Greinar | 03.December

Stjórnmálastéttin í tilvistakreppu

Huginn skrifar:

Það er auðljóslega eitthvað mikið að hjá stjórnmálastéttinni í dag. Það má sjá af atburðum undanfarna daga og nú síðast í dag, 1. desember.

Ef skoðaðar eru myndir af tveimur viðburðum í dag, athöfninni við Stjórnarráðshúsið og svo mótmælin við Alþingið, þá má sjá að fámenni var í hátíðarhöldum stjórnmálaelítunnar við Stjórnarráðshúsið í tilefni af 100 ára afmæli fullveldi Íslands en Austurvöllur troðfullur af fólki sem er búið að fá nóg af stjórnmálamönnum og mótmælti slæmu siðferði innan Alþingis.

Aðdragandinn er langur og má rekja allt aftur til 2008 þegar stjórnmálastéttin sýndi í verki að hún var ekki starfi sínu vaxin, í því að klúðra algjörlega eftirliti og reglugerða- og lagaramma fyrir íslenska bankastarfsemi. Enn er ekki búið að fylla í stærstu holurnar, það er að segja að setja í lög aðgreiningu fjárfestingastarfsemi og útlánastarfsemi banka.

Þjóðin þurfti svo að taka framfyrir hendur Alþingis í Icesave málinu með dyggum stuðningi forseta Íslands enda stóðu þingmenn ekki í fæturna gagnvart ofbeldi Breta og annarra þjóða í því máli. Aldrei settu Íslendingar viðskiptabann á Bretland varðandi hryðjuverkalagasetninguna í því máli, en leggur viðskiptabann á Rússland sem hefur eitt fárra ríkja stutt Ísland í öllum kreppum og hafnbönnum sem ,,vinarþjóðir“ Íslendinga, Bretar og Þjóðverjar hafa lagt á íslensk fiskiskip. Íslenska þjóðin man enn vel eftir Icesave og getuleysi íslenskra stjórnmálamanna í því máli og hefur ekki gleymst.

Sjálfstæð utanríkisstefna er ekki til hjá Íslendingum, heldur eru afritaðar stefnuskrár erlendra þjóða og þeim fylgt eftir, sama hversu slæmt það er fyrir íslenskan efnahag.

Alþingi ákvað að halda partí í sumar á Þingvöllum þar sem það ætlaði að klappa sjálfu sér á bakið en þangað mætti þjóðin ekki, nema fáeinir útlenskir ferðamenn sem áttu leið framhjá. Svo gátu þingmenn ekki setið á sér og fóru í fýlu vegna dansks þingforseta sem var boðið þangað og mættu annað hvort ekki eða löbbuðu í burtu.

Það er allur þroskinn og sjálfhverfan hjá þingmönnum. Það þurfti að eyðileggja þessa ,,helgu“ stund með pólitík og vanvirðingu við Dani.

Það eru ekki bara þessir sex þingmenn sem þurfa að líta í eigin barm, allir sem eru núna á Alþingi þurfa að gera það sama. Sjá mátti þingmenn ganga úr Alþingishúsi á leið í móttöku hjá forseta Íslands á fimmtudaginn með áfengi í hendi. Þeir þingmenn sem sáu kastljós fjölmiðla úti, voru fljótir að fela bjórdósirnar. Væri ekki ágæt ráð að banna áfengisdrykkju á löggjafasamkundu landsins og reyna að aðeins að hækka virðingastig þings?

Svo ættu þingmenn að fara að vinna störf sín en ekki fá aðstoðarfólk til að vinna vinnu sína. Líklegt er að virðingin eigi eftir að minnka meir með aðstoðarmannakerfinu, þegar almenningur gerir sér grein fyrir kostnaðinum og hversu lítið er unnið á þessum vinnustað.

Allir vita að aðstoðarmannakerfið er ætlað þeim flokksmönnum sem einhverra hluta vegna hafa ekki notið gengis innan flokksins og því eiga þeir nú kost á bitlingastarfi innan Alþingis. Nær væri að fara í sparnaðaraðgerðir, hagræða eins og það er kallað hjá alvöru stofnunum, fækka þingmönnum niður í 43 og láta þá vinna fyrir launum sínum með lengingu þingtíma. Vinnutíminn þeirra mætti vera sami og hjá kennurum og launin þau sömu, líkt og var framan af 20. öld..