Greinar | 04.November

Sunnudagspistill: Er það borgarastéttin sem er að tjúllast yfir kröfum verkalýðshreyfingarinnar?

LEIÐRÉTTING: Skinna.is barst athugasemd frá Fréttablaðinu um að Sirrý Hallgrímsdóttir væri ekki blaðamaður hjá Fréttablaðinu heldur pistlahöfundur. Þetta leiðréttist hér með og verður orðinu blaðamaður breytt í pistlahöfundur í umfjölluninni hér að neðan.

Í fréttum er nú fjallað um pistil sem skrifaður er af Sirrý Hallgrímsdóttur pistlahöfundi á Fréttablaðinu og birtist á baksíðu blaðsins. Sá pistill gat ekki annað en farið illa ofan í nýkjörna forystu verkalýðshreyfingarinnar enda eru verkalýðsleiðtogar byrjaðir að bregðast við.

Formaður Eflingar bregst að vonum ókvæða við og talar um að pistill blaðamannsins sé dæmigerður fyrir borgarastéttina þegar verkalýðurinn sækir að með körfur um mannsæmandi laun.

Formaður Eflingar skýtur yfir markið

Pistlahöfundur ætlar að leyfa sér að lýsa þeirri skoðun að formaðurinn, Sólveig Anna Jónsdóttir, skjóti hér yfir markið. Það er ekki borgarastéttin sem er að tjúllast yfir sanngjörnum og réttmætum kröfum um að allir hafi laun sem nægja til framfærslu. Íslensk borgarastétt er í ekkert minni fjárhagsfjötrum en verkalýðsstéttin. Pistlahöfundur skilgreinir sjálfan sig til borgarastéttarinnar og getur vitnað um að hjarta hans slær með verkalýðsstéttinni og er mjög ánægður með þær breytingar sem orðið hafa í verkalýðsforystunni enda af gamla skólanum í pólitík og hefur gamla slagorðið í hávegum, „Stétt með stétt!“ Eitt sinn var þetta slagorð stjórnmálaflokks sem átti mikið fylgi meðal verkalýðsins og borgarastéttarinnar á Íslandi en nú er sá flokkur að skreppa saman niður í sama fylgi og borgaraflokkar á Norðurlöndum hafa aldrei komið sér upp úr, en það er önnur saga.

Hverjir eru það sem eru að tjúllast?

Hverjir eru það þá sem eru tjúllaðir yfir kröfum verkalýðsins? Er það ekki nýja stéttin á Íslandi, nýríka stéttin sem var sköpuð af Sjálfstæðisflokknum og endurreist eftir hrun af sósíalistum og kommúnistum og fóru hlæjandi aftur alla leið í bankann á kostnað verkalýðsins og borgarastéttarinnar. Auðvitað á það að vera þannig að fólk sem vinnur verkamannavinnu eigi rétt á mannsæmandi launum, launum sem tryggja þau sjálfsögðu mannrétti að fólk geti borgað leigu eða greitt af íbúðaláni, greitt fastan kostnað við rekstur fjölskyldu og átt eftir pening til tómstunda svo sem ferðalaga. Svoleiðis þjóðfélag er réttlátt þjóðfélag. Íslendingar vilja ekki þjóðfélag þar sem sumir eru súper jafnari en aðrir líkt og þjóðfélagið sem Orwell lýsir í bók sinni Animal farm sem þýdd var á íslensku undir titlinum Félagi Napóleon. Það er ekki borgarastéttin sem er að tjúllast, það er misskilningur hjá Sólveigu Önnu formanni Eflingar.

Það er nýríka stéttin, ræningjarnir, sem eru að tjúllast

Það er nýríka forréttindastéttin sem rændi bankanna, keypti stjórnmálamennina, listamennina, fjölmiðlanna og keypti sjálfri sér firðhelgi sem er að tjúllast. Þetta er sama fólkið og dásamar fullveldisframsal sem felst í þriðja orkupakka ESB vegna þess að það sér færi á að stela af okkur orkunni líka í gegnum hann. Það er þessi nýríka stétt, sem telur sig upphafna yfir verkalýðinn og borgarastéttina og lítur á sig sem gríska guði, sem er að tjúllast enda ógnar kröfugerð verkalýðsfélaga tilveru þeirra, en ekki okkar venjulega fólksins.