Innlent | 18.November

Símtal Geirs og Davíðs: Þjóðir Evrópu gáfu Íslendingum puttann

Afrit af samtali Geirs H. Haarde fyrrverandi forsætisráðherra og Davíðs Oddssonar fyrrverandi seðlabankastjóra hefur verið gert opinbert í Morgunblaðinu í morgun.

Lengi hefur verið kallað eftir því að afritið verði gert opinbert því margir hafa gert að því skóna að þar komi með öruggum hætti fram hver lánaði Kaupþingbanka gjaldeyrisvaraforða Íslands og hvers vegna. Óhætt er að segja að engin svör komi fram við því hvers vegna það var gert. En lesa má í samtalið að ákvörðunin um að Kaupþingi skuli lánað sé ríkisstjórnarmegin fremur en Seðlabankamegin.

Þeir ljúga þessu bara

Í afritinu af samtalinu er greinilegt að Davíð Oddsson telur að peningarnir fáist aldrei til baka og það er greinilegt að seðlabankastjóri telur þá Kaupþingsmenn ljúga því að þeir geti greitt peningana til baka eftir fjóra til fimm daga.

„Ég býst við því að við fáum ekki þessa peninga til baka. Þeir segja að þeir muni borga okkur eftir fjóra til fimm daga en ég held að það séu ósannindi eða við skulum segja óskhyggja,“ segir Davíð Oddsson í símtalinu við Geir forsætisráðherra.

Í samtalinu virðast báðir gera sér grein fyrir að Kaupþing muni ekki ná að standa í lappirnar nema í nokkra daga. Hann muni falla síðastur eins og raunin varð á. Því má spyrja af hverju var bankanum samt lánað?

Þjóðir Evrópu gáfu Íslendingum puttann

Í afritinu af samtali Geirs og Davíðs kemur líka skýrt fram að Evrópusambandið og þjóðir Evrópu voru meira en tilbúnar til að láta Ísland sökkva til botns. Það hefur reyndar komið fram í eftirmálum hrunsins að jafnvel vinir okkar og bandamenn í Ameríku vildu ekkert fyrir Íslendinga gera. Allar þjóðir fengu líflínu frá Seðlabanka Bandaríkjanna nema Íslendingar. Í samtalinu minnist Davíð á þessa staðreynd að Evrópu þjóðir hafi ekki viljað hjálpa Íslendingum á þessum tímapunkti þó reyndar Pólverjar og Færeyingar hafi seinna lánað Íslendingum myndarlegar fjárhæðir eftir hrunið.

Davíð: „Nei, þeir ráða aldrei við neitt af því, sko, en þetta er það besta leiðin ef við getum afskrifað allar skuldir þjóðarinnar þó að það muni valda vandræðum í Evrópu þá en þeir bara hjálpuðu okkur ekki neitt þannig að það er ha...“

Nýjustu fréttir

No ad