Greinar | 17.September

Skógarmenn nútímans: Fátækir í Reykjavík


Huginn skrifar:

Flestir þekkja söguna af Gísla Súrssonar og örlög hans; að vera útlagi í eigin landi og afdrifarík endalok hans. Segja má að refsingar hafi skiptist í þrjá flokka á þjóðveldisöld og á hans tíð. Þessar refsingar kölluðust útlegð (fjársektir, misháar), fjörbaugsgarður (skylda til að fara til útlanda og vera þar í þrjú ár en vera réttdræpir ella, og var það séríslensk refsing) og skóggangur. Þeir sem dæmdir voru sekir skógarmenn voru í raun útskúfaðir úr þjóðfélaginu og réttdræpir hvar sem til þeirra náðist.

Segja má að þeir sem lenda utan íslenska réttarkerfisins og umsjá íslenska ríkisins af einhverjum ástæðum, séu í raun dæmdir skógarmenn. Samkvæmt nýjustu fréttum er ætlunin, með einbeitum vilja eða vegna þess að menn telja sig þurfa fara eftir reglum, að loka á skógarmenn nútímans. Þeir eiga ekki í neitt húsaskjól að vernda, sem gæti verið skiljanlegt ef ekkert húsnæði er í boði. Nei, það á að loka á einu leið fólks, sem býr heimilislaust, að búa á tjaldstæði og dæma það úr samfélagi Íslendinga.

Fólk sem einhverja hluta vegna á ekki til hnífs eða skeiðar og þarf á aðstoð samfélagsins, fær það ekki. Íslenskt samfélag hefur verið þekkt í gegnum söguna að vera dálítið harðbrjósta og til að mynda ekki leyft giftingar og þar með barneignir örbirgða fólks (kannski af skiljanlegum ástæðum) sem getur ekki séð fyrir afkvæmum sínum en á sama tíma verið með velferðakerfi sem kallast hreppir en þeir sáu um svo kölluðu hreppsómaga og örvasa fólk en það var fólk sem gat ekki séð sér farborða og var upp á náð og miskunn annars fólks.

Það er sum sé rík hefð fyrir í 1100 ára sögu Íslands að íslensk yfirvöld hvers tíma hafa séð um þá sem hafa orðið undir. En nú bregðast krosstré sem önnur tré. Samkvæmt frétt á visir.is, stendur ekki til að hafa ,,...tjaldsvæðið í Laugardal opið heimilislausu fólki í vetur og þeim sem hafast við í hjólhýsum eða tjöldum stendur ekkert annað úrræði til boða. Verkefnastýra Frú Ragnheiðar telur að fólkið muni leita á ýmis svæði í borginni.“ Þetta er skiljanlegt en hræðilegt að heyra. Hvað veit almenningur um svo kallaða róna sem sofa úti og hreinlega deyja úr vosbúð? Og það á 21. öld? Nei, þetta er ekki tilbúningur, heldur staðreynd. Útigangsmenn deyja margir hverjir úr vosbúð í nútíma Íslandi.

Þeir sem eru ekki alveg á valdi Bakkusar eða annarra vímuvalda, og vilja af veikum mætti a.m.k. búa sér heimili í húsbíl eða hjólhýsi, er hent af tjaldstæði Reykjavíkur í Laugardalnum samkvæmt nýjustu fréttum. Forráðamenn tjaldstæðisins í Laugardal tala um reglur en tala minna um fólkið sem þarf að hverfa af eina skjólinu sem það fær. Málinu er vísað til borgarstjórnar Reykjavíkur. Hvað mun Dagur B. Eggertsson gera? Mun hann standa undir starfstitlinum sínum að vera sósíalískur leiðtogi? Eða kýs hann að hunsa veruleika margra Íslendinga sem þurfa að þreyja Þorrann og Góu í tjaldi eða tilfallandi skýli.

Vonumst eftir mildum vetri í ár.