Innlent | 05.March

Þung undiralda gegn Guðríði Arnardóttur formanni Félags framhaldsskólakennara

Kosið verður um nýjan formann Félags framhaldsskólakennara og hófst kosning í dag og stendur fram eftir vikunni. Frambjóðendur til formanns eru núverandi formaður, Guðríður Arnardóttir og Guðmundur Björgvin Gylfason framhaldsskólakennari við Fjölbrautarskólann á Selfossi (FSU). Óhætt er að segja að töluverð óánægja er með núverandi formann sem hefur þótt óheflaður í samskiptum við marga umbjóðendur sína. Skinna.is hafði samband við aðila sem Guðríður hefur staðið í illdeilum við en þeir vildu ekki koma fram undir nafni af ýmsum ástæðum.

Einn heimildamaður, framhaldsskólakennari, sagðist ekki skilja upp né niður í framkomu Guðríðar. Samskipti sín og formannsins hefðu upphaflega byrjar vegna fyrirspurnar sinnar um ákveðið mál. Viðmót Guðríðar hefði síðan tekið miklum breytingum og sér fyndist þau orðin mjög ófyrirleitin á köflum og oft særandi af hennar hálfu.

Annar heimildamaður sagði að hann vissi til þess að mjög stirt væri á milli formannsins og félaga í mörgum framhaldsskólum. Nefndi hann þar sérstaklega Tækniskólann og Menntaskólann í Reykjavík. Eins væri í mörgum öðrum skólum kergja vegna framgöngu Guðríðar þó það væri misjafnt hvernig fólk bæri henni söguna þar sem hann þekkti til. Eitt af því sem virðist hafa gert marga framhaldsskólakennara andsnúna Guðríði er ofuráhersla hennar á vinnumat sem innleitt var í kjarasamninga framhaldsskólakennara og margir eru óánægðir með. Svo virðist sem vinnumatið geti oft á tíðum leitt til þess að kennarar skuldi skólanum tíma og þá þarf að finna út úr hvernig kennarinn vinnur það af sér. Það gæti til dæmis verið gert með því að kennarar þurfi að sitja yfir bókasafni skólans eða á annan hátt, en skinna.is hefur ekki fengið nein staðfest dæmi um slíkt. Svo virðist sem flestir skólastjórar leiði hjá sér skuld á tímum ef þannig háttar til.

Guðríður sagðist hafa heimildir fyrir því að lögreglan, fasteignasala og Háskóli Íslands hefðu ráðlagt að kæra sig

Heimildamaður skinna.is sem upphaflega var minnst á sendi skinna.is afrit af svari sem Guðríður sendi honum á fésbókarsíðu þar sem hún sagðist hafa heimildir fyrir því að hann hefði haft samband við lögregluna, Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands, Rannsóknir og greiningu við Háskólann á Akureyri, KMPG, Félag íslenskra lögreglumanna, Fasteignasöluna Hraunhamar og allir hafi ráðlagt honum að stefna Guðríði „fyrir hinar ýmsu sakir.“

Framhaldsskólakennarinn segir í pósti til skinna.is: „ Hinn 12. feb. sl. sendi Guðríður mér skilaboð (opin á "framhaldsskólakennarinn" á facebook), þar sem segir m.a. " Mér er kunnugt um að þú hafir haft samband við Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands, Rannsóknir og greiningu við Háskólann á Akureyri, KPMG, xxxx, Félag íslenskra lögreglumanna, fasteignasöluna Hraunhamar, yyyy, sem allir hafi ráðlagt þér að stefna mér fyrir hinar ýmsu sakir. " ( xxxx og yyyy eru aðilar sem ég nafngreini ekki hér og vil ekki blanda inn í þetta). - Tilvitnun lýkur.“

Hvatti til þess að nýr trúnaðarmaður yrði kosinn

Það er ljóst að í sumum skólum virðist vera trúnaðarbrestur á milli formanns Félags framhaldsskólakennara og umbjóðenda hennar. Margir eru ósáttir við samskipti sín og formannsins og meðal annars hafi hún uppnefnt fólk í tölvupósti. Kennari sem er trúnaðarmaður í sínum skóla segir til að mynda hann hafi þurft að velja á milli þess að mæta á trúnaðarmanna fund eða sleppa kennslu. Hann hafi valið að sleppa trúnaðarmanna fundinum vegna þess að hann hafi verið veikur og frá kennslu í nokkra daga áður, og nemendur því verið á eftir í kennsluáætlun. Hann hafi viljað vinna upp tímana sem hann hafi verið frá og því tilkynnt að hann myndi ekki mæta á fundinn. Þá hafi borist bréf frá Guðríði sem stílað var á stjórn kennarafélags skólans þar sem hvatt var til þess að nýr trúnaðarmaður yrði kosinn.

Guðmundur Björgvin nýtur fylgis vegna andstöðu við vinnumatið

Svo virðist sem Guðmundur Björgvin njóti töluverðs fylgis vegna andstöðu sinnar við vinnumatið. Það er því spennandi kosning framundar um formann Félags framhaldsskólakennara en kosningu lýkur föstudaginn 9. mars kl. 14:00.