Greinar | 11.September

RÚV fær 4,7 milljarða í vasann

Huginn skrifar:

Nú stendur til að hækka framlag ríkisins til RÚV í fyrirhuguðu fjárlagafrumvarpi, miðað við gildandi fjárlög. Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, útskýrir þetta sem verðlagsbreytingar en ekki hækkun sem slíka.

Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu munu tæpir 4,7 milljarðar króna renna til Ríkisútvarpsins á næsta ári en fram­lag rík­is­ins er fjár­magnað með út­varps­gjaldi sem er nefskatt­ur sem nær all­ir ein­stak­ling­ar á aldr­in­um 16-70 ára greiða. Áætlaðar tekj­ur rík­is­ins af því á ár­inu 2019 eru um 4,6 millj­arðar króna, sam­kvæmt fjár­laga­frum­varp­inu. Ekki er hér minnst á að ríkisútvarpið fær í auglýsingatekjur yfir 2 milljarða á ári að jafnaði.

RÚV telst því vera með umfangsmikinn rekstur á íslenskum mælikvarða en samt hefur stofnunni gengið illa að láta enda ná saman og hefur þurft meðal annars að selja frá sér lóð sína til að rétta við fjárhallann.

Ljóst er að stofnunin er fjárfrek og öllum er ljóst að hún er risi í Putalandi fjölmiðla á Íslandi. Samkeppnisreglur eru lagðar til hliðar þegar kemur að samkeppni milli íslenskra fjölmiðla og forgjöfin er rúmir 6 milljarðar RÚV í hag. Ekkert er gert til að rétta stöðuna, til dæmis skattaeftirgjöf eða annað álíka til handa einkareknum fjölmiðlum.

Ekki verður séð að dagskráin sé nokkuð betri en hjá til að mynda sjónvarpsstöðvunum N4 eða Hringbraut. Ef eitthvað er, þá hafa síðarnefndu stöðvarnar betri og íslenskari dagskrá en RÚV.

Mismununin er átakanleg, því að aldrei hefur verið nauðsynlegra en nú, að frjáls fjölmiðlun verði sem sterkust og geti keppt við falskar fréttir.

Það vekur athygli við fréttir af fjárlagafrumvarpinu um RÚV, að einstaklingar á aldrinum 16 – 70 ára þurfa að greiða nefskatt til þessarar stofnunar. Já, sextán ára börn þurfa að greiða nefskatt til RÚV! Er þetta satt? Er verið að skattleggja ólögráða unglinga til að halda aftur af hallarekstri RÚV?

Að lokum: Er ríkisrekinn fjölmiðill ekki tímaskekkja á tímum internetsins? Er einhver þörf? Komust Íslendingar ekki ágætlega af áður en ríkisútvarpið var stofnað? Það mætti leggja þetta í dóm þjóðarinnar, enda borgar hún brúsann....