Greinar | 14.October

Sunnudagspistill: Er landflótti hafinn á ný?

Landflótti hefur reyndar verið nokkuð viðvarandi um alllangt skeið t.d. til Skandinavíu, en ýmislegt bendir til þess að nú sé að færast í aukana óskin um að koma sér héðan og frá því ástandi sem hér ríkir. Ástæðurnar fyrir óskinni er þráin um léttari lífsbaráttu og betra líf sem og að koma sér undan sívaxandi óþoli, öfgum og rétttrúnaðarpólitík sem æra marga jafnt sem það þrengir að ýmsu frelsi eins og skoðana og málfrelsinu; fólk er þrúgað til þess að „haga sér“, eins og t.d. nýlegt gerræði í Háskólanum í Reykjavík sannar. „Ísland er orðið bæði vont og leiðinlegt“ sagði einn viðmælandi höfundar.

Það er nokkuð ljóst að það ríkir víða spilling á Íslandi. Samkeppni er mjög ábótavant og viðskipti eru gjarnan gerð undir kunningja eða pólitískum tengslum frekar en að verið sé að leita eftir því sem best og hagkvæmast er. Þá stendur sjálft ríkisvaldið gegn aðhaldi og samkeppni t.d. í heilbrigðismálum og vill njörva allt niður í þrönga og þunga kerfishugmyndafræði þar sem einungis ríkisstarfsmenn mega sitja, en það er ávísun á innanhúss spillingu, skort á aðhaldi og uppbyggilegri gagnrýni og nýjum kröftum, sem allt hamlar framförum og eykur kostnað á öllum sviðum.

Höfundur þekkir nokkuð til og hefur auk þess talað við marga, bæði unga sem aldna. Þau sem ekki eru mjög hátt launuð sitja í hreinni fátækragildru, sem þau komast ekki út úr. Ungt fólk sér litla sem enga möguleika á að eignast eigið húsnæði og verr setta eldra fólkið getur sig heldur ekki hreyft og sér dýrtíðin til þess. Fólk, sem að hefur ferðast eða tekist að flýja s.s.til Spánar, spyr t.d. hvers vegna að lyf keypt í litlu apóteki þar skuli kosta margfalt minna en sambærilegt lyf kostar á Íslandi eða þá t.d. gleraugu? Á norðurlöndum, Bretlandseyjum og á Spáni svo dæmi séu tekin er almenn heilbrigðisþjónusta annað hvort greidd af viðkomandi ríki eða að hún er mjög mikið ódýrari en hér heima, t.d. tannlækningar. Matarverð er á fáum stöðum í heiminum dýrara en á Íslandi eins og reyndar flest öll nauðsynleg dagvara. Húsaleiga er víðast hvar ódýrari jafnvel mjög mikið ódýrari og um leið öruggara skjól en hér og lán til húsnæðiskaupa eru víðast hvar mikið aðgengilegri og húsnæðisverð er víða langt um ódýrara. Verðtrygging almennra neytendalána er víðast bæði óþekkt og ólöglegt fyrirbrigði, en tröllríður öllu hér. Hjón með tekjur einungis frá TR rétt skrimta hér heima á meðan að sama fólk með sömu tekjur hefur það all bærilegt og er miklu frjálsara á Spáni og í Portúgal, svo það er vel skiljanlegt að fólk vilji flytjast þangað, enda færist það mjög í vöxt einkum meðal eldra fólks. Það má því vel halda því fram að lífskjarakostirnir á Ísland séu miklu verri á mjög mörgum sviðum í þessum samanburði. Unga fólkið sér þetta og vill því flytja burt stundum bara eitthvað burt í örvæntingunni og tekur þá með sér þekkingu sína og vinnuafl, sem landið fer þá á mis við.

Það sem veldur þessari dýrtíð er væntanlega margt og kemur þar fleira til en lega landsins. Án þess að gera tilraun til þess að svara því til nokkurrar fullnustu að þá má nefna að mikill og dýr ríkisrekstur, nefndafargan þess og ýmiss konar óþarfa rekstur í litlu landi og kostnaðurinn því samfara og þá háir skattar eru augljóslega stórir áhrifavaldar. Þá má nefna óvægnar kröfur og óþolinmæði Íslendingsins og þá frekja og græðgi hans í að kröfur hans verði uppfylltar á sem skemmstum tíma þ.m.t. að hagnaður verði mikill og skjótfenginn. Útlendingar hafa gjarnan bent á þessar hliðar landans og finnst furðulegar og ekki það sem þeir eigi að venjast

þ.m.t. ótrúlega háa álagningu á flest. Er það hugarfar og að koma í hausinn á Íslandi, sem er að verðleggja sig út úr samkeppnismöguleikum og mun þá standa eftir með voða fínar og háar verðskrár en enga kaupendur. Þá má nefna að oft öfgafengin náttúruverndarsjónamið hamla þróun og þá nýjum tekjum í þjóðarbúið, sem ekki veitir af til þess að standa undir öllum kröfunum.

En flest af þessu er heimatilbúið og betri kjör og kostir ekki í neinu sjónmáli. Fólkið er óánægt og óhamingjusamt, en virðist eiga erfitt með að læra af reynslunni og kýs sér þetta sjálfskaparvíti í raun allt sjálft bæði í gegn um stjórnmálin sem og með almennri hegðun sinni. Því er sem er og fer sem fer. Íslendingar vilja fara og ómenntaðir útlendingar koma. Er það framtíðin?