Greinar | 28.October

Sunnudagspistill: Sjálfsmynd þjóðar

Íslendingar nútímans eru mjög uppteknir af nútímasamfélaginu og allri þeirri tækni sem því fylgir. Allir virðast eiga farsíma, tölvur og önnur snjalltækni og í allri þessari tækni gleyma menn sér og einblína á nútíðina í gegnum snjalltækin og flestir virðast hættir að leita sér fróðleiks í gegnum bækur.

Það er svo með þjóðir og einstaklinga, að allir eiga sitt upphaf og eitthvert stefna þeir. Íslendingar eru ef til vill meðvitaðri um hvert þeir stefna en þeir vita minna um hvaðan þeir koma. Hvers vegna skyldi svo vera? Þetta á ef til vill ekki við um eldri kynslóðirnar, sem kunna sögu Íslands og Íslendinga ágætlega. Meira áhyggjuefni eru kynslóðirnar sem eru nú að alast upp.

Skólakerfið virðist ekki standa sig sem skyldi. Ef litið er til yngsta stigs grunnskólans, þá er sögunni hrært saman við aðrar námsgreinar, oftast nær við félagsfræði en stundum við náttúrufræði eða landafræði. Þetta er gott og blessað en slík sögukennsla er í skötulíki. Sama á við um kennslu á miðstiginu, ekki kafað djúpt í viðfangsefnið. Á unglingastiginu er bókaröðin Sögueyjan 1-3 kennd og er eftir Leif Reynisson og er hún mikil framför frá bókaröðinni Sjálfstæði Íslands eftir Gunnar Karlsson, sem er hreinlega skelfilega leiðinleg fyrir unglinganna að lesa. Líklega hafa allir grunnskólar skipt út bókum Gunnars Karlssonar.

Í 10. bekk er sagan samþætt við Þjóðfélagsfræði og er það góð leið til þess að nemendur átti sig á stöðu sinni í samfélaginu.

Eftir að framhaldsskólinn var styttur í 3 ár, hefur sögukennslunni farið aftur enda færri áfangar í boði. Hér er það mikilvægt að nemendurnir fái greinagóða kennslu enda er fókusinn meiri á umheiminn, veraldarsöguna. Sú mynd af Íslandssögunni sem nemendur eru komnir með eftir grunnskólanámið er eins og nokkur brot úr mósakmynd, það vantar heildarmyndina. Í framhaldsskólanum er heimssagan samþætt við Íslandssöguna, þ.e.a.s. sú síðari er felld inn í veraldarsöguna á því tímabili sem Ísland hefur verið byggt.

Það sem er verið að reyna segja er að þótt saga Íslands sé kennd, þá vantar mikið upp á að tengja Ísland við umheiminn og ef nýjar kynslóðir skilja þessi tengsl ekki, geta þær ekki tekið upplýstar ákvarðanir um atburði nútímans. Tökum sem dæmi samskipti Bandaríkjanna og Rússlands. Hvernig á hinn ungi Íslendingur að skilja og tekið afstöðu til deilumála þeirra í nútímanum ef þeir skilja ekki forsöguna? Af hverju var hér til dæmis heræfing NATÓ og fáeinir einstaklingar mótmældu þessum æfingum. Af hverju erum við Í NATÓ, EES, EFTA, S.þ. og svo framvegis?

Er ekki hætt við að sjálfsmynd íslensku þjóðarinnar óskýrist eða hverfi ef þessu er ekki sinnt? Skiptir þetta ekki máli ef Íslendingar vilja vera áfram þjóð á meðal þjóða?