Sögumolar | 19.August

Íslendingar safna fyrir kaupum á geirfugli

Þær fréttir bárust í vikunni að síðasti karlkyns geirfuglinn hafi fundist á Konunglega belgíska náttúrufræðisafninu í Brussel. Tegundin er útdauð og er talið að síðasta geirfuglaparið hafi verið drepið í Eldey í júní árið 1844. Geirfuglinn hefur alltaf vakið sérstakar tilfinningar hjá Íslendingum. Kannski hafa menn samviskubit yfir að landinn skyldi hafa útrýmt tegundinni?

Þegar fréttist árið 1971 að bjóða ætti uppstoppaðan geirfugl til sölu hjá Sothebys í London var rokið til á Íslandi og stofnað til landssöfnunar með það að markmiði að safna nægum peningum til að kaupa fuglinn. Í umfjöllun um málið segir í bókinni Árið 1971:

„Þann 4. marz var Íslendingum sleginn uppstoppaður geirfugl á uppboði hjá Sothebys í London fyrir 1,9 milljónir kr. (9 þúsund sterlingspund). Var það hæsta verð, sem boðið hefur verð í náttúrsögulegan grip. Finnur Guðmundsson, fuglafræðingur, tók við geirfuglinum, en hann var síðar afhentur Náttúrufræðistofnun Íslands. Þegar spurðist, að geirfugl væri til sölu, var hafin almenn söfnun í landinu og gekk hún svo vel að nægði til kaupanna, en Ísland átti engan geirfuglinn. Eigandi geirfuglsins var Raben-Levetzau, barón, danskur að ætt. Á myndinni er Finnur Guðmundsson með geirfuglinn eftir uppboðið hjá Sothebys.“