Innlent | 15.July

Íslenska þjóðfylkingin kærir Eyrúnu „haturslöggu“

Íslenska þjóðfylkingin hefur sent Eftirlitsnefnd með störfum lögreglunnar erindi vegna starfa Eyrúnar Eyþórsdóttur oft nefnd „haturslögga,“ eins og segir í fréttatilkynningu frá flokknum og birt er á heimasíðu flokksins.

Flokkurinn sendi nefndinni erindi sitt 17. janúar en er nú fyrst að fá staðfestingu á að erindið hafi borist. Flokkurinn segir erindið snúast um tjáningarfrelsið en fyrst og fremst um hvort það sé hlutverk embættismanns á vegum lögreglunnar að flokka ummæli fólks sem hatursummæli eftir sínu eigin gildismati og pólitísku skoðunum. Þar vísar flokkurinn í að Eyrún er þekktur vinstrimaður og hefur meðal annars setið á Alþingi fyrir Vinstri græna. Í yfirlýsingu Íslensku þjóðfylkingarinnar er gefið í skyn að lögreglufulltrúinn Eyrún noti aðstöðu sína til að ákæra fólk sem er á andstæðu meiði við skoðanir stjórnmálamannsins Eyrúnar.

Þessa skoðun áréttar Guðmundur Þorleifsson í viðtali við skinna.is.

- Nú sendi Íslenska þjóðfylkingin inn athugasemd til Eftirlitsnefndar með störfum lögreglunnar. Hvað er það sem ykkur finnst svona athugavert við störf hennar? Hvað eruð þið að gera athugasemd við?

„Störf lögreglunnar eiga að vera á jafnræðisgrunni en sú sem hefur verið ráðin til starfa, hún hefur lýst því yfir að hún sé með ákveðnar skoðanir. Hún hefur tengst ákveðum hópum með ákveðnar skoðanir. Það virðist vera að allir aðrir sem eru ekki á sömu skoðun sé réttlætanlegt að draga fyrir dóm,“ segir Guðmundur.

Skinna.is mun birta ítarlegra viðtal við Guðmund Þorleifsson formann Íslensku þjóðfylkingarinnar á morgun, sunnudag. Uppfært: Viðtalið við Guðmund er í vinnslu og ákveðið hefur verið að það birtist um næstu helgi.

Yfirlýsingu Íslensku þjóðfylkingarinnar má sjá í heild sinni á vefsíðu flokksins x-e.is