Greinar | 30.October

Þjóðflutningar hafnir

Huginn skrifar:

Þjóðflutningar í sögunni eru ekki nýir af nálinni. Allt frá því að akuryrkjan hófst og til urðu fjölmennar þjóðir eða þjóðflokkar, sköpuðust skilyrði fyrir fjöldaflutninga fólks. Í fornöld voru fjölmennir þjóðflokkar sem tóku sig upp með allt sitt hafurtask og hófu leit að nýjum heimkynnum. Ástæða þessara þjóðflutninga voru oftast vegna offjölgunar, uppskerubrests eða vegna þess að þjóðirnar voru hraktar á flótta vegna innrásar óvinaþjóða.

Í Evrópu er ákveðið tímabil sem kallast ,,þjóðflutningarnir miklu“ og hófust á hnignunartíma Rómaveldis og stóðu þeir meira og minna í margar aldir eftir það. Reyndar þurftu Rómverjar í þúsund ára sögu sinni að verjast innrás erlendra þjóða inn í ríki sitt. Ástæðan var margvísleg; ófriðartímar, ofsetið land, hnignun landgæða eða hreinlega að fólk leitaði í betri lífskjör og frið sem Rómaveldið bauð upp á. Rómverjar reyndu að hafa stjórn á þessu en réðu að lokum ekki við ástandið og ríkið féll innan frá.

Ef farið er aftur í nútímann, þá leiddi síðari heimsstyrjöldin til mikla breytinga á landamærum og stórfeldir þjóðflutningar áttu sér stað, bæði á stríðsárunum og eftirstríðsárunum. Nasistarnir fluttu milljónir manna til Þýskalands til að vinna í verksmiðjunum og eftir stríðið sömdu sigurvegararnir um að þetta fólk yrði flutt með góðu eða illu til fyrri heimkynja. Verst fóru Þjóðverjar sjálfir út úr þessu en hátt í 14 milljónir Þjóðverja fluttust eða voru neyddir frá heimkynnum sínum í Austur-Evrópu vegna landamærabreytinga eða vegna þess að þeir höfðu gert sig ansi heimakomna í nágrannalöndum Þýskalands á nasistatímanum. Fjöldi manns lést á leiðinni.

Í dag streymir fólk í norðurátt, til velmegunarríkjanna í Evrópu og til Bandaríkjanna. Allir kannast við flóðbylgjuna miklu frá Afríku 2015 þegar hátt í milljón flóttamenn gengu eða sigldu til Evrópu eftir að Angela Merkel sagði hin fleygu orð: ,,Wir schaffen das“ eða ,,við reddum þessu“ en spurði nágrannaþjóðirnar ekki um álit eða hvort þær réðu við þennan mikla mannfjölda. Meirihluti þessara flóttamanna eða hælisleitenda reyndust svo vera ungir karlar í leit að betri lífskjörum.

Nágrannaríki Þýskalands neyddust til að loka landmærum sínum með girðingum og koma þannig í veg fyrir að straumurinn héldi áfram. Niðurstaðan var að ESB reyndist allsendis ófært um að verja eigin landamæri og er ástæðan einföld. Fólk fær að sækja um hæli við komuna til Evrópu og vegna skrifræðis fær það að dvelja í álfunni oft um ókomna tíð. Þetta reynir mjög á velferðakerfi ríkjanna og veldur óróa í ríkjunum, bæði efnahagslega sem og stjórnmálalega. Afleiðinguna má sjá í afhroði sósíaldemókrata víðs vegar um álfuna, sérstaklega í Svíþjóð og nú síðast í Þýskalandi.

Annað er að Evrópusambandið sjálft hefur verið ófært að koma á flóttamannabúðum utan Evrópu í Norður-Afríku þótt það hafi reynt þá leið. Hræsnin er mikil. Allt er reynt til að koma í veg fyrir að hælisleitendur komist til álfunnar en þegar þangað er komið, þykkjast menn vera mannúðlegir og veita sumum hæli en öðrum ekki. Engin þjóð vill taka við þessu fólki og reynt hefur verið að koma á kvótakerfi sem Austur-Evrópuríkin hafa neitað. Með því að koma á flóttamannabúðum utan Evrópu, hverfur hvatningin fyrir hælisleitendur að reyna að komast til Evrópu. Það veit sem er, að það mun aldrei stíga fæti á evrópska grund og leggur þar af leiðandi af að fara í hættuförina yfir Miðjarðarhafið.

Þessa aðferð hafa Ástralíumenn beitt með góðum árangri en umdeildri þegar þeir hleypa ekki flóttamönnum inn til Ástralíu, heldur koma þeim fyrir á eyjum utan lögsögu lands síns. Þetta er harkalegt en hefur ef til vill komið í veg fyrir mikinn harmleik þúsunda manna sem hefðu annars reynt að sigla sjóleiðina til Ástralíu og látið lífið.

Síðast flóðbylgjan flótta- og hælisleitenda hófst í Ameríku nýverið, nánar til tekið í Hondúras en þar hefur stór hópur fólks tekið sig upp og stefnir til Bandaríkjanna. Samkvæmt nýjustu fréttum er annar hópur að leggja af stað frá San Salvador sömu leið. Bandaríkjamenn ætla sér ekki að taka við þessu fólki.

Hvað segir þetta um ástandið í heiminum? Ljóst er að flóttamenn víðs vegar um heiminn skipta tugum milljóna og eru flestir flóttamenn fastir innan eigin landamæra, sbr. í Sýrlandi. Ástandið er ekkert að fara að breytast og ef eitthvað er, á það eftir að ágerast og verða verra viðureignar þegar svo kallaðir loftslagsflóttamenn leggja af stað.

Evrópa, þótt rík sé, getur ekki ráðið við ástandið og ekki tekið við nema að takmörkuðu leyti við flóttafólki. Sama á við um Bandaríkin, eitt ríkasta land heimsins, ef þau myndu opna landamærin, þá hafa skoðanakannanir leitt í ljós að hátt í 200 milljónir manna í Suður- og Mið-Ameríku hafa lýst yfir áhuga sínum að flytja til Bandaríkjanna í leit að betri kjörum. Þennan fjölda ráða Bandaríkjamenn ekki við.

Hvað er þá til ráða? Það auðljóst að einhverja stýringu verður að hafa á ástandinu, því að móttökuþjóðirnar margar ráða ekki við fjöldann og hætta á að ástandið innanlands fari úr böndum. Opin landamæri, til dæmis innan Evrópu, virðast vera dauðadæmt fyrirbrigði. Talað er um að Íslendingar þurfi ekki vegabréf í ferðum sínum um Evrópu en raunin er sú að allir taka með sér vegabréfin.

Jafnvel hér á litla Íslandi, verða menn að taka afstöðu og hér getur ástandið farið úr böndum. Það hefur þegar reynt á þetta og kostnaðurinn verið mikill. Staðsetning Íslands er hætt að skipta máli, því að samgöngur eru greiðar og hælisleitendur, þegar þeir eru einu sinni komnir inn fyrir landamæri ESB, geta tekið næstu flugvél og flogið til Íslands. Engin refsing er á flugfélög fyrir að koma hingað til lands með vegabréfalaust fólk. Hælisleitendur koma því nánast allir með flugi til Íslands. Er það í lagi? Hver eru þolmörk íslenskt samfélags, þ.e.a.s. hversu marga hælisleitendur ráða Íslendingar við?