Innlent | 03.August

Kærunefnd útlendingamála á villigötum

Fjölmiðlarnir Morgunblaðið og Vísir hafa fjallað um mál hollenskrar konu sem Hæstiréttur dæmdi í átta ára fangelsi fyrir fíkniefnasmygl 2016. Þungur dómur sem er eins og hálfur dómur fyrir manndráp. Þetta virðist vera sanngjarn dómur í takt við aðra slíka dóma í ljósi umfangs málsins.

Eftirmálin virðist hins vegar vera taktlaus. Kærunefndar útlendingamála virðist ekki vera sammála Hæstarétti og komst að þeirri niðurstöðu að hún væri ,,...ekki ógn við íslenskt samfélag og verður ekki vísað úr landi á þeim grundvelli. Þetta er niðurstaða kærunefndar útlendingamála, sem felldi nýverið úr gildi ákvörðun Útlendingastofnunar um að reka konuna úr landi og setja hana í 20 ára endurkomubann.“ Rétt er að taka það fram að hún hlaut 11 ára fangelsi fyrir smyglið í héraðsdómi en Hæstiréttur mildaði dóminn í átta ár.

Í Morgunblaðinu segir að Útlendingastofnun hafi í apríl ákveðið að vísa konunni úr landi. Ákvörðunin hafi verið á grundvelli ákvæðis í útlendingalögum sem veiti heimild til brottvísunar EES- og EFTA-borgara ef það er nauðsynlegt með skírskotun til allsherjarreglu og almannaöryggis og ef framferði viðkomandi felur í sér ógn gagnvart grundvallarhagsmunum samfélagsins.

Ennfremur kemur fram hjá Morgunblaðinu að Útlendingastofnun taldi þessi skilyrði uppfyllt í ljósi þess mikla magns sterkra fíkniefna sem konan hafði smyglað til landsins.

Kærunefndin er hins vegar ósammála og telur það konunni meðal annars til tekna að hún hafi ekki komið að því að skipuleggja smyglið, né selt efnið, verið samvinnufús eftir að upp komst um brotið og tekið þátt í tálbeituaðgerð á vegum lögreglu. Þar fyrir utan renni framferði hennar í fangelsi stoðum undir það mat að hún sé ekki ógn fyrir samfélagið, að því er segir í Morgunblaðinu.

Þessi úrskurður kærunefndar virðist ekki ganga upp að mati margra ef litið er á forsöguna. Í fyrsta lagi leit héraðsdómur þennan glæp, þennan stórglæp að íslenskum lögum, alvarlegum augum og dæmdi hana í mjög langt fangelsi, sem 11 ára dómur sannarlega er fyrir fíkniefnasmygl. Í öðru lagi var Hæstiréttur sammála héraðsdómi en mildaði dóminn í 8 ár, sem er samt sem áður þungur dómur. Og í þriðja lagi komst Útlendingastofnun, sem fer eftir lögum um útlendinga og sem að margra mati er of mildur lagabálkur, að sömu niðurstöðu að hún væri ógn við íslenskt samfélag og ákvað að vísa konunni úr landi.

Ef eiturlyfjasmygl er ekki almannaógn við heilsu og líf íslenskra ungmenna og annarra sem háðir eru fíkniefnum, hvað er það þá? Ekki er hægt að fela sig bak við að vera ,,bara tannhjól í fíkniefnasöluvélinni,“ og bera þar með enga ábyrgð á sjálfri sölunni. Fullorðin manneskja hlýtur að vita afleiðingar þessara gjörða. Eru það ekki grundvallarhagsmunir samfélagsins að bjarga sem flestum lífum þeirra sem hafa orðið undir í baráttunni við fíknina?

Hvaða hag hefur íslenskt samfélag af því að fá þessa konu inn í þetta litla samfélag? Er það tryggt að hún muni ekki brjóta af sér aftur við endurkomu í samfélagið? Hefur hún ekki möguleika á að fara til baka, til Hollands? Hvaða nauðsyn knýr á um að hún fái að vera hér áfram?

Og stóra spurningin hér, hvaða stóradómshlutverk hefur kærunefnd útlendingalaga hér í þessu máli? Hvernig getur hún mögulega komist að þessari niðurstöðu, þegar hún horfir á dóm héraðsdóms, dóm Hæstaréttar, úrskurð Útlendingastofnunar og les texta útlendingalaga? Óskiljanleg niðurstaða í augum sumra ef ekki flestra leikmanna.