Greinar | 16.September

Sunnudagspistill: Hvers vegna er hugsunarháttur svo margra Íslendinga eins og hann er?

Það er orðið þannig að fólk er almennt hætt að taka gamla víkinginn á hlutina heldur lítur það til ríkisins til þess að hugsa fyrir sig og sjá um alla skapaða hluti. Það kýs sér svo enn og aftur þau hin sömu sem sérgæðingslega og slyndrulaust þenja út opinberan rekstur og eyðslu á annarra manna kostnað, sem sífellt færri standa undir. Það er næstum sem að engar athafnir eða rekstur skuli líðast nema hjá hinu opinbera og sífellt kostnaðarsamara regluverk á öllum sviðum, háir skattar og ýmis gæluverkefni og óþarfi eru í miklu uppáhaldi. Það má ekki lækna fólk eða læra á bók nema hjá hinu opinbera og samkeppni er lítil á flestum sviðum. Þá er eftirtektarvert hve almenningur er illa að sér um margt og hugsunarháttur hans orðinn einsleitur og oft öfugsnúinn og gjarnan öfgafenginn. Hvítt verður svart, svart verður hvítt og allt svo bleikt eða rautt á milli. Það er og ekki vel liðið ef minnst er á íslenskt þjóðerni eða þjóðrækni og klassíska menningu og það þykir orðið fínt að tala slíkt niður. Er stóri bróðir Orwells alveg búinn að taka hér yfir eða hvers vegna er fólk svona eða lætur þetta ganga yfir sig hugsunarlaust?

Vélráð áróðursvéla vinstrisins

Höfundur telur áratuga opinber sósíalismi t.d. í skólum annars vegar og svo næstum því lengst af hið eiginlega einræði í upplýsingaveitu séu að miklu leiti skýringarnar. Það sjálfstætt hugsandi fólk sem enn er til verður að fara að átta sig á því að það er frætt og fætt orðið næstum eingöngu úr sömu skoðanaátt af áróðursmiðlum Samfylkingarinnar eins og Ríkisútvarpinu alræmda og eins Fréttablaðinu og því miður Stöð 2.

Tvö ólík dagblöð

Höfundur fær Morgunblaðið og Fréttablaðið á hverjum morgni og það er næstum því fyndið þó frekar grátlegt að sjá hve efnistök þessara tveggja blaða eru ólík. Á meðan að Morgunblaðið er blað frelsis og frjálsræðis, er opið og býður velkomin ýmis sjónarmið greinahöfunda, að þá er í Fréttablaðinu eingöngu kratísk þröngsýni til allra hluta. Það fær t.d. enginn inni hjá Fréttablaðinu sem að er uppvís að því að vera inn við beinið andstæðingur innlimunar í ESB, þótt hann vilji gjarnan fjalla um eitthvað algjörlega óskylt því máli. Blaðið er á móti flugvellinum í Vatnsmýrinni, enda situr Samfylkingarmeirihluti borgarstjórnar á launráðum gegn honum. Svona má því miður lengi telja. Pistlahöfundar eru upp til hópa lýðskrumarar vinstrisins og er sami grautur endurframreiddur þar daglega bara í mismunandi skálum. Það er gamalt bragð valdbeitingarfólks, Rúv o.fl. að endurtaka áróðurinn nógu oft eða þar til hann verður að stórasannleik.

Frelsishugsjónafólk verður að safna liði

Það má hafa orð Ronalds Reagan bandaríkjaforseta í huga er hann sagði að lausn vandamálanna væri ekki ríkið, heldur að ríkið sjálft væri vandamálið. Það er ennþá til fólk sem vill alvöru lýðræði og frelsi til orðs og æðis. Það hefur orðið undir í hugmyndafræðibaráttunni, en það er enn tími til þess að safna saman liði og hefna að hætti fornmanna.