Sögumolar | 11.March

Litla-Hraun 90 ára 8. mars 2019

Tilviljun réði því að að vinnuhæli eða betrunarhús var stofnað á Litla-Hrauni á sínum tíma. Starfsemin hófst með formlegum hætti hinn 8. mars árið 1929 og komu þá þrír menn úr Hegningarhúsinu í Reykjavík til að taka út refsingu sína.

Miklar umræður höfðu farið um Hegningarhúsið í Reykjavík. Það var talið með öllu ónothæft sem fangelsi og auk þess vantaði rými fyrir dæmda menn. Töldu menn brýnt að grípa til einhverra ráða. Síðast var Hegningahúsið notað sem móttökufangelsi, þar sem fangar dvöldu í stutta stund þegar þeir hófu afplánun dóma. Þann 1. júní 2016 var starfsemi hegningarhússins hætt.

Jónas Jónsson frá Hriflu var dómsmálaráðherra og hafði fengið augastað á því sem hann kallaði „steinkassa“, Eyrarspítala á Eyrarbakka, sem stóð auður og yfirgefinn enda hafði tilraun til að koma honum á fót farið út um þúfur.

Frumvarpið sem dómsmálaráðherrann bar upp á Alþingi var stutt og laggott:

„Landsstjórninni skal heimilt að verja af ríkisfje alt að 100 þús. kr. til að kaupa land og láta reisa betrunarhús og letigarð, þar sem skilyrði þykja góð, til að fangar, og slæpingar, sem ekki vilja vinna fyrir sjer eða sínum, geti stundað holla og gagnlega vinnu.“

Litla-Hraun í dag

Fangelsið Litla-Hrauni. Fangelsið er lokað fangelsi með 9 deildir sem rúma allt að 87 karlfanga. Þar starfa alls 57 starfsmenn, fangaverðir sem sinna almennri fangavörslu og verkstjórn, auk skrifstofufólks, meðferðarfulltrúa, starfsmanna í eldhúsi og verslun. Flestir starfsmenn Litla-Hrauns koma frá Eyrarbakka, Selfossi og Hveragerði. Einnig úr næstu sveitum. Þeir hafa borið uppi hita og þunga starfsins á Litla-Hrauni.

Ein fangadeildin er rekin sem sérstök meðferðardeild þar sem fer fram vímuefnameðferð undir umsjón meðferðarfulltrúa og sálfræðinga.

Heimildir: Fangelsismálastofnun Íslands og Fangelsismál.is