Innlent | 29.November

„Tussu fínt,“ skrifaði aðstoðarmaður Katrínar Jakobsdóttur

Mikið hefur gengið á í dag vegna upptöku sem gerð var af samtali nokkurra þingmanna Miðflokksins og Flokks Fólksins. Þar viðhafa þingmennirnir orðbragð sem mörgum hefur ekki þótt þeim sæmandi. Aðrir þingmenn hafa lýst mikilli geðshræringu vegna þessara orða og sumir jafnvel verið gráti næst eða sagst vera í áfalli vegna hegðunar þingmannanna.

En margir spyrja hversu mikil einlægni fylgi máli annarra þingmanna- og kvenna, eru aðrir þingmenn alveg saklausir af munnsöfnuði á þingi eða utan þings? Er munurinn á stöðu sex menninganna sem athyglin beinist að nú ekki bara sá að upp um þá komst?

Það má rifja upp í þessu sambandi ýmis ummæli þingmanna og jafnvel aðstoðarmanna ráðherra sem hægt væri að segja að flokkuðust undir munnsöfnuð eða dónaskap.

Árið 2010 viðhafði aðstoðarmaður Katrínar Jakobsdóttur sem þá gegndi embætti mennta- og menningarmálaráðherra, ummæli í tölvupósti sem óvart fór til fréttamiðla þar sem lagt var á ráðin um að leka upplýsingum um stefnubreytingu ríkisstjórnarinnar í orkumálum til að hafa áhrif á umræðu og beina henni í farveg sem ríkisstjórnin hefi velþóknun á. Í tölvupóstinum lýsti aðstoðarmaðurinn, Elías Jón Guðmundsson, ánægju sinni með hugmyndina með orðunum „tussu fínt“. Ýmsir töldu sig sjá kvenfyrirlitningu í þessum orðum en Katrín virðist ekki hafa þá séð ástæðu til að láta aðstoðarmanninn bera ábyrgð á þessum orðum.

„Éttan sjálfur“

Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, er einn af þeim sem lýst hafa mikilli hryggð og sagst mjög sleginn vegna ummæla þingmannanna. Hann er þó ekki alveg saklaus af því að vera sakaður um munnsöfnuð eða dónaskap og jafnvel hálfgert líkamlegt ofbeldi gegn öðrum þingmanni og ráðherra, og það inni í þingsal á hinu háa Alþingi. Í nóvember 2008 varð honum svo heitt í hamsi við orðaskipti við Björn Bjarnason að hann hrópaði að Birni „éttan sjálfur“ og gekk þar á eftir að forsætisráðherra og ekki verður annað séð á upptökum frá atvikinu en að Steingrímur hafi lagt á forsætisráðherra, Geir Haarde, hendur og ýtt ákveðið við honum.

„Segðu honum frænda þínum að hoppa upp í rassgatið á sér“

Eflaust er hægt að rifja upp fleiri ummæli núverandi þingmanna og fyrrverandi sem spyrja má hvort samrýmist siðareglum þingsins um prúðmannalega framkomu eins og til dæmis ummæli sem Þórunn Sveinbjarnadóttir, þáverandi þingflokksformaður Samfylkingarinnar viðhafði um mann sem lýst hafði óánægju sinni með þingmanninn þegar hún var í sjónvarpsviðtali og maðurinn átti leið framhjá. Þórunn var þá í viðtali við fréttamann RÚV. sem sagði henni að þarna væri frændi sinn á ferð og vísast væri hann bara að djóka. Þórunn mun ekki hafa látið sér þá skýringu nægja og bað fréttamanninn um skilaboð til frænda hans: „Segðu honum frænda þínum að hoppa upp í rassgatið á sér“. Og þetta var spilað í fréttum.

Þó hér hafi verið stiklað á stóru varðandi ummæli sem vart geta talist sóma þingmönnum og vitað er um, má af þeim líklega álykta að önnur eins og ef til vill jafn krassandi ummæli, og féllu á Klausturbar, hafa eflaust fallið í til dæmis þingflokkspartýum allra flokka. Munurinn er bara sá að þau hafa ekki náðst á upptöku.