Greinar | 11.October

Málfrelsi á Íslandi


Huginn skrifar:

Huginn er gallharður stuðningsmaður tjáningarfrelsis í hvaða mynd sem það birtist. Taka skal fram að hann er jafnframt sammála því að menn séu gerðir ábyrgir orða sinna og þeir gæti þess að málflutningur þeirra geti staðist fyrir dómstólum.

Hér hefur áður á þessum vettvangi verið rætt um fundarfrelsið sem er einn angi tjáningarfrelsis. Aðrir angar eru félagafrelsi, prentfrelsi og málfrelsi. Lítum svo á hugakið málfrelsið og hvernig það er túlkað almennt.

Málfrelsi felur í sér að menn megi segja hvað sem þeir vilja bæði í ræðu og riti, á opinberum vettvangi jafnt sem í lokuðum hópi. Málfrelsi felur hins vegar ekki í sér að menn eigi rétt á að nokkur gefi orðum þeirra gaum eða taki mark á þeim. Menn sem njóta málfrelsis mega mótmæla skoðunum annarra, hvetja aðra til að hlusta ekki á þá eða trúa ekki því sem þeir segja. Eina sem er krafist er að siðferðisvitund okkar krefjist þess að við segjum satt, vörumst rógburð eða berum ljúgvitni um samborgarann og sýnum almenna kurteisi og tillitsemi. Það er samt ekki skylda okkar að samþykkja skoðanir annarra eða samþykkja allt sem er að okkur að beint. Einstaklingurinn hefur rétt til að mótmæla öllu því sem er haldið fram opinberlega, hvort sem um er að ræða fjölmiðla, félagasamtök eða einstaklinga.

Lítum á tvö mál sem fara hátt í samfélagsumræðunni á Íslandi í dag og varða tjáningarfrelsið. Tökum fyrst fyrir mál ætti að vera auðveldlega afgreitt en það er mál Gunnar Smára Egilssonar og fjármálastjóra Eflingar, Kristjönu Valgeirsdóttur.

Fjármálastjóri Eflingar sem nú er í veikindaleyfi sakar Gunnar Smára Egilsson um aðför að mannorði hennar sem gefi nægt tilefni til meiðyrðamáls og kröfu um miskabætur. En Gunnar Smári hefur meðal annars sagður hafa sagt að fjármálastjórinn sé ómerkileg manneskja og illgjörn.

Þetta mál er dæmigert ágreiningsmál einstaklinga, þar sem báðir aðilar saka hvorn annan um óvönduð ummæli. Málið fer þá fyrir dómstóla ef þessir aðilar sættast ekki. Svona virkar réttarríkið, fólk leitar til dómstóla ef á það er hallað.

Hitt málið er erfiðara viðfangs en samt ætti niðurstaðan að vera sú sama, að aðilar málsins ættu að leita til dómstóla til úrskurðar og virðist málið stefna þangað, þegar þetta er skrifað. En götudómstóllinn, sem getur birst í formi aðkasts einstaklinga, stofnanna eða fyrirtækja á ekki að eiga hér hlut að máli.

Hér er átt við uppsögn Kristins Sigurjónssonar, háskólakennara hjá Háskóla Reykjavíkur, vegna ummæla hans á lokuðum Facebook - hópi. Í stuttu máli sagt, þá gerði DV frétt um ummæli Kristins en hann sagði konur troða sér inn á vinnustaði þar sem karlmenn vinni. Konur eyðilegðu vinnustaðina því karlmenn eigi að „tala, hugsa og hegða sér eins og kerlingar, allt annað er áreiti“. Sagði að hann að ef einhver fari með neðanbeltisbrandara þá sé litið á það sem kynferðisofbeldi.

Gott og blessað ef menn eru ekki sammála þessum ummælum enda alhæfingar sem standast ekki nánari skoðun og engin rök né áþreifanlegar sannanir sem standa á bakvið henni. En þá komum við að grunnatriði þessa máls en það er að háskólakennarinn er þarna að tjá skoðun sína sem einstaklingur og til þess hefur hann fullan rétt. Staða hans í samfélaginu á hér ekki að skipta máli. Ef svo væri ekki, væri jafnræðisreglan ekki gild.

Eins og kom fram hér áður í greininni eiga menn rétt á að gefa orðum hans engan gaum eða taka mark á þeim. Öðrum mönnum er frjálst að mótmæla skoðunum hans, hvetja aðra til að hlusta ekki á hann eða trúa ekki því sem hann segir. Og það er gert kröftuglega. Hann fær sterkan mótbyr gegn skoðun sinni og er það vel að umræðan á sér stað og ekki þögguð.

Nú talaði þessi einstaklingur á mjög almennum nótum en tók samt fyrir helming íslenskrar þjóðar og gagnrýndi hana. Þá er einhverjum úr þessum hópi eða jafnvel einhver úr hinum helminginum, velkomið að mótmæla ummælum hans eða fara með málið fyrir dómstóla.

Alvarlegasta í þessu máli er aðkoma Háskóla Reykjavíkur, sem tók upp á því að móðgast fyrir hönd helming þjóðarinnar og skipar sér þann rétt, sem hann hefur ekki gagnvart lögum, að dæma í málinu.

Háskóli, af öllum stofnunum í samfélaginu á að virða tjáningarfrelsið, ef hann gerir það ekki, virðir hann ekki akademískt frelsi sem grundvöllur háskólastarfs. Hann brýtur þá grundvallarreglu að gefa ekki andmælarétt eða að minnsta kosti að gefa aðvörun í formi áminningu en í þessu tilfelli hefur hann engan rétt á að veita áminningu, því að hinn meinti brotamaður, hefur fullan rétt á að tjá sig opinberlega. Vinnuveitandi, í hvaða formi sem hann birtist, hvort sem er ríkisstofnun eða einkafyrirtæki, hefur engan rétt á að skerða þetta einstaklingsfrelsi sem er grunnstoð íslenskt samfélags.

Skoðum hvað sagt er um akademískt frelsi á Wikipedia: ,,Akademískt frelsi er frelsi háskólakennara, háskólanemenda og háskólanna sjálfra til að leita þekkingar hvert svo sem leitin leiðir, án óeðlilegra afskipta. Lágmarksskilyrði akademísks frelsis eru að geta tekið þátt í öllum sviðum þekkingarleitarinnar, þ.á. m. að velja sér rannsóknarefni, að ákveða kennsluefni, að kynna samstarfsfólki niðurstöður rannsókna og gefa niðurstöðurnar út. Akademísku frelsi eru settar skorður. Í Bandaríkjunum ættu kennarar til að mynda að forðast að ræða í kennslustofum sínum umdeild efni sem tengjast ekki þeirra greinum. Á opinberum vettvangi er þeim aftur á móti frjálst að tjá skoðanir sínar. Reglur um fastráðningar standa vörð um akademískt frelsi með því að tryggja að einungis sé hægt að víkja kennara úr starfi af ásættanlegum ástæðum, svo sem vegna faglegrar vanrækslu eða vegna hegðunar sem fræðasamfélagið sjálft fordæmir.“

Svo mörg voru þau orð og af þeim er ljóst að kennari má ekki viðra einkaskoðanir sínar í kennslu en hann hefur sem einstaklingur fullan rétt á að tjá þær á opinberum vettvangi. Það er því óskiljanlegt að háskólastofnun skuli falla í þessa gryfju að meina manninum rétt sinn til tjáningar utan skólaveggja. En við skulum vona að réttarríkið virki á Íslandi og málsaðilar fari með málið fyrir dómstóla. Það er rétta leiðin.