Innlent | 21.November

Zúistar: Peningaplokk eða hugsjón?

Trúfélagið Zuism, oft nefnt Zúistar upp á íslensku, er þessa dagana að láta dreifa auglýsingu í hús á höfuðborgarsvæðinu þar sem þeir hvetja fólk til að ganga til liðs við félagið.

Félagið hefur verið mikið í fréttum undanfarið vegna deilna um hverjir séu réttmætir stjórnendur félagsins. Svo fór að Ágúst Arnar Ágústsson, annar svo kallaðra Kickstarter-bræðra, var úrskurðaur réttmætur forsvarsmaður trúfélagsins.

Annað félag á vegum þeirra bræðra ætlaði að framleiða ferðatúrbínur og safnaði fjárframlögum á fjármögnunarsíðunni Kickstarter. Framleiðslan var að margra áliti svikamilla. Kickstarter lokaði fyrir aðra söfnun á vegum þeirra bræðra sem átti að fjármagna stærri útgáfu af vindmillunni. Bræðurnir, Ágúst Arnar Ágústsson og Einar Ágústsson, hafa komið við sögu í fleiri málum þar sem þeir hafa verið sakaðir um fjármálamisferli.

Lofa endurgreiðslu sóknargjalda, náms- og bókastyrk og gefa til góðgerðamála

Í dreifiriti Zúista, sem nú er verið að dreifa í hús, segir að Zuism hafi styrkt Barnaspítala hringsins og UNICEF. Einnig segir: „Félagsmenn sem stunda nám geta sótt um náms- og bókastyrk.“ Þeir sem vilja fá sóknargjöld sín til baka á næsta ári þurfa að skrá sig fyrir 1. desember 2017. Ekki kemur fram að þeir sem vilja fá sóknargjöld endurgreidd þurfi að sækja sérstaklega um það en nokkur óánægja var með þá endurgreiðslu sem forsvarsmenn félagsins segja að hafi farið fram. Margir lýstu óánægju sinni og töldu sig ekki hafa vitað af því skilyrði að sækja þyrfti sérstaklega um endurgreiðslu sóknargjalda fyrir tiltekinn tíma enda félagið með þann yfirlýsta tilgang og hugsjón að endurgreiða sóknargjöld og því mætti ætla að endurgreiðslan gerðist sjálfkrafa. Trúfélagið Zúistar hafa fengið tugi milljóna í sína sjóði í formi sóknargjalda og greinilegt er að nú ætla forystumenn félagsins að gera átak í söfnun félaga og fá þannig enn meira fé.