Greinar | 11.February

Óviðunandi ástand hjá Landhelgisgæslu Íslands

Huginn skrifar:


Í fjölmiðlum landsins er greint frá því að Landhelgisgæsla Íslands sé ófær um að gegna lögbundnu hlutverki sínu. Í RÚV segir m.a. þetta: ,,Dæmi eru um að fjöldi óþekktra og líklega erlendra skipa athafni sig í íslenskri landhelgi án þess að Landhelgisgæslan geti nokkuð að gert eða viti einu sinni af því fyrr en seint og um síðir. Er gæslan ófær um að sinna lögbundnum skyldum sínum og uppfylla kvaðir alþjóðlegra skuldbindinga eins og staðan er í dag. Þetta kemur fram í skýrslu um Landhelgisgæsluna, sem lagð var fram í þjóðaröryggisráði Íslands.“

Það er löngu vitað að Landhelgisgæslan hefur frá dögum landhelgisdeilurnar – Þorskastríðunum svonefndu, verið undirmönnuð og illa tækjum búin.Það keyrði svo um þverbak þegar íslenska ríkið varð næstum gjaldþrota 2008 og fjárlög til gæslustarfa skorin svo niður við trog, að engin tæki voru á miðunum tímunum saman og í raun ekkert eftirlit. Varðskip var sent til Miðjarðarhafs við landamæragæslu fyrir Evrópusambandið sem og eftirlitsflugvél gæslunnar svo mánuðum skiptir og á meðan sat allt eftirlit á Íslandsmiðum á hakanum.Allir heilvita menn sjá að myndin er eitthvað bjöguð, þegar Landhelgisgæslan þarf að starfa sem nokkuð konar leigugæsla eða senda ,,málaliða“ erlendis til að halda lágmarksstarfsemi á Íslandi gangandi.

En hversu umfangsmikla starfsemi rekur Landhelgisgæslan?Skipakosturinn er gamall og úr sér genginn. Eitt skipanna þriggja í eigu gæslunnar er þó nýlegt, varðskipið Þór, var smíðað 2011 og er það eina skipið sem stenst nútímakröfur sem gerðar eru til varðskipa. Varðskipin Týr og Ægir (1968) eru frá tímum þorskastríðanna og Eftirlits- og sjómælingaskipið Baldur var smíðaður 1991 en aðgerðabáturinn Óðinn er smíðaður af bátasmiðjunni Rafnari 2015.

Landhelgisgæslan hefur yfir að ráð tvær þyrlur, TF-LIF sem kom til landsins árið 1995 (árg. 1986),TF-SYN Árgerð 1992 og kom í leigu 5. febrúar 2012. Landhelgisgæslan hefur stundum verið með þriðju þyrluna á leigu.

Hún á eina eftirlitsflugvél sem er nokkuð öflug. TF-SIF heitir hún. Flugvélin er eftirlits- og björgunarflugvél og er hún sérhönnuð til eftirlits-, leitar-, björgunar- og sjúkraflugs á Norður-Atlantshafi. Flugvélin er af gerðinni Bombardier DHC-8-Q314, TF-SIF(4), og kom hún til landsins sumarið 2009.

Hlutverk Landhelgisgæslunnar eru mörg, má þar nefna sjómælingar við Ísland og útgáfu sjókorta í samræmi við alþjóðlega staðla og kröfur. Frá byrjun árs 2011 hefur loftrýmiseftirlit og rekstur ratsjárstöðva verið í höndum Landhelgisgæslunnar auk umsjár öryggissvæða á Keflavíkurflugvelli. Hjá Landhelgisgæslunni starfa um 250 manns.

Vandinn er að stofnunin fær ekki nægjanlegt fjármagn.Þótt hún eigi þrjú varðskip, eru skipin ekki nýtt sem skildi, og oftast er aðeins eitt skip á fiskimiðunum en efnahagslögsagan nær í 200 sjómílur en landhelgin sjálf er umtalsvert minni.

Margsinnis hefur Gæslan staðið erlend fiskiskip að því að ,,dansa“á mörkum þess þar sem þau mega veiða og útlendingarnir vita sem svo að eftirlitið er í lágmarki og hægt er að stunda ólöglegar veiðar án þess að eftir því er tekið. Segir svo frá í frétt RÚV að sem ,,…dæmi eru teknar gervitunglamyndir frá því í haust sem sýna tíu „óþekkt endurvörp“ á svæði suðaustur af landinu, sem er um fimmtungur af efnahagslögsögunni. Staðfest er að allt voru þetta skip, sem þó voru hvergi sjáanleg í ferilvöktun og athafnir þeirra innan lögsögunnar því óþekktar.“

Það sem þarf fyrir lágmarksrekstur er að tvær þyrluáhafnir séu ávallt til taks á hverjum tíma og þyrluflotinn verði fjórar þyrlur; að flugvél gæslunnar sé við eftirlit allt árið um kring og að tvö varðskip séu við störf á hverjum tíma og nýtt varðskip smíðað.

Eitthvað þarf að gera í málinu, til að tryggja öryggi sjófarenda og fólks á ferðalögum innanlands.Ótækt er að þessi litli tækjabúnaður og mannskapur sem þó er til, sé nýttur erlendis til að tryggja öryggiannarra. Ef íslenska ríkið ræður ekki við að verja landhelgi Íslands, þá þarf það að leita til annarra ríkja um aðstoð.

Það liggur beinast við að leita til NATÓ um fjármagn til að byggja upp búnað stofnunnar, enda er hafsvæðið í kringum landið veiki hlekkurinn í varnarkeðju bandalagsins á Norður-Atlantshafi. Þess má geta að Landhelgisgæslan sinnir varnartengdum hlutverkum, svo sem loftrýmiseftirliti og hefur umsjón með loftvarnarkerfið og á hafi úti stunda íslensk varðskip varnaræfingar með erlendum herskipum.

Loftrýmiseftirlitið og loftvarnarkerfið eru að hluta til rekið af NATÓ. Fyrir árið 2018 voru framlög til Landhelgisgæslunnar 6,747,1 milljarðar króna og eru inn í þessari tölu rekstrarframlög 4.728,6, fjárfestingaframlög 2.000,0 og fjármagnstilfærslur 18,5 milljarðar.

Spurningin sígilda hvort til sé peningar til að reka Landhelgisgæsluna, er hægt að svara með já-i. Til eru peningar en þeir eru ekki nýttir á réttan hátt. Forgangsraða þarf úthlutun fjármuna og byrja ætti hjá Alþingi sjálfu, sem er að koma sér upp kerfi aðstoðarmanna, sem engin þörf hefur verið fyrir í tæp 150 ára sögu löggjafans eða fresta byggingaáform þess. Fækka má þingmönnum o.s.frv. Ríkið þarf að draga saman seglin á mörgum stöðum en auka annars staðar. Landhelgisgæslan er ekki stofnun sem má sitja á hakanum.

Ljósmynd af vef Landhelgisgæslunnar