Innlent | 10.February

Fréttaskýring: Skattfé RÚV notað til höfuðs Sigmundi Davíð?

Mbl.is greinir frá því föstudaginn 2. febrúar að Ríkisútvarpið ætlar að kosta þætti sem fjalla um íslenskan forsætisráðherra sem er með geðhvarfasýki. Í fréttinni kemur fram að vitnað er í umfjöllun miðilsins Variety um málið.

Athyglisvert er að Kjartan Þór Þórðarson, framkvæmdastjóri hjá Sagafilm, fullyrðir að þættirnir fjalli um að kjósendur séu svo örvæntingafullir að losna við gamla stjórnmálamenn að þeir kjósi hvað sem er annað yfir sig. Hann fullyrðir að kjósendur séu fullir ábyrgðarleysis og kynni sér ekki þá einstaklinga sem eru í boði hverju sinni.

Er Sigmundur Davíð skotmark RÚV?

Það þarf ekki að velta hlutunum lengi fyrir sér til að komast að þeirri niðurstöðu að hér er líklega verið að tala um Sigmund Davíð Gunnlaugsson fyrrverandi forsætisráðherra sem Ríkisútvarpið gerði vel heppnaða atlögu að þegar hann var forsætisráðherra og felldi úr stóli forsætisráðherra. Mörgum sögum hefur verið komið á kreik af andstæðingum Sigmundar um meinta geðhvarfasýki hans eða geðveiki. Sögur voru á kreiki um að hann hefði í stóli forsætisráðherra þurft að fara til Bretlands til lækninga. Engar af þessum getgátum virðast vera sannar eftir því sem skinna.is kemst næst og ekki vottur af fréttum í fjölmiðlum sem gætu rennt stoðum undir sögusagnirnar. Ekki einu sinni hjá ríkisútvarpi allra landsmanna sem sumir kalla fréttastofu Samfylkingarinnar og Vinstri grænna.

Misnotkun á skattfé?

Það hefur ekki farið fram hjá neinum að grunnt hefur verið á því góða milli ákveðinna fréttamanna og þáttargerðamanna á fréttastofu Ríkisútvarpsins ohf. og ákveðinna stjórnmálamanna eins og Davíðs Oddssonar og Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar.

Fræg er aðförin sem gerð var að Ólafi F. Magnússyni í Kastljósþætti, af Helga Seljan, þegar Ólafur var borgarstjóri og átti við veikindi að stríða. Mörgum blöskraði aðfarir fréttamannsins á þeim tíma. Mjög hefur dregið úr trúverðugleika og áhorfi á fréttir Ríkissjónvarpsins vegna vantrausts landsmanna á stofnunina.

Raddir um einkavæðingu RÚV

Háværar raddir hafa verið síðustu ár um að einkavæða eigi eða jafnvel leggja niður Ríkisútvarpið ohf. Ástæðan er að fólki finnst fréttaflutningur útvarpsins og sjónvarpsins einhliða og að klíkumyndum grasseri innan stofnunarinnar en engin stjórnmálamaður eða stjórnmálaflokkur þori að taka á málinu. Á meðan borgi skattborgarar fyrir nauðugir / viljugir. Margir vilja ríkisútvarp en eru ósáttir að þurfa að borga fyrir greinilegar aðfarir fréttastofunnar að einstaklingum eða fyrirtækjum á sinn kostnað. Ríkisútvarpið ohf. fær hátt í 4 milljarða á ári frá skattgreiðendum fyrir utan auglýsingar.