Greinar | 09.September

Sunnudagspistill: Það versnar en besnar lítt. Reykjavík er orðin leiðinleg og ljót

Það er miður hve Reykjavík hefur breyst að svo mjög mörgu leiti mjög til hins verra á undanförnum árum. Við sem að upplifðum og munum aftur í tímann finnst margt þar sorglegt. Nú er t.d. vart hægt að komast leiðar sinnar og illmögulegt að leggja bíl ef maður þarf að athafna sig. Aldraðir og hreyfihamlaðir sem ekki eru hjólhestafærir komast ekki lengur niður í miðbæ t.d. í dómkirkjuna vegna skorts á bláum bílastæðum. Slæmt var það fyrir, en nú með því að loka á helstu götum eins og Laugaveginum og gera að göngugötum verður það næsta vonlaust. Og ráðamenn virðast jafnframt hafa gleymt misjafnri veðráttu á Íslandi.

Meira að segja nýjustu hverfin eru þannig að það eru varla næg bílastæði fyrir íbúana hvað þá gesti þeirra. Þétting byggðarinnar t.d. fyrir aftan útvarpshúsið er slík að maður undrast að nokkur vilji kaupa sér þar íbúð þ.m.t. barnafólk, sem að hefur sínar þarfir sem að falla ekki nauðsynlega að hinni sérstöku þröngsýni, sem skipulagsyfirvöld borgarinnar áskapar fólki.

Fólkinu hefur fjölgað, túristar eru fleiri en nokkru sinni fyrr og bílum hefur auðvitað fjölgað að sama skapi vegna þess að fólk vill komast á eða eiga bíl og veðurfar á Íslandi er slíkt að bílinn er fólki mikilvægur og veitir því frjálsræði. Ástæða er til að hafa áhyggjur af frekari umferðarvanda vegna staðsetningar nýja landspítalans og er hann þó oft ærinn fyrir. Samt sem áður eru götur þrengdar, en engar nýjar umferðarléttandi framkvæmdir í gangi t.d. ekki mislæg gatnamót þar sem að þeirra er brýn þörf, þetta þrátt fyrir að vegagerðin hafi árum saman boðist til að fara í sumar slíkar borginni að kostnaðarlausu. Rándýr en mjög takmörkuð borgarlína mun litlu breyta í þessum efnum, hvað þá veðráttunni og væru tíðari og betri strætósamgöngur um alla borgina ódýrari, sveigjanlegri og betri lausn fyrir það fólk sem á ekki bíl. Fulltrúar Samfylkingarinnar hafa m.a. látið hafa það eftir sér á þá leið að það þýði ekkert að fara í gatnaframkvæmdir eða mislæg gatnamót því að þá flytjist vandamálin bara til og svo þurfi jú líka að gera eitthvað meira í framtíðinni þegar að slíkar lausnir verði fullnýttar. M.ö.o. að lausnir á vandamálum nútíðar séu óþarfar vegna þess að það muni e.t.v. koma upp ný verkefni í framtíðinni. Einu sinni var svona lagað kallað hundalógík og minnir á faktorinn sem sagði að það þýddi ekkert að vera með ákveðna vöru, segjum það hafa verið Prince Polo, því að sér héldist bara ekkert á henni, hún bara seldist og seldist. En tvær fyrri sem og nýkjörin borgarstjórn hunsar eftirspurn og vilja almennings og heldur áfram í öfgafenginni þrengingar og þröngsýnisstefnu sinni.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson fyrrverandi forsætisráðherra benti líklega fyrstur manna opinberlega á það slys sem er að verða eða þegar orðið í gamla miðbænum við höfnina nálægt Hörpu. Einhverjar ljótustu byggingar landsins eru komnar þar upp og maður furðar sig á því hvernig þær hlutu samþykki byggingayfirvalda borgarinnar. Líklega eru borgarfulltrúar meirihluta borgarstjórnar jafn smekklausir og hönnuðir og aðstandendur bygginganna. Þá er ásýnd gamla miðbæjarins enn ljótari en hún þarf að vera vegna þess að þar er ekkert þrifið, tyggjóslettur og rusl og skítur allráðandi. Þannig kynnir borgarstjórn höfuðborgina fyrir útlendingum og við Íslendingar eigum víst ekkert betra skilið, enda oft hinir mestu sóðar sjálfir. En eins og með lausnir á umferðarteppum að þá þýðir víst ekkert að þrífa því allt mun skitna aftur fyrr en seinna.

Það er mjög margt sem að má finna að núverandi borgarstjórn án þess að fara út í það allt hér, en höfundur vill þó finna mest að þeim sem að kusu liðið yfir sig og aðra. Það er því miður ekki hægt að skipta um sveitastjórnir í kosningum nema á fjögurra ára fresti og því þurfa borgarabúar og þau sem að fara um borgina að þola það að sitja í umferðarteppum og komast ekki leiðar sinnar og horfa upp á ljótleikann og allan skítinn næstu fjögur árin. Það er heldur ólíklegt miðað við reynsluna að þetta lið muni eitthvað vitkast.

Að lokum langar mig að minna á orðið trjáfíkjusulta, sem er þýðing á ensku orðunum „traffic jam.“