Sögumolar | 24.June

Kvennalistinn mótmælir fegurðarsamkeppnum

Kvennalistinn á Íslandi var stjórnmálaflokkur sem var stofnaður 1983 og starfaði til ársins 1998 þegar hann sameinaðist Samfylkingunni. Flokkurinn átti ágætu fylgi að fagna bæði til sveitarstjórna og Alþingis. Forgangsmál flokksins var að berjast fyrir jafnrétti kynjanna.

Í júní 1985 mótmæltu borgarfulltrúar kvennalistans fegurðarsamkeppnum í tilefni orða borgarstjórans Davíðs Oddssonar sem sagði að ef allar konur á framboðslista Kvennaframboðsins væru jafnfallegar og þær sem taka þátt í keppninni um fegurðardrottningu Íslands gætu önnur framboð pakkað saman. Kvennalistakonur tóku þessum ummælum illa og mættu uppdubbaðar eins og fegurðardrottningar á fund borgarstjórnar.

Í bókinni Árið 1985 segir um þetta: Í upphafi borgarstjórnarfundar 6. júní las Guðrún Jónsdóttir upp utan dagskrár bókun frá borgarfulltrúum Kvennaframboðsins og var þar mótmælt „þeirri kvenímynd sem haldið hefur verið óvenju sterkt að okkur konum síðustu vikur í tilefni nýafstaðinnar fegurðarsamkeppni.“

Borgarfulltrúar Kvennaframboðsins voru í þessu tilefni klæddir í síðkjóla með borða og kórónur. Tilefnið voru ummæli borgarstjórans við kjör fegurðardrottningar Íslands, að væru allar stúlkurnar á framboðslista Kvennaframboðsins [jafn fallegar] þyrftu hinir ekki að bjóða fram.

Hér eru borgarfulltrúarnir Magdalena Schram, „Ungfrú sök“, og Margrét Jónsdóttir, „Ungfrú meðfærileg“, í borgarstjórnarsalnum.

Heimild og mynd: Bókin Árið 1985.