaldarorsökum.