Sögumolar | 04.February

Stífla Laxárvirkjunar sprengd í loft upp

Virkjanir og virkjanakostir hafa oft verið umdeildir á Íslandi. En óhætt er að segja að mál Laxárvirkjunar árið 1970 er sérstætt. Þar tóku heimamenn og andstæðingar þess að stífla væri reist í Miðkvísl, sig til og einfaldlega sprengdu stífluna í loft upp.

„Á annað hundrað þingeyskir bændur fóru í mótmælaferð frá Húsavík til Akureyrar sunnudaginn 19. júlí. Óku þeir hver á eftir öðrum og varð úr feiknalöng halarófa. Á Akureyri afhentu þeir bæjarstjóranum mótmælaskjal gegn fyrirhugðum virkjunarframkvæmdum í Laxá.

Að kvöldi 25. ágúst hittust á annað hundrað Mývetningar og fleiri Þingeyingar við stíflu Laxárvirkjunar í Miðkvísl milli Arnarvatns og Geirstaða. Sprengdu þeir skörð í steinsteypta stífluna, svo og brú, sem yfir hana var, en skildu eftir silungastiga í miðri ánni. Auk dýnamíts voru notaðar dráttarvélar, hakar og skóflur við að rjúfa skörð í stífluna. Þingeyingar gripu til þessa ráðs til að mótmæla fyrirhugaðri Gljúfurversvirkjun.“

Myndirnar eru frá þegar mótmælendur óku í halarófu til Akureyrar. Stærri myndin er eftir að stíflan var sprengd.

Heimild og myndir: Árið 1970