Innlent | 23.February

Yfirvöld í Marokkó staðfesta að „barnið“ sé 22 ára

Ungur maður, Houssin Bsraoi, sem kom til Íslands með Norrænu ásamt öðrum manni og sagðist vera fylgdarlaust ungmenni hefur verið sendur úr landi. Íslensk yfirvöld hafa fengið staðfest að maðurinn er ekki 18 ára, eins og hann og fleiri vildu halda fram, heldur 22 ára. Þetta hljóta að vera mikil vonbrigði fyrir þá Íslendinga sem hafa haldið því fram í fjölmiðlum að maðurinn segi satt um aldur sinn. Sama fólk hefur gagnrýnt hvað harðast að aldursgreiningar séu gerðar á hælisleitendum sem hingað koma.

Í fésbókar athugasemd sem Helga Vala Helgadóttir, lögfræðingur og alþingismaður Samfylkingarinnar, setti á netið í tilefni af brottvísun mannsins, heldur hún því fram að beðið hafi verið eftir niðurstöðu kærunefndar útlendingamála um endurupptöku málsins og flutningur hans úr landi hafi komið öllum í opnaskjöldu. Í tilkynningu Útlendingastofnunar um málið, á heimasíðu stofnunarinnar, kemur hins vegar fram að nefndin hafi áður verið búin að hafna tveimur beiðnum um endurupptöku. Í tilkynningu á heimasíðu Útlendingastofnunnar segir um þetta: „Þann 15. febrúar óskaði talsmaður mannsins eftir því við kærunefnd útlendingamála að málið yrði endurupptekið en nefndin hafði þá þegar hafnað tveimur beiðnum um endurupptöku.“

Hálfsannleikur í fjölmiðlum?

Samkvæmt þessu má ljóst vera að talsmenn mannsins og velunnarar hafa ekki sagt allan sannleikann í fjölmiðlum. Þess má geta að íslenskir skattborgarar greiða laun lögfræðinga sem annast mál hælisleitenda á Íslandi. Áður en Helga Vala Helgadóttir lögfræðingur settist á Alþingi var hún þekkt fyrir störf sín sem lögfræðingur hælisleitenda. Hún hefur líka talað mjög ákveðið fyrir opnum landamærum.

Útlendingastofnun bendir á að öllum hlutaðeigandi hafi verið ljóst að maðurinn yrði fluttur úr landi en Helga Vala og lögfræðingur mannsins hafa fullyrt að þau hafi ekki vitað af flutningnum.

Tilgangurinn helgar meðalið?

Útlendingastofnun tekur mjög ákveðið til orða í tilkynningu sinni. Úr tilkynningu Útlendingastofnunnar má ráða að þingmaðurinn Helga Vala og lögfræðingur mansins, og fleiri, virðast hafa talað gegn betri vitund í fjölmiðlum. Að minnsta kosti hvað varðar vitneskjuna um að í aðsigi væri að senda manninn úr landi og gefa í skyn að ekki hafi áður verið beðið um endurupptöku málsins, sem þó var búið að gera í tvígang áður. Það má því spyrja hvað þingmanninum og lögfræðinginum gangi til í ljósi yfirlýsingar Útlendingastofnunnar.

Laminn í fangelsi af tilefnislausu?

Eins og komið hefur fram í fréttum var Houssin Bsraoi laminn á Litlahrauni af öðrum föngum. Ekki hefur komið fram í fjölmiðlum af hverju aðrir fangar réðust á hann en sjálfur hélt hann því fram að það væri vegna þess að hann hefði verið á gangi með kynferðisglæpamönnum. Heimildir skinna.is herma hins vegar að ástæðan hafi verið að Houssin Bsraoi hafi komið fram við aðra fanga af fyrirlitningu og yfirgangi.

Hér má sjá tilkynningu Útlendingastofnunnar í heild sinni.