Innlent | 05.November

Þarf enn á ný að kalla til vinnustaðasálfræðing hjá Pírötum?

Miklar deilur eru nú innan Pírata, sem er öfgaflokkur til vinstri í íslenskum stjórnmálum, og ganga ásakanir um einelti og tuddaskap milli manna. Úrsagnir hafa verið úr flokknum vegna deilna og meðal annars hefur varaborgarfulltrúi flokksins, Rannveig Ernudóttir, sagt að hún hafi ekki áhuga á að starfa lengur að borgarmálum undir merkjum Pírata.

Ásakanir í þessa veru eru ekki nýjar af nálinni hjá flokknum. Árið 2016 þurfti þingflokkur Pírata á vinnustaðasálfræðing að halda til þess „að laga samskiptaerfiðleika innan flokksins...,“ eins og segir í fréttum frá þessum tíma. Þá voru meðal annars uppi deilur milli Birgittu Jónsdóttur og Helga Hrafns Gunnarssonar og fuku nokkur fúkayrði á milli þeirra í fjölmiðlum sem virtist enda með sáttum fyrir atbeina vinnustaðasálfræðingsins.

Birgitta sagði sig úr flokknum 1. desember 2017 á twitter að eigin sögn í viðtali við visir.is í apríl 2018. Í viðtali við Fréttablaðið frá sama tíma segist hún ekki nenna að troða sér upp á fólk og gefur í skyn að hún líti á marga félaga sína sem tóma vitleysingja. Orðrétt segir Birgitta Jónsdóttir í viðtalinu:

„Mér finnst fullt af frábæru fólki vera að vinna inni á þingi og það er fullt af flottum Pírötum,“ segir Birgitta en bætir við að það eru líka vitleysingar alls staðar. Lífið sé einfaldlega þannig.

Ekki er langt síðan að Morgunblaðið greindi frá því í fréttaskýringu að blaðið hefði heimildir fyrir því að þingmenn úr öðrum flokkum þættu Píratar erfiðir í samstarfi og átti það að vera samdóma álit þingmanna bæði úr stjórnarliðinu og stjórnarandstöðu. Kemur fram að Steingrímur J. Sigfússon segi Pírata formfasta anarkista sem hlýtur að vera nokkur þversögn í hugmyndafræði þeirra en anarkistar hneigjast yfirleitt til skipulagsleysis og glundroða.