Innlent | 09.February

Bryndís hellir sér yfir Ingibjörgu Sólrúnu

Bryndís Schram vandar fyrrverandi formanni Samfylkingarinnar, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, ekki kveðjurnar í grein í Morgunblaðinu í dag. Væntanlega er greinin skrifuð í tilefni umræðunnar um eiginmann Bryndísar, Jón Baldvin Hannibalsson.

Greinin er full af háði um persónu og frama Ingibjargar Sólrúnar en hún hefur verið í vinnu hjá Alþjóðastofnunum í tengslum við mannréttindamál.

Komið hefur fram hjá Jóni Baldvini að honum finnist sem dómstóll götunnar hafi farið um sig ósanngjörnum höndum. Ingibjörg Sólrún blandaði sér í umræðuna um meinta ósæmilega hegðun Jóns gagnvart kvenfólki þegar hún upplýsti að hún hefði farið fram á það við Jón að hann segði sig frá því að sitja í heiðurssæti á lista Samfylkingarinnar fyrir einhverjar alþingiskosningarnar vegna þess að hún hafi fengið veður af bréfi sem Jón sendi ungri stúlku í fjölskyldu hans. Það kveður við hæðnistón þegar Bryndís segir að nú hafi „Sólrún“ þann starfa að fara um Austur Evrópu og vara valdhafa við að leyfa dómstólum götunnar að vaða uppi.

Í greininni minnir Bryndís á að Sólrún, en Bryndís kýs að nefna hana alltaf með milli nafninu í greininni, hafi verið formaður Samfylkingarinnar þegar hrunið átti sér stað og beri þar af leiðandi ábyrgð á því. Einnig hæðist Bryndís að Ingibjörgu Sólrúnu þegar hún á fundi í Háskólabíó sagði þessi fleygu orð: „Þið eruð ekki þjóðin.“

Mætti skilja af skrifum Bryndísar að hún saki Ingibjörgu um heigulsskap og svik þegar hún skrifar, í tilefni þess að Samfylkingin stóð fyrir því að Geir Haarde var kallaður fyrir Landsdóm: „Hún var svo sniðug að hún sannfærði meirihluta þingflokks Samfylkingarinnar um að hún hefði aldrei haft neitt vit á efnahagsmálum – eða þannig. Það voru jú fáir sem treystu sér til að mótmæla því. Svo hún slapp með skrekkinn.“

Í lok greinarinnar skrifar Bryndís: „Hefurðu heyrt hvað Solla kallar konurnar sem í skjóli nafnleydar eru að segja ljótar sögur um Jón Baldvin? Hún kallar þær hetjur, en ekki hugleysingja. Og hverju svarar Jón Baldvin? Hann segir að ef karakter að þessu kaliberi (og á víst við Sólrúnu) hallmælir manni megi sá hinn sami meðtaka það sem hól. Og hann segist vera að bíða eftir því að formaður samfylkingarinnar gefi aftur út yfirlýsingu að gefnu tilefni. Um hvað? Að það þarfnist ekki nánari skýringa að formaðurinn núverandi sé afar stoltur af Sólrúnu, forvera sínum á formannsstóli.“