Greinar | 04.October

Umferðatafir á morgnana í boði sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu


Huginn skrifar:

Umferðarvandinn á höfuðborgarsvæðinu er gífurlegur og hann eykst frá degi til dags. Það er alveg sama þótt borgaryfirvöld í Reykjavík og hinum sveitarfélögunum stinga hausinn í sand og neita veruleikanum, fólk mun halda áfram að nota fólksbílinn. Tvær meginástæður fyrir því. Óblíð veðráttan og langar vegalengdir milli staða. Reiðhjól er ekki valkostur fyrir stórar fjölskyldur, það vita allir. Það þýðir ekki að leggja stein í götu fólks eins og reynt er núna.

Hvað er þá til ráða? Af nógu er að taka en nærtækast væri að byrja á Miklubraut. Þar eru til að mynda þrjú gönguljós fyrir gangandi vegfarendur! Þar af eitt við Klambratún en þar var nýverið lokið við ,,vegbætur“ en þar eru gönguljósin látin standa eftir sem áður. Þetta er aðalstofnæð höfuðborgarsvæðisins og samt eru höfð þarna gönguljós. Ef einn einstaklingur kveikir á gönguljósi, þá stöðvar það för hundruð manna með tilheyrandi mengum. Er þetta boðlegt? Byggja mætti göngubrýr eða undirgöng á þessum stöðum og leysa þannig eitthvað af vandanum. Þetta gildir líka um Hringbraut, þar eru gönguljós sem tefja umferð.

Gatnamót Bústaðavegar og Reykjanesbrautar þarf að byrja á ekki seinna en á morgun.

En það verður að byrja að gera eitthvað í sambandi við gatnamót Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar. Umferðatappinn þarna við gatnamótin teygir sig alla leið til Engidals í Hafnarfirði. Bíll við bíll alla morgna. Þetta er ótækt fyrir Hafnfirðinga og aðra. Ein leiðin væri að beina umferðinni út á Álftaness og þaðan til Arnarness, yfir til Kópavogs og til Suðurgötu í Reykjavík. Þannig væri búið að búa til nýja stofnæð til miðbæjar Reykjavíkur og í raun hringbraut sem væri jafnframt hraðbraut.

Annað er að Reykjanesbraut í gegnum Hafnarfjörð er eins og slagæðargúlpur sem bíður eftir að springa. Einbreiðir vegir frá Kaplakrika til Engidals og flóknustu hringtorg landsins eru við Kaplakrika og er það stíflað margar klukkustundir á dag. Sama má segja um hringtorgið við Setbergið, allt stíflað tvisvar á dag, morgna og síðdegis. Svo þarf að tvöfalda Reykjanesbraut suður fyrir Straumsvík.

Öll þessi umbótaverk í umferðamannvirkjum þarf að byrja á strax. Þetta þolir enga bið. Ómælt vinnutap og mengun verður á hverjum degi. Hvað eru sveitarfélögin að gera til að leysa vandann?