Innlent | 22.February

ESB vill að EFTA ríkin tilkynni því um væntanleg lagafrumvörp

Í norskum fjölmiðlum er sagt frá því að EFTA ríkin ræði nú hugmyndir Evrópusambandsins um að Ísland, Noregur og Liechtenstein sendi ESB lagafrumvörp og reglugerðir til samþykktar eða synjunar þremur mánuðum áður en þau eru lögð fyrir Alþingi og verða að lögum. Ekki aðeins vill ESB að þeir fái lagafrumvörp til umsagnar fyrirfram sem leggja á fram á þingum EFTA ríkjanna heldur vill sambandið líka fá samþykktir stjórnsýslunnar á sveitastjórnarstigi til sín þremur mánuðum áður en fyrirhugað er að þau taki gildi.

Þessar hugmyndir munu hafa komið fyrst fram hjá ESB árið 2016.

Í umfjöllun fjölmiðilsins steigan.no segir að Erna Solberg forsætisráðherra Noregs taki þessum hugmyndum vel.

Þessar hugmyndir hafa ekki komist í umræðuna hér á landi og ekki vitað hvaða afstöðu íslenskir ráðamenn hafa til þeirra. Ekki er ólíklegt að Guðlaugur Þór utanríkisráðherra og aðrir ráðherrar í ríkisstjórninni vilji halda þessum fréttum frá íslenskum almenningi eins lengi og hægt er enda má búast við hörðum viðbrögðum almennings hér á landi við slíkum fréttum. Þetta mál myndi bætast ofan á umræðuna um þriðja orkupakka ESB en Sjálfstæðisflokkurinn á fullt í fangi með að leita leiða við að innleiða orkupakkann sem fyrst í andstöðu við þjóðina og grasrót flokksins.

Umræðan gegn innflutningi á hráu kjöti, mjólk og eggjum að þyngjast

Nú þegar er ekki bara umræðan um þriðja orkupakkann stjórnarflokkunum þung í skauti en að auki þyngist umræðan gegn fyrirætlunum ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Vinstri grænna og Framsóknarflokks um uppgjöf þeirra í landbúnaðarmálum. Eins og komið hefur fram ætla þessir flokkar að standa fyrir því að hingað megi flytja hrátt kjöt, mjólk og egg frá öðrum löndum og stefna þar með ómenguðum bústofnum á Íslandi í hættu. Bæði erlendir og innlendir veirufræðingar hafa varað stjórnvöld við þessum áformum.

Raddir gegn EES samningnum styrkjast

Í kjölfar útspils og uppgjafar stjórnarinnar í landbúnaðarmálum gagnvart ESB hafa raddir sem lengi hafa haldið því fram að EES samningurinn sé stjórnarskrábrot og vilja endurskoða samninginn eða hreinlega segja EES samningnum upp, fengið byr undir báða vængi.