Huginn hefur rætt margoft samgönguvandann á höfuðborgarsvæðinu. Margvíslegar ástæður eru fyrir þennan heimtilbúna vanda. Ein orsökin er pólitíkin sem stunduð er í höfuðborginni en í henni hafa vinstri menn ráðið ríkjum á annan áratug. Stefna þeirra í samgöngumálum er fjandsamleg bílaumferð og hin sveitarfélögin eru ekki nógu öflug til að knýja höfuðborgina til að breyta um stefnu.
Annar megin vandinn er að sveitarfélögin eru of mörg á þessu litla landsvæði. Á höfuðborgarsvæðinu eru sjö sveitarfélög. Í þeim ráða á hverjum tíma stjórnmálaflokkar sem eiga ekki samleið í pólitík og þessi eina ástæða leiðir til þess að samstarf er oft lítið.
Ekki skal gera lítið úr núverandi samstarfi og meira segja er til Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Þess má geta að stofnaðilar voru sveitarfélögin Reykjavík, Kópavogur, Hafnarfjörður, Garðabær, Seltjarnarnes, Mosfellshreppur, Bessastaðahreppur og Kjalarneshreppur. Margvísleg samvinna er í gangi, til dæmis um rekstur almenningssamgangna en t.d. í veitumálum fara sveitarfélögin sitthvora leið. En það breytir þeirri staðreynd ekki, að sveitarfélögin eru of lítil og rekstrarkostnaður hár vegna dýrrar yfirbyggingar. Af hverju eiga að vera hér sjö bæjar- og borgarstjórar? Sjö bæjar- og borgarráð? Og allt embættismannakerfið sem liggur undir þessum sveitarstjórnum? Kostar ekki stórfé að reka allar þessar stjórnsýslur?
Skoðum stærðir sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu. Reykjavíkborg er langstærst, 277,1 km² að flatarmáli og mannfjöldinn 126.041 (2018). Kópavogsbær er næststærst, flatarmál sveitarfélagsins er 83,7 km² og mannfjöldinn 35.970 (2018). Hafnarfjarðarkaupstaður er þriðja stærsta sveitarfélagið, flatarmálið er 143,3 km² og mannfjöldinn er 29.412 (2018). Fjórða í röðinni er Garðabær, Flatarmálið er 74,4 km² og mannfjöldinn er 15.709 (2018). Mosfellsbær er 193,7 km² að flatarmáli og mannfjöldinn um 10.556 (2018). Seltjarnarnesbær er með langminnsta flatarmálið, 2,3 km² en mannfjöldinn hár í samanburði eða 4.575 (2018). Kjósarhreppur er 287,7 km² að stærð og mannfjöldinn aðeins 221 (2018). Samtals nær höfuðborgarsvæðið yfir 1000 km² eða nákvæmlega 1,062 km² sem gerir um 1% af heildarstærð Íslands.
Öll sveitarfélögin eru nátengd landfræðilega og oft á tíðum eru byggðamörk óljós þegar fólk fer úr einu sveitarfélagi í annað. Þess má geta að sameiningar hafa átt sér stað og má hér nefna sameiningu Álftaness við Garðabæ og Kjalarneshrepps við Reykjavíkur og er það vel.
Ljóst er að sameina má fleiri sveitarfélög, til dæmis út frá landfræðilegri staðsetningu. Sameina mætti Seltjarnarnes við Reykjavík og hún við Mosfellsbæ og bæta við Kjósahrepp í hinn endann. Með þessu myndast samfelld byggð úr Seltjarnarnesi upp í Kjós. Ávinningurinn er auðljós, ef litið er á samgöngumál, veitumál og sparnað í stjórnsýslu. Hagsmunir allra íbúanna fara saman. Flatarmálið væri um 760 km² og íbúafjöldi 141,494 sem slagar varla upp í meðalborg í Evrópu.
Þá eru eftir Kópavogur, Garðabær og Hafnarfjörður sem gætu myndað mótvægisborg við Reykjavík. Flatarmálið er 301 km² og íbúafjöldi 81,091. Með því að mynda tvær borgir úr sveitarfélögunum, myndast samkeppni en um leið auðveldar það samvinnu þegar aðeins tveir aðilar talast við í stað sjö. Þessi hugmynd hefur verið viðruð margoft og af mörgum aðilum. En hvað stendur í vegi? Hreppapólitík? Sveitarfélög á landsbyggðinni hafa kyngt niður bæjarstolti sínu og sameinast af brýnni nauðsyn. Reynslan hefur verið góð, þótt sumum hafi fundist hart að sveitarstjórnin hafi lent í einu bæjarfélagi en ekki öðru.
Það er ekkert sem mælir á móti að sameina sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu og allt með. Skipulagsmál verða einfaldari og skilvirkari. Stjórnsýslan ódýrari o.s.frv. Svæðið er hvort sem er eitt atvinnusvæði. Íbúarnir geta verið áfram Kópavogsbúar, Hafnfirðingar o.s.frv. Það breytist ekki. Er ekki brýn nauðsyn að halda áfram sameiningu sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu?