Innlent | 03.March

Fréttaskýring: Stjórnmálamenn fara amerísku leiðina: Gráta sig inn í hjörtu kjósenda í beinni?

Í amerískum raunveruleika þáttum er algengt að fólk reyni að afla sér samúðar með því að fara að gráta í beinni.

Ræða þingmanns Vinstri grænna úr ræðustól Alþingis um vopnaflutninga íslenska flugfélagsins Air Atlanta vakti mikla athygli. Þingmaðurinn Rósa Björk Brynjólfsdóttir fór nánast að gráta í ræðustól í beinni útsendingu frá Alþingi um málefnið. Ástæðan var að þingmaðurinn gaf sér það að vopn sem hefðu verið flutt af flugfélaginu hefðu verið notuð gegn almenningi í Sýrlandi og Jemen.

Frétt fjölmiðla um grátstaf Rósu Bjarkar um málið hefur mikið verið deilt á netinu og sitt sýnist hverjum. Ýmsir gefa í skyn að tár Rósu séu krókódílatár. Gústaf Níelsson spyr á fésbókarsíðu sinni hvort Rósa hafi fellt tár þegar VG heimilaði loftárásir á Líbýu: „Hræsnin hefur margar birtingarmyndir. Rekur einhvern minni til þess að Rósa Björk Brynjólfsdóttir hafi fellt tár, þegar VG heimilaði lofárásir á Líbýu?“, segir Gústaf í færslunni. Gústaf fær mörg viðbrögð við athugasemd sinni. Í einni athugasemd er spurt, „Var Rósa með nýskorinn lauk með sér í ræðustólnum?“

Grét Flokkur fólksins sig inn á þing?

Annað atvik þar sem stjórnmálamaður var umtalaður fyrir að gráta í beinni útsendingu var Inga Sæland í formannaumræðum RÚV fyrir síðustu kosningar. Þar ræddi Inga kjör öryrkja á Íslandi. Í lok ræðu sinnar vöknaði Ingu um augun og er það samdóma álit margra að þar hafi hún á lokaspretti kosningabaráttunnar náð að vekja mikla samúð með Flokki fólksins og grátið sig inn í hjörtu kjósenda sem dugði til að koma flokknum á þing.

Bjarni beygður og íhugaði stöðu sína og snéri taflinu við

Annað atvik sem tengja má við umræðuna nú er þegar formaður Sjálfstæðisflokksins, Bjarni Benediktsson, stóð mjög höllum fæti 2013. Þá hafði flokkur hans mælst með töluvert fylgistap í könnunum. Í einlægu viðtali við RÚV fyrir kosningarnar, og var mikið niðri fyrir þó hann hafi ekki verið grátandi, mátti heyra kökkinn í hálsinum á honum. Bæði vinir og óvinir Bjarna í Sjálfstæðisflokkum brugðust við af hörku og náði hann að fylkja flokknum á bak við sig.

Grét Albert Guðmundsson sig inn á þing?

Ef horft er til baka þá er óhætt að segja að viðtal sem Ingvi Hrafn Jónsson, þá fréttastjóri RÚV, og Hallur Hallsson fréttamaður, áttu við Albert Guðmundsson, sem þá var þingmaður og ráðherra Sjálfstæðisflokksins, hafi verið í ætt við amerísku raunveruleika þátta ímyndina. Viðtalið var mjög hjartnæmt og einum of hjartnæmt að áliti margra sjálfstæðismanna. Albert var mjög beygður, ekki ólíkt og Rósa Björk Brynjólfsdóttir var í ræðustól Alþingis á miðvikudag.

Albert fékk mikla samúð út á viðtalið og stofnaði upp úr því Borgaraflokkinn enda hafði hann verið hrakinn úr ráðherraembætti og nánast úr Sjálfstæðisflokknum. Borgaraflokkurinn fékk góða kosningu 1987 og klauf Sjálfstæðisflokkinn eftirminnilega. Þorsteinn Pálsson sem var formaður Sjálfstæðisflokksins fékk hin vegar enga samúð kjósenda þótt hann bæri sig illa í viðtölum. Má á velta fyrir sér hvort karakter og útgeislun stjórnmálamanna skipti máli í þessu sambandi. Þorsteinn var oft sakaður um að hafa hvorugt til að bera.

Það er þó allavega gert grín að mér!

Þorsteinn Pálsson mætti einhverju sinni Ólafi Ragnari Grímssyni í kappræðum í útsendingu í sjónvarpinu. Ólafur var þá ráðherra í ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar (1989-1991) og gert hafði verið grín af honum í skaupi Ríkisútvarpsins það árið. Þegar Ólafur var að tala í viðtalinu skellti Þorsteinn skyndilega upp úr. Var hann þá spurður að því hvers vegna hann hefði hlegið. Þorteinn svaraði að hann hefði verið að hugsa um það hvort hann væri að hlusta á Ólaf Ragnar stjórnmálamanninn eða eftirhermuna úr áramótaskaupi Sjónvarpsins. Þá svaraði Ólafur því til að það væri þó gert grín að honum í áramótaskaupinu en Þorsteinn væri svo litlaus stjórnmálamaður að það væri ekki einu sinni gert grín að honum! Við þetta vafðist Þorsteini tunga um tönn en grét þó ekki.

Mega kjósendur eiga von á grátandi sveitarstjórnarmönnum í beinni í maí?

Nú er spurning hvort ameríska leiðin sé að verða leiðandi í atkvæðaveiðum íslenskra stjórnmálamanna. Fróðlegt verður að sjá hvað gerist í beinum útsendingum fyrir næstu sveitarstjórnarkosningar?