Greinar | 20.February

Stefnumál Sjálfstæðisflokksins: Heilbrigðismál

Huginn skrifar:


Stefnumál Sjálfstæðisflokksins í heilbrigðismálum er mörg og falleg. Hér er aftur litið í stefnumálapakka Sjálfstæðismanna sem er birt á netinu.Stefnumálin eru mörg hver fögur í orðum en erfiðara er að tengja þau við raunveruleikann og sum að mörgu leiti óljós.

Í stefnuskránni segir: ,,Tryggja þarf sjúklingum þjónustu innanlands m.a. með því að semja við sjúkrastofnanir um augnaðgerðir, liðskipti og aðrar aðgerðir.“ Jú þetta eru göfugt markmið en erfiðara í framkvæmd. Marg gott hefur verið gert til að létta á biðlista, eins og sá sem hefur verið á Landsspítalanum, en hafa hátt í 100 manns að staðaldri, aldraðir einstaklingar, beiðið eftir að komast á viðeigandi stofnun. Sjúkrahótelið, sem nýverið var tekið í notkun, ætti að brúa bilið en verra er með biðlista, svo sem eftir liðskipti en enn er margra mánaða bið eftir að komast í slíka aðgerð.

Svo er sagt í öðru stefnumálinu: ,,Bæta þarf tengingu og samstarf milli Landspítala og annarra heilbrigðisstofnana.“Ekki er annað að sjá að samstarf Landsspítalans, sem er háskólasjúkrahús og aðalsjúkrahús landsins, sé almennt gott. Heilbrigðisstofnanir vísa erfiðustu málin til Landsspítalans sem aftur á móti vísar þau sem hann ræður ekki við, s.s. vegna þekkingarleysi eða skorts á sérfræðingum, til erlendra stofnanna. Þetta er því eitt af óljósum stefnumálum, þar sem hvort sem er, er verið að vinna bættu samstarfi á daglegum grundvelli.

Þriðja stefnumálið er: ,,Auka þarf og einfalda fjarheilbrigðisþjónustu.“Þetta er gott atriði en lítið hefur farið fyrir umræðunni um þennan þátt heilbrigðisþjónustunnar í fjölmiðlum landsins.Gefin var út skýrsla starfshóps á vegum Velferðaráðuneytisins í maí 2016 og ber hún heitið: ,,Efling fjarheilbrigðisþjónustu. En stefnan gengur út á að ,,að jafna aðgengi almennings að almennri og sérhæfðri heilbrigðisþjónustu með innleiðingu fjarheilbrigðisþjónustu og síðar rafrænni miðlun heilbrigðisþjónustu, samkvæmt heildstæðri stefnu.“ En þessi stefna er ef til vill enn fögur fyrirheit en lofar góðu.

Fjórða stefnumálið: ,,Styðja þarf við þá sjúklinga, sem ekki geta fengið þjónustu í heimabyggð. “Þarna liggur pottur brotinn og aðgengi landsbyggðasjúklinga að nútíma heilbrigðisþjónustu er á köflum brotakennd. Skortur er á sérfræðingum og almennum starfsmönnum á heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni. Þá þarf að beina sjúklingum suður á Landsspítalann, sem sjálfur er undirmannaður og ferðalagið getur reynst sjúklingnum dýrt og erfitt, sérstaklega ef um langvinn veikindi er að ræða.

Fimmta stefnumálið: ,,Horfa þarf til fjölbreyttari rekstrarforma í heilbrigðiskerfinu og stuðla að nýsköpun.“Það er til tvenns konar rekstrarform í heilbrigðiskerfinu, bæði heilbrigðisstofnanir eru reknar sem og einkareknar stofur.Það ætti að leyfa fólk að fá meira valfrelsi og í stað þess að bíða eftir sjúkrahúsvist og meðferð eða biðlista, að beina því strax á einkareknar læknisstofur. Það mun spara þjóðfélagar ómældan sparnað. Nýsköpun hefur verið kæfð í fæðingu og hugmyndir sem hafa komið upp um einkarekin sjúkrahús, hvort sem er var í Keflavík eða Mosfellsbæ, hafa mætt mikilli andstöðu, ef til vegna þess að þá fær hið opinbera heilbrigðiskerfið heilbrigða samkeppni sem myndi annars hækka laun heilbrigðisstarfmanna og laða fleiri að heilbrigðisstörfum.

Sjötta stefnumálið: ,,Sjálfstæðisflokkurinn vill móta heilbrigðisstefnu á breiðum grunni með skýra framtíðarsýn.“ Virðist vera orðagjálfur og óskýr framsetning.

Sjöunda stefnumálið: ,,Menntun heilbrigðisstarfsfólks verði í takt við þarfir samfélagsins.“ Orð að sönnu en er daglegt viðfangsefni sem þarf að hafa augun opin fyrir.

Áttunda stefnumálið: ,,Tryggja þarf valfrelsi, bæta aðgengi að þjónustu og stytta biðlista.“ Hvaða valfrelsi er hér er átt við? Valfrelsi um að fá að sækja læknisþjónustu erlendis ef íslenska heilbrigðisþjónustan er ekki að standa sig? Biðlistarnir virðast alltaf vera jafnlangir og aðgengi að þjónustu ekki að aukast, hreinlega vegna þess að nægilegu fé er ekki veitt í málaflokkinn.

Níunda stefnumálið: ,,Gera þarf öllum heilbrigðisstéttum kleift að stunda sjálfstæðan rekstur.“ Þessi setning er lík stefnumáli númer fimm. ,,Horfa þarf til fjölbreyttari rekstrarforma í heilbrigðiskerfinu og stuðla að nýsköpun.“ Hér er væntanlega verið að hvetja til einkareksturs.

Tíunda stefnumálið: ,,Sjálfstæðisflokkurinn vill lækka lyfja- og sjúkrakostnað einstaklinga.“ Það hefur verið gert en betur má ef duga skal.

Ellefta stefnumálið: ,,Verslun á lausasölulyfjum verði gerð frjáls.“ Líkt og með allt vöruverð á Íslandi, eru lyf of dýr og samkeppnin í raun fákeppni. Sjálfstæðismenn þyrftu að vinna betur í samlegðar áhrifum þess að versla inn lyf í samstarfi við aðrar þjóðir og tryggja það að það verði ekki lyfjaskortur ef eitthvað kemur upp á í alþjóðastjórnmálum.

Tólfta stefnumálið: ,,Tryggja þarf þverfaglega þjónustu innan heilsugæslunnar til að bæta þjónustu í nærumhverfi.“ Er þetta ekki innra skipulag hennar sem starfsmenn eiga að leysa? Hlutverk Sjálfstæðisflokksins og annarra flokka væri þá að veita meiri fjármunum í málaflokkinn.

Þrettánda stefnumálið: ,,Sjálfstæðisflokkurinn vill tryggja forræði allra yfir eigin líkama.“ Þarna virðast þeir ganga á bak þessara orða sinna, því að lögin um að ríkið fái aðgang að líkama fólk við dauða, til líffæragjafar, tryggir ekki forræði allra yfir eigin líkama.Nú þarf fólk taka það skýrt fram opinberlega og hafa fyrir því, að líkamar þess verði ekki notaðir sem varahlutalager til handa hverjum sem er, sem þarf á líffæri að halda. Það er að sjálfsögðu frábært að skortur á líffærum sé mættur, en þetta fer samt sem áður gegn einstaklingsréttinum sem Sjálfstæðisflokkurinn boðar svo mikið. Hann á ekki að falla niður við dauða og fólk á ekki að þurfa að taka skýrt fram að það vilji að líkami þess sé látinn í friði. Enn eitt dæmið um frekju ríkisvaldsins, sem virðist vera tilbúið að fara niður gröf manna, bæði til að sækja skatta eða líffæri.

Og síðasta stefnumál Sjálfstæðisflokksins í heilbrigðismálum. ,,Gera þarf stórátak í geðheilbrigðismálum með áherslu m.a. á forvarnir.“Það þarf ekki annað en að fylgjast með fjölmiðlum og sjá vikulega rætt um slæman aðbúnað þeirra sem eru geðfallaðir. Þeir sem eru jafnvel í sjálfsmorðshugleiðingum fá ekki inn á geðdeildir, né er opnunartíminn boðlegur. Geðfölluð börn eru hornreka í skólakerfinu, og sérskólar, eins og til að mynda Brúarskóla, eru ekki til í sveitarfélögum. Stefnan hefur verið að afnema sérdeildir fyrir börn og unglinga og þeim velt yfir í bekki, þar sem lítil þjónusta er í boði. Margir fullorðnir einstaklingar með geðraskanir eru bókstaflega á götunni og hafa leitað í vímuefni sem gerir ástand þeirra verra.Þarna má Sjálfstæðisflokkurinn girða sig í brók og gera betur.