Greinar | 16.February

Stefnumál Sjálfstæðisflokksins

Huginn skrifar:


Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins gagnrýnir Sjálfstæðisflokkinn fyrir að hafa yfirgefið sín prinsip til að verða ímyndarflokkur, hann sé nú flokkur sjálfsmyndarstjórnmála eins og svo margir aðrir flokkar og líkti honum við Samfylkinguna fyrir 10 árum. En er þetta rétt? Er Sjálfstæðisflokkurinn nú aðeins hagsmunaflokkur en ekki prinsip flokkur sem hefur sterkar hugsjónir? Hér er fyrsta grein af nokkrum sem kafar dýpra ofan í hvar Sjálfstæðisflokkurinn stendur í dag.

Kíkjum á stefnuskránna, sem er uppi á vef Sjálfstæðisflokksins og byrjum á skattamálunum, nokkuð sem allir hægri flokkar segja að þeir berjist helst fyrir og séu gegn skattahækkunum.

Skattamál

Lækka skal skatta og einfalda skattkerfið til að draga úr neikvæðum áhrifum og hvötum.

Einfalt og skilvirkt skattaumhverfi er forsenda öflugs og blómlegs atvinnulífs.

Lækka þarf tryggingagjald sem fyrst og einfalda virðisaukaskattskerfið.

Mikilvægt er að endurskoða skattlagningu fjármagnstekna, þannig að skattlagning taki mið af raunávöxtun fremur en nafnávöxtun.

Mikilvægt er að skattalegir hvatar séu fyrir hendi til að ýta undir fjárfestingu í nýsköpun.

Svo mörg eru þau orð Sjálfstæðismanna en stefna þeirra í ríkisstjórn virðist vera víðsfjarri þessari stefnu. Íslendingar eru skattlagðir upp í rjáfur og koma illa út í alþjóðlegum samanburði. Reglugerðaverk og hamlandi áhrif ríkisvald á atvinnulífinu hefur komið í veg fyrir að framleiðslufyrirtæki blómstri. Það sem hefur bjargað íslensku atvinnulífi er ferðaþjónustuiðnaðurinn, stóriðja og fiskurinn í sjónum, ekki stjórnviska íslenskra stjórnvalda.

Einföldun regluverks og lækkun skatta í Bandaríkjunum hefur leitt til mesta hagvaxtaskeiðs í landinu sem elstu menn muna. Atvinnuleysi hefur aldrei verið minna og bandarísk stórfyrirtæki snúa í stórum hópum til baka.Íslenskum stjórnmálamönnum er fyrirmunað að sjá þetta og líta helst til ríkja eins og Frakklands, þar sem reglur og skattar eru að sliga atvinnulífið og hagvöxtur sáralítill.

Nú eru stjórnarliðar að tala um fleiri skattþrep og hátekjuskatt, veggjöld (vegskattur) og ekki mótmæla Sjálfstæðismenn hátt. Stefnumál þeirra: ,,Lækka skal skatta og einfalda skattkerfið til að draga úr neikvæðum áhrifum og hvötum“, er greinilega ekki á dagskrá. Skattur á fjármagnstekjur óskattskyldra lögaðila er í dag 22% en var 20% lengi vel.

Annað stefnumál: ,,Einfalt og skilvirkt skattaumhverfi er forsenda öflugs og blómlegs atvinnulífs.“Jaðarskattur hefur löngum verið of hár og dregið úr hvata fólks til að afla sér frekari tekna. Að sama skapi hefur skattlagning fjármagnstekna á nafnvirði dregið úr hvata fólks til sparnaðar og yki jafnvel áhættusækni.

Sjálfstæðismenn segja: ,,Lækka þarf tryggingagjald sem fyrst og einfalda virðisaukaskattskerfið.“Á staðgreiðsluárinu 2019 er tryggingagjaldshlutfallið samtals 6,60%. Þar af er tryggingagjaldið sjálft 5,15%, atvinnutryggingagjald 1,35%, og síðan bætast við gjald í ábyrgðasjóð launa (0,05%) og markaðsgjald (0,05%). Árið 2015 var það 7,49% og hefur lækkað en er ennþá mjög hátt miðað við að atvinnuleysi er lítið. Uppi hafa verið kröfur um lækka það enn frekar enda mjög íþyngjandi fyrir atvinnurekendur að borga þetta gjald.

Sjálfstæðismenn segja þetta: ,,Mikilvægt er að endurskoða skattlagningu fjármagnstekna, þannig að skattlagning taki mið af raunávöxtun fremur en nafnávöxtun.“

Ef tekið er mið af fjármagnstekjuskatt, sem var hækkaður úr 20% í 22%, þá er hann mjög íþyngjandi og helsta ástæða þess er að skatturinn leggst afar þungt á ávöxtun eftir að tekið hefur verið tillit til verðbólgu (raunávöxtun). Með öðrum orðum leggst fjármagnstekjuskattur sérstaklega þungt á raunávöxtun. Hvers vegna?

Fjármagntekjuskattur byggir á ávöxtun eigna eða sparnaðar, sem er ætlað að nota til neyslu í framtíðinni, og er hann því frábrugðinn öðrum sköttum. Munurinn á nafnávöxtun og raunávöxtun er að nafnávöxtun inniheldur verðtryggða vexti auk verðbóta. Raunávöxtun mælir aftur á móti ávöxtun eftir að tekið er tillit til þeirrar virðisrýrnunar sem verðbólga felur í sér, líkt og verðtryggðir vextir. Er Sjálfstæðisflokkurinn að standa sig hér?

Að lokum segja Sjálfstæðismenn: ,,Mikilvægt er að skattalegir hvatar séu fyrir hendi til að ýta undir fjárfestingu í nýsköpun.“ Samtök iðnaðarins birta í nóvember 2018 skýrslu þar sem skyggnst er inn í framtíðina og gerðar tillögur að umbótum sem ráðast mætti í á næstu tveimur árum til þess að auka hagvöxt. Í skýrslunni er vakin athygli á fjölda atriða sem betur mættu fara, ,,eins og að skattalega hvata fyrir rannsóknir og þróun þurfi að auka, skattar á fyrirtæki séu háir í alþjóðlegum samanburði, reglur séu íþyngjandi og óskilvirkar sem sé kostnaðarsamt fyrir atvinnulífið. Auk þess er bent á að efnahagslífið hafi einkennst af meiri óstöðugleika en annars staðar í hinum vestræna heimi.“

Ljóst má vera að stefna Sjálfstæðisflokksins í skattamálum er ábótavant og betur má gera ef duga skal. Flokkurinn stærir sig af því að hlúa að atvinnulífinu og hvetur til athafnafrelsis einstaklingsins. Hann þarf að dusta rykið af stefnuskránni og standa við prinsip mál, ekki bara að eltast við ráðherrastóla og völd.Hann þarf að huga að rótum sínum og skilgreina sig ákveðnar til hægri og vera með skýra hægri stefnu sem ekki verður seld við skipun næstu ríkisstjórnar. Eins og staðan er í dag, veit almenningur ekki hvar á kvarðanum hægri – vinstri flokkurinn er. Er Sjálfstæðisflokkurinn með skýra hægri stefnu? Ef svo er, stendur hann við stefnu sína?