Innlent | 07.March

Breytingar eða ný klíka tekin við í Eflingu?

B-listi vann stórsigur í kosningum til formanns og stjórnar verkalýðsfélagsins Eflingar en úrslitin voru ljós eftir miðnætti í nótt. Ný formaður Eflingar, Sólveig Anna Jónsdóttir, segir að hún hafi ekki átt von á jafn stórum sigri og raun varð á en B-listinn fékk um 80% greiddra atkvæða.

Ásakanir gengu á víxl

Eins og komið hefur fram í fjölmiðlum hefur B-listinn verið ásakaður af A-lista um að vera útsendarar Gunnars Smára Egilssonar sem er forystumaður í Sósíalistaflokknum. B-listinn hefur aftur á móti ásakað A-listann um að vera samansafn af fólki sem hafi komið sér og sínum vel fyrir innan félagsins og er að hugsa um aðra hluti en að bæta kjör verkafólks. Sólveig Anna segir í viðtali við RÚV að skýringa á sigri sínum sé fyrst og fremst að leita í því að verkafólki hafi verið orðið „viðbjóðslega“ misboðið.

Ljóst er að margir sem börðust gegn framgangi B-lista munu þurfa að starfa undir hans stjórn á skrifstofu félagsins. B-listin talaði mjög gegn meintu aðgerðarleysi félagsins undir stjórn þeirra sem mynduðu A-lista og gefið var í skyn að þeir sem réðu félaginu væru klíka sem hugsaði fyrst og fremst um eigin hag. Það mun koma í ljós á næstu mánuðum hvort baráttan um Eflingu breyti einhverju fyrir félagsmenn eða hvort niðurstaðan sé sú að ný klíka hafi komist til valda í félaginu og hlutirnir detti í sinn gamla farveg.