Greinar | 19.May

„Viltu fá kvittun?“


Huginn skrifar:

Hver kannast ekki við þessa spurningu við búðarkassann? Viðskiptavinurinn fer inn í verslun, sama hverja tegundar hún er, hann verslar og fer að búðarkassanum. Þar eru vörurnar skannaðar samviskusamlega og loks krafist greiðslu. Kúnninn borgar annað hvort með peningi og málið þar með dautt eða hann greiðir með greiðslukorti.

Ef hann greiðir með greiðslukorti er þess gætt vandlega að kortið sé ekki falsað eða stolið með því að það er annað hvort skannað eða stimplað er inn pin númer. Verslunin hefur sitt á hreinu. Svo kemur spurningin: ,,Villtu kvittun?“ Þetta á ekki að vera spurning, heldur sjálfsagt mál í viðskiptum. Ef greitt er með greiðslukorti fær kúnninn alltaf greiðslukortakvittun sem sýnir heildarupphæð þess sem verslað var en hending er ef hann fær útprentaðan lista yfir þær vörur sem verslað var fyrir.

Við vitum öll að í hraðri afgreiðslu vill oft bregða við að skannað er vitlaust inn eða gleymst hefur að skanna inn vörur. Stundum reynist varan vera skemmd. Svo þarf kúnninn að geta sannað mál sitt, að hann hafi virkilega keypt umrædda vöru.

Oftast nær er afgreiðslufólk vinsamlegt og allt að vilja gert til að leysa málið en treysta verður þá á orð kúnnans að hann segi rétt frá. Annað er að komið hefur fyrir að eftir afgreiðslu hafi kúnninn verið sakaður um að stela vöru og hann kannski kominn út úr versluninni. Þá hefur hann engin sönnunargögn sér til varnar.

Óskiljanlegt er að verslanir setji þetta í vald viðskiptavina, hvort þeir vilja kvittun eða ekki. Þá á ekki að spyrja, heldur hreinlega leggja kvittunina á borðið og kúnninn ræður því hvort hann tekur hana með. Næsta líklegt er að fleiri taki kvittun ef þeir eru ekki spurðir og kvittunin liggur á borðinu. Hættið að spyrja og farið að lögum, neytendur eiga rétt á að fá kvittun án málavafninga. Engin spurning!