Greinar | 11.June

Vestræn varnarsamvinna á tímamótum?


Huginn skrifar:

Eins og flestum er kunnugt er fylgjast með alþjóðastjórnmálum, þá eru komnir brestir í samvinnu G7 ríkja eftir leiðtogafund ríkjanna í Kanada nýverið. Donald Trump rauk af fundi og sendi í kveðjuskyni mörg reiðitíst til eftirsitjandi leiðtoga. Efnahagssamvinna þessara auðugustu ríkja virðist í hættu og verndartollastríð í aðsigi.

Athygli vekur að Trump hefur ekki gleymt NATÓ í þessari orrahríð og lét þau orð fjúka, að bandalagið væri í sigtinu og ekki væri gleymt hversu bandalagsríki leggðu lítið til varnarsamstarfsins og Þýskaland væri þar fremst í flokki.

Trump hefur beint spjótum sínum að Evrópuþjóðum sem eiga aðild að Atlantshafsbandalaginu (NATO) og krafið þær um að verja meira fé til eigin varna. Þá vakti athygli á sínum tíma þegar Trump lét hjá líða að ítreka skuldbindingu Bandaríkjanna um að þau kæmu NATO-ríkjunum til varnar ef ráðist yrði á þau þegar hann ávarpaði þing þess í fyrra.

Rætt var við Björn Bjarnason á vefmiðlinum visir.is, formann Varðbergs, samtaka um vestræna samvinnu og fyrrverandi dómsmálaráðherra. Þar segir: ,,Hvað varðar NATO segir Björn að engir brestir hafi komið í það samstarf þrátt fyrir að aðildarríki þessi hafi skipst á skoðunum um einstök mál í gegnum tíðina.“ En er þetta rétt mat hjá Birni Bjarnasyni?

Það er alveg ljóst að Donald Trump hefur ávallt staðið við stóru orðin og hann mun að öllum líkindum draga úr áþreifanlegri viðveru bandarískra hersveita í Vestur-Evrópu og auka hana í austurhlutanum. Dregið verður úr framlögum til bandalagsins. Líklegt er að hann geri beina tvíhliða samninga við ríki eins og Pólland og Eystrasaltsríkin þrjú, í stað þess að fara í gegnum NATÓ með varnarsamstarfið, líkt og Bandaríkjamenn hafa gert við íslensk stjórnvöld.

En hvað ætlar Donald Trump sér með Ísland? Hvar standa Íslendingar í þessu sambandi? Eru einhverjar áætlanir í gangi hjá íslenskum stjórnvöldum ef allt fer á versta veg?