Greinar | 13.September

Stríðið gegn einkabílnum heldur áfram

Huginn skrifar:

Nýjasta atlaga borgarstjórnar gegn einkabílnum er varanleg lokun Laugarvegar og Bankastrætis.

Samgöngustefna Reykjavíkurborgar undir forystu Dags B. Eggertssonar er vægast sagt undarleg en því miður hefur hann setið of lengi við völd, þannig að stefnan hefur náð langt áleiðis.

Það er eins og borgarstjórnarmeirihlutinn hafi horn í síðu allra vélknúinna farartækja og vilji beina almenningi inn í almenningssamgöngur, sem er bara strætó eða hjólreiðar.

Frægt er stanslausar árásir á flugsamgöngur við höfuðborgina og sú undarlega afstaða að vilja ekki flugvöll í Reykjavík. Helst á hann að vera í hrauni, langt í burtu frá hinu ástkærra 101 Reykjavík.

Þrengt hefur verið að flugvellinum með freklegum hætti, með því að loka neyðarbraut Reykjavíkurflugvallar og stefna þannig lífi landsbyggðarfólks í hættu á veturna þegar allra veðra er von. Hvenær tapast mannslíf vegna þess?

Ekki er hlustað á vilja fólksins en samkvæmt íbúakosningu, þegar kannaður var vilji fólks, var yfirgnæfandi meirihluti fyrir núverandi staðsetningu flugvallarins. Flugvöllurinn er sérkafli út af fyrir.

Annað eru þrengingar gatna og ofuráhersla á gerð hjólreiðastíga. Eins og almenningur verður áþreifanlega var við þessa dagana, eru allar stofnbrautir höfuðborgarsvæðisins stíflaðar á morgnanna og umferðarhraðinn á gönguhraða. Stíflurnar ná frá Miklabraut og alla leið til Hafnarfjarðar, Grafarholts, Mosfellsbæjar og upp í Breiðholt. Ekkert er gert til að bæta ástandið og er hér ekki bara Reykjavíkurborg sek, heldur einnig nágrannasveitarfélögin.

Ríkisvaldið er ekki að hjálpa Hafnarfjarðarbæ að leysa umferðahnútinn í gengum bæinn, með því að tvöfalda Reykjanesbraut frá Hvassahrauni til Engidals. Reyndar vantar þriðju stofnbrautina frá Hafnarfirði. Ótækt er að það eru einungis tvær meginleiðir frá Hafnarfirði til Reykjavíkur.

Svo er einnig farið um Reykjavík, aðeins tvær meginleiðir úr Reykjavík á landsbyggðina. Hér vantar þriðju stofnbrautina sem er þá væntanlega Sundabraut. Reykjavíkurborg hefur dregið lappirnar í málinu enda auralaus með öllu.

Ekki má líta fram hjá góðu hlutunum, en það er að mulið er undir hjólreiðamenn með öllum mögulegum hætti. Bestu vegirnir í Reykjavík eru hjólreiðastígarnir, engar holur eða stíflur sem ökumenn bifreiða þurfa að þola á hverjum degi. Hvað kostar þetta samfélagið? Allur tapaður tíminn og eldsneytiseyðslan?

Þarf ekki að huga að íslenskum veruleika sem er að hér gerast válind veður á veturna og ekki góður kostur fyrir fjölskyldufólk nota reiðhjól enda vegalengdir langar og kaldranalegt að reyna að hjóla. Ekki getur fólk leitað í neðanjarðarlestir sem komast án hindrana milli staða í hlýju og skjóli. Margir hreinlega þurfa að nota einkabílinn, svo sem aldrað fólk, öryrkjar og fjölskyldufólk.

Þetta er ekki fyrsta gagnrýnisbréfið sem birtist opinberlega en það fer fyrir því eins og öðrum, það er eins og að skvetta vatni á önd í Reykjavíkurtjörn og að reyna að vekja meirihlutann í borgríkinu Reykjavík.