Innlent | 21.July

Vinstrimenn á barmi taugaáfalls vegna Piu Kjærsgaard

Íslenskir vinstrimenn virðast vera á barmi taugaáfalls vegna þess að danska þjóðþingið sendi forseta sinn til að vera viðstaddur og ávarpa hátíðarfund Alþingis á Þingvöllum. Þingmönnum var send dagskrá fundarins í apríl en þingmenn margir hverjir, sérstaklega þingmenn Vinstri grænna, Pírata og Samfylkingar, virðast hafa gleymt að lesa dagskrána. Virðast þeir ekki hafa gert sér grein fyrir að forseti danska þingsins er Pia Kjærsgaard fyrr en nafn hennar birtist í fjölmiðlum einum degi fyrir fundinn. Eins og alkunna er ákváðu Píratar að mæta ekki á Þingvelli og þingmaður Samfylkingar, Helga Vala Helgadóttir, setti upp sýningu ætlaða fjölmiðlum þegar hún stóð upp og gekk á braut þegar forseti danska þingsins hóf mál sitt. Mikið grín hefur verið gert að upphlaupi Helgu Völu og Pírata á fésbókinni. Nú hefur kvikmyndagerðarkonan Elísabet Ronaldsdóttir sent frá sér tilkynningu um að hún hafi, eftir mikla umhugsun, ákveðið að skila fálkaorðunni sinni sem hún var sæmd í janúar fyrir tveimur árum. Elísabet segir að þegar hún tók við orðunni hafi hún hugsað sig vel og lengi um því „margur svartur sauðurinn hefur þegið sömu viðurkenningu....“ Að mati Elísabetar er forseti danska þjóðþingsins svartari en aðrir í hópnum sem hún svo stolt ákvað á endum að gerast meðlimur í - og þiggja fálkaorðuna. Taugaveiklun vinstrimanna á Íslandi vegna komu danska þingforsetans virðist því vera að breiða úr sér út fyrir raðir þingmanna vinstrimanna og inn í listamanna elítuna.