Innlent | 04.February

Fjölmiðlar í hár saman: vísir.is og fréttamaður RÚV saka Moggann um svindl í áskriftaleik?

Morgunblaðið hefur staðið fyrir áskriftaleik þar sem boðið er uppá ýmsa vinninga fyrir þá áskrifendur sem dregnir eru út. Blaðamaður visir.is skrifar frétt um áskriftarleikinn og vitnar þar í kollega sinn á Ríkisútvarpinu, Stíg Helgason, sem sagður er sérstakur áhugamaður um áskriftaleiki Morgunblaðsins. Ekki er hægt að lesa annað út úr fréttinni en að gefið sé í skyn að Mogginn eða einn ritstjóri blaðsins séu að svindla þegar dregið er um vinninga meðal áskrifenda.

„Haraldur [ritstjóri] hefur einstakt lag á því að draga út þekk[t]a einstaklinga úr hrúgunni, reyndar með rafrænum hætti, sem eiga það svo jafnframt sammerkt að vera sérlegir velunnarar blaðsins og innmúraðir og innvígðir Sjálfstæðismenn,“ segir Jakob Bjarnar blaðamaður visir.is sem skrifar fréttina. Síðan eru taldir upp nokkrir einstaklingar sem hafa unnið í áskriftaleiknum, bæði þingmenn Sjálfstæðisflokksins og dómarar og greinilega má skilja á fréttinni að ýjað er að því að svindl sé í spilunum í úrdrættinum.

Enda ber frétt visir.is yfirskriftina: „Innmúraðir vinningshafar í áskriftaleik Moggans.“

Mogginn verið gagnrýninn á Ríkisútvarpið og 365 miðla

Greinilegt er að þessir fjölmiðlar eru komnir í hár saman en Mogginn hefur verið duglegur að gagnrýna fréttaflutning Ríkisútvarpsins og oft á tíðum fréttaflutning 365 miðla líka í ýmsum málum og borið upp á miðlana að fréttastofur þeirra séu aðallega skipaðar gömlum og nýjum kommúnistum. Annar þeirra þingmanna Sjálfstæðisflokksins sem bent er á, í frétt visir.is, að hafi verið dregin út í áskriftarleiknum, Brynjar Níelsson, skrifaði opinberlega um hvernig væri skipað í lið fréttastofu 365, þar sem hann taldi upp þá fréttamenn 365 miðla sem hafa áður verið í trúnaðarstörfum fyrir flokka vinstrimanna á Íslandi. Allt frá ungum sem öldnum úr gamla Alþýðubandalaginu og svo arftökum þess, Vinstri grænum, og Samfylkingunni.

Að sama skapi hefur andúð fréttastofu 365 miðla og fréttastofu Ríkisútvarpsins á Morgunblaðinu, og sérstaklega á Davíð Oddssyni öðrum ritstjóra fréttamiðilsins, ekki farið framhjá neinum.

Fréttina má lesa í heild sinni á visir.is með því að smella hér.

Myndir eru skjáskot af visir.is