Greinar | 02.September

Sunnudagspistill: Er flotið sofandi að feigðarósi?

Þau eru mörg óleyst vandamálin á Íslandi og vera má að ákveðin og alvarleg og jafnvel hættuleg krísa sé í uppsiglingu.

Í stuttu máli er það fyrst að nefna að afar mikilvægir kjarasamningar eru framundan á sama tíma og hagnaður margra fyrirtækja hefur minnkað. Við þekkjum gamanlausa stöðu flugfélaganna og hagnaður sjávarútvegsins hefur dregist mjög saman. Það er ekki lengur hægt að búast við því að makríllinn verði sú happdrættis kjarabót og hann hefur verið á undanförnum árum og það er ekki hægt að stóla á að fjöldi ferðamanna haldist sá sami og verið hefur og er dýrtíðin hér aðalvaldur þess. Húsnæðisvandinn er almennt mikill og m.a. á ungt fólk erfitt með að eignast eitt eða neitt. Það vantar úrræði fyrir heilabilaða sjúklinga, það vantar sjúkrarými fyrir ýmsa stóra hópa og svona má allt of lengi telja um brýn verkefni og vandamál.

Það vekur því furðu hve léttvægt þetta allt virðist í augum ráðamanna. Menn fara bara í frí sbr. t.d. langar utanlandsdvalir forsætis- og fjármálaráðherranna þeim einum til skemmtunar. Hefði ekki verið eðlilegra að þetta fólk allt hefði tekið alvarlega þá ábyrgð sem kosnir ráðamenn undirgengust og hefðu notað tímann til þess að vinna þess vegna dag og nótt til þess að takast á við vandamálin í stað þess að slappa bara af. Margir hefðu viljað sjá að tíminn hefði verið nýttur til djúpra viðræðna við aðila vinnumarkaðsins og til þess að finna lausnir á nefndum vandamálum þ.m.t. hvernig hægt væri að auka samkeppnishæfni þjóðarinnar og taka á flóttamannaþrautinni, þannig að þegar að þing kemur saman hefðu einkum forsætis- og fjármálaráðherra getað strax komið sterkt fram og lagt fyrir greiningu og fastar vel unnar og undirbúnar tillögur og farið tafarlaust í að framkvæma þær. Það hefði og verið sterkt pólitískt fyrir viðkomandi og unnið þeim traust og virðingu þjóðarinnar. Í stað þessa eru léttvæg tækifærissvör gefin í drottningarviðtölum um ekki neitt sem bitastætt er, en alvöru forsvarsmenn fara ekki í frí fyrr en þeir hafa lokið sínu. Einu sinni var talað um það að fljóta sofandi að feigðarósi þegar lítið er um aðgerðir. Mér sýnist orðtakið eigi því miður allt of vel við núna.