Greinar | 31.January

Viðbygging stjórnarráðshússins eins og skrattinn úr sauðaleggnum


  1. Huginn skrifar:

Mikið hefur gengið á í miðbæ Reykjavíkur hvað varðar uppbyggingu hans. Margar nýjar byggingar hafa risið, sumar hverjar fallegar, líkt og tónlistarhúsið Harpa. Þar sem um glænýja byggingu var um að ræða, skiptir byggingastíllinn minna máli og ekki þarf að taka tillit til húsa á svæðinu þar sem hún stendur, enda voru þar áður skúrar og geymslusvæði hafnarinnar.

Annað mál gegnir um Stjórnarráðshúsið sem er með elstu húsum Reykjavíkur og í útjaðri kvosarinnar og stendur við Lækjargötu ásamt mörgum öðrum gömlum byggingum. Stjórnarráðshúsið er að sjálfsögðu friðað en í dag er þarforsætisráðuneytið til húsa. Kíkjum á hvað íslenska útgáfan af Wikipedia segir um húsið:

,,Forsaga hússins er sú að þann 20. mars 1759 gaf Danakonungur út úrskurð um að byggja þyrfti tugthús á Íslandi. Var það að undirlagi Skúla Magnússonar „fógeta“. Bygging hófst tveim árum seinna og var húsið tilbúið veturinn 1770–71. Hegningarhúsið, sem alvanalegt var að nefna Múrinn, varð við það helsta tukthús Íslands. Fanga í hegningarhúsinu nýtti Skúli Magnússon sem vinnuafl fyrir Innréttingarnar. Í sömu mund var lagður skattur á fasteignir og kúgildi til fangahalds (Tukthústollurinn), og var óvinsæll meðal alþýðunnar. Tugthúsið var lagt niður árið 1816. Árið 1904 tók fyrsta íslenska ráðuneytið til starfa í húsinu, og síðar stjórnarráðið, sem húsið heitir eftir, 1918.“

Stjórnarráðshúsið er í afar látlausum rókokkóstíl og reist að danskri fyrirmynd.Það var reist ásamt fleiri opinberum byggingum á seinni hluta 18. aldar og standa öll þessi hús ennþá uppi. Meðal húsa sem dönsk stjórnvöld reistu voru: Viðeyjarstofa 1753-55, Hóladómkirkja 1757-63, Bessastaðastofa 1761-67, Nesstofa 1761-63, fangahúsið í Reykjavík (Stjórnarráðshúsið) 1765-70, Viðeyjarkirkja 1766-74, Landakirkja á Heimaey 1774-78, Bessastaðakirkja 1777-1795 og dómkirkjan í Reykjavík 1787-96.

Stjórnarráðshúsið er sögufræg bygging og má illa við skemmdarverk eða framið sé stílbrot eins og vinningstillagan að viðbyggingu gerir ótvírætt. Byggingarsvæðið bakvið húsið er lítið og virðist sem viðbyggingin eigi að tengjast húsið með forljótum tengigang og bakhliðin þannig skemmd.Það eru flestir gáttaðir á arkitektúr nútímans, sem virðist aldrei geta litið til fortíðar um hugmyndir. Það hafa hins vegar menningarþjóðir eins og Þjóðverjar þó haft vit á, en meirihluti borga þeirra var sprengdur í loft upp í seinni heimsstyrjöld en þær voru endurreistar í fyrri stíl. Þessar borgir eru mjög falllegar og virðast geyma gamla sögu, þótt byggingarnar séu nýlegar.

Það virðist vera vaxandi andstaða við þessa viðbyggginu. Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar og fyrrverandi aðstoðarmaður Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, hefur þetta að segja um sigurtillöguna:

„En svona í alvörunni, hvað er flókið við að byggja annað hús í sama stíl aftan við íkonískasta hús miðbæjarins? Seriouslý? Var þetta teiknað í Austur-Þýskalandi um 1980? Þetta er ekki í neinu samhengi við neitt á þessu svæði. Bara ekkert! Það eina sem er gott við þetta hús er að er að það sést illa frá götunni. Nákvæmlega svona rugl er ástæðan fyrir því að Lækjargötusvæðið átti að vera fyrsta verndarsvæðið í byggð þegar lögin tóku gildi.“

Væri ekki ráð að spyrja þjóðina um þetta í könnun eða kosningu? Þetta er nú einu sinni ,,hús fólksins“ og ætti ekki vera í höndum arkitekta sem endilega þurfa að sýna hversu snjallir þeir eru og stjórnmálamanna með engin tengsl við fortíðina.Stjórnmálamönnum er greinilega ekki treystandi fyrir menningararfinum eins og sjá má nú í Fótgetagarðinum, fyrrum kirkjugarð Reykjavíkur.Helgi staðarins, grafarfriður látins fólk og grafir þeirra eru bókstaflega fótum troðið af væntanlegum ferðalöngum hótels sem nú er verið að reisa. Virðingarleysið er algjört og skilningur lítill. Skömm þeirra er mikil sem standa að þessum ófögnuði á báðum stöðum.