Innlent | 27.July

Útlendingastofnun sér sig tilneydda til að leiðrétta falsfréttir íslenskra fjölmiðla

Í byrjun júlí var albanskri fjölskyldu vísað úr landi þar sem augljóst þótti að fjölskyldan hefur ekki ástæðu til að sækja um hæli hér á landi frekar en fólk yfirleitt frá Albaníu. Eins og áður hefur komið fram í fjölmiðlum hafa Albanir flykkst hingað til lands eftir að Alþingi veitti fjölskyldu frá Albaníu ríkisborgararétt fram fyrir alla aðra sem sótt höfðu um ríkisborgararétt eftir settum reglum. Málið vakti athygli útfyrir landssteinana og var umdeilt hér á landi og er enn. Mjög var þrýst á stjórnvöld og einstaka stjórnmálamenn af hópi fólks og naut það stuðnings fjölmiðla eins og til dæmis 365 miðla og Ríkisútvarpsins.

Í byrjun júlí hófu fjölmiðlar herferð til stuðnings albönskum hjónum sem sóttu hér um hæli og ól konan barn hér á landi í umsóknarferlinu.

Fjölmiðlar sögðu ranglega að barnið væri ríkisfangslaust

Í DV.is var fjallað um mál fólksins og meðal annars fullyrt að hjónin þyrftu að velja á milli þess að skilja barnið sitt eftir hér á landi 14 mánaða gamalt, foreldralausa „eða taka hana með sér, ríkisfangslausa til annars lands.“

Þetta hafði miðillinn eftir vinkonu fjölskyldunnar og má skilja á umfjöllun að lögmaður fjölskyldunnar hafi einnig haft sömu fullyrðingar í frammi.

Af þessu tilefni sendi Útlendingastofnun frá sér eftirfarandi yfirlýsingu 5. júlí:

„Að undanförnu hefur verið fjallað um mál albanskrar fjölskyldu í fjölmiðlum. Í máli fjölskyldunnar liggja fyrir ákvarðanir á tveimur stjórnsýslustigum um að henni beri að yfirgefa landið. Útlendingastofnun synjaði umsóknum foreldranna um dvalarleyfi hér á landi og hefur kærunefnd útlendingamála staðfest ákvarðanirnar. Þrátt fyrir að ekki hafi verið tekin sérstök ákvörðun í máli barnsins liggur fyrir að það hefur ekki heimild til að dveljast á landinu og ber að yfirgefa landið með foreldrum sínum.


Í ljósi fréttaflutnings af máli fjölskyldunnar vill Útlendingastofnun koma eftirfarandi leiðréttingum á framfæri.

Það er ekki rétt að barnið sé ríkisfangslaust. Í lögum um albanskan ríkisborgararétt er skýrt kveðið á um að barn sem fæðist albönskum foreldrum fái sjálfkrafa albanskan ríkisborgararétt (sjá 1. tölul. 1. mgr. 7. gr. laga um albanskan ríkisborgararétt nr. 8389). Þetta gildir líka um börn albanskra foreldra sem fæðast í öðru landi en Albaníu.

Það er heldur ekki rétt að dómsmál sem foreldrarnir höfðuðu í nafni barnsins verði sjálfhætt yfirgefi barnið landið. Í ákvörðunum Útlendingastofnunar og kærunefndar útlendingamála um að synja dvalarleyfisumsóknum þeirra var þvert á móti komist að þeirri niðurstöðu að dómsmálið væri ekki þess eðlis að nauðsynlegt væri að þau dveldust hér á landi meðan það er til meðferðar hjá dómstólum. Kærunefnd útlendingamála hefur þegar hafnað beiðni um að fresta réttaráhrifum þar til bera megi þá ákvörðun undir dómstóla.“