Innlent | 01.September

580 hælisleitendur í öruggu húsnæði en 1000 Íslendingar á biðlistum eftir húsnæði í borginni

Útlendingastofnun greinir frá því á vef sínum að 580 hælisleitendur séu í þjónustu hjá stofnuninni og hjá félagsþjónustu Reykjavíkurborgar, Hafnarfjarðar og Reykjanesbæjar, á grundvelli þjónustusamninga við Útlendingastofnun.

Gríðarleg sprenging hefur orðið í hælisumsóknum á íslandi frá því Alþingi samþykkti ný lög um útlendinga. Helst hefur orðið fjölgun umsókna frá löndum sem talin eru örugg eins og Albaníu eða Georgíu. Ástæður þessa eru helst raktar til þess að Alþingi sendi albanskri fjölskyldu sem hér sótti um hæli íslenskan ríkisborgararétt í pósti til Albaníu eftir mikinn þrýsting fjölmiðla og þær fréttir hafi borist út um Austur-Evrópu og víðar.

Nú hefur félagsmálaráðuneytið tilkynnt að tekið verði á móti 50 til 100 kvótaflóttamönnum á næsta ári.

Formaður fjárlaganefndar Alþingis hefur sagt að kostnaður íslenskra skattgreiðenda vegna hælisleitenda verði ekki undir 10 milljörðum á þessu ári og þá er ótalinn annar óbeinn kostnaður.

Í umfjöllun Kjarnans í mars á þessu ári um húsnæðismál í Reykjavík er bent á að hátt í 1000 Íslendingar séu á biðlista eftir félagslegu húsnæði hjá borginni og fer fjölgandi. Álíka biðlistar eru í öðrum sveitarfélögum.

Sjötugur og sárnar að hælisleitendur séu teknir framfyrir

Skinna.is ræddi við sjötugan mann sem hefur árangurslaust reynt að fá félagslegt húsnæði frá hruni í borginni og nágrannasveitarfélögum, en hann missti allt sitt í fjármálahruninu 2008. Hann segist ekki skilja þessa stefnu íslenskra stjórnmálamanna. Hann hefur alltaf fengið þau svör þegar hann sækir um félagslega íbúð að það séu engar á lausu og biðtími sé mjög langur. Fyrir utan það sé hann of tekju hár, en hann fær um 200 þúsund krónur í örorkubætur á mánuði.

Svo lesi hann í fjölmiðlum að verið sé að taka hælisleitendur og flóttamenn fram fyrir hann í félagslega húsnæðiskerfinu. Þetta sárni honum mjög.

Hingað til hefur honum tekist að leigja íbúð með hjálp vina og vandamanna. Nú séu hins vegar blikur á lofti því leigusali hafi ákveðið að hækka leiguna umtalsvert og við það ræður hann ekki.