Innlent | 09.September

Sveinbjörg Birna segir stórmosku komna í Öskjuhlíð: Formaður Þjóðfylkingar vill loka moskunni

Sveinbjörg Birna sem nú er óháður borgarfulltrúi í Reykjavík fullyrti í viðtali á ÍNN að stórmoska væri komin í Öskjuhlíð. Þetta sagði hún í þætti Björns Bjarnasonar fyrrverandi ráðherra. Blaðamaður skinna.is fór að húsinu í dag og komst að því að fullyrðing Sveinbjargar virðist standast.

Stórt skilti er komið utan á Ýmishúsið svokallaða í Öskjuhlíð þar sem stendur stórum stöfum á íslensku og ensku: „Stórmoskan á Íslandi – The grand Mosque of Iceland.“

Áður var sagt að húsið hýsti Menningarstofnun múslíma á Íslandi. Eins og komið hefur fram í fjölmiðlum urðu átök á milli tveggja hópa múslíma fyrir utan húsið vegna deilu um leigu. Annar hópurinn sem kallaði sig Stofnun múslíma á Íslandi stefndi Menningarsetri múslíma vegna ólögmætra leiguafnota. Málið fór fyrir dómstóla og var Menningarsetrinu gert að rýma húsið.

Lögreglan í átökum á sokkaleistunum

Þegar útburðurinn fór fram, með aðstoð lögreglu, réðist einn fylgjandi Menningarsetursins á Karim Askari framkvæmdastjóra Stofnunar múslíma á Íslandi með steypustyrktarjárni. Það vakti athygli að lögreglumenn sem farið höfðu inn í húsið komu hlaupandi út á sokkaleistunum til að handtaka árásarmanninn.

Núverandi söfnuður sem er í húsinu hefur fengið leyfi hjá núverandi vinstrimeirihluta í Reykjavík fyrir stækkun moskunnar og að reisa turn við hlið hennar sem margir halda fram að muni þjóna hlutverki bænakalls.

Formaður Þjóðfylkingarinnar segir flokkinn vilja loka moskunni

Guðmundur Karl Þorleifsson formaður Íslensku þjóðfylkingarinnar sem hefur á stefnuskrá sinni að koma í veg fyrir að moskubyggingar verði leyfðar á Íslandi sagði í viðtali við skinna.is að flokkurinn hygðist koma í veg fyrir stækkunaráform við moskuna með framboði flokksins í Reykjavík. „Við viljum draga til baka öll leyfi fyrir starfsemi mosku hvort sem það er þarna eða annars staðar í Reykjavík,“ sagði Guðmundur.

Guðmundur sagði að flokkurinn hviki ekki frá afstöðu sinni í þessu málefni frekar en öðrum. Hann sagði að sér litist mjög illa á þróun mála í Öskjuhlíð.