Greinar | 18.April

Loftárásir Bandaríkjamanna, Breta og Frakka á Sýrland mistök?


Huginn skrifar:

Það var margt sem vakti athygli þegar fyrstu fréttir af meintum eiturefnaárásum Sýrlandsstjórnar í Douma bárust. Sviðsmyndin af börnum í andnauð í þröngu rými, þar sem menn helltu vatni yfir þau var átakanleg. Ætla mætti að hér væri að meðhöndla efnavopnaárás. Svo er ekki ef marka má sérfræðinga sem fjallað hafa um þetta mál. Í fyrsta lagi er aldrei hellt vatni yfir fólk sem hefur orðið fyrir slíkri árás, það gerir bara illt verra. Í öðru lagi, myndi hjúkrunarfólkið vera í hlífðarfötum sem verndar það sjálf gegn eitrun.

Að hella vatni yfir fólk sem á í andnauð vegna rykmengunar er meira í ætt við raunveruleikann. Í nýlegri frétt frá RÚV er sagt frá að íbúar Douma kannast ekki við eiturefnaárás.

Í viðtali við breskan blaðamann við læknir í borginni, kemur fram enginn kannist við slíka árás og ,,myndbönd sem sýna fólk skola lítil börn séu af fólki sem sé í andnauð og með skilningarvitin full af ryki....Hvasst hafi verið í borginni og mikið af ryki og mold hafi þyrlast upp og smeygt sér inn í kjallara og afdrep þar sem fólk hafi leitað skjóls fyrir sprengiregninu. Því hafi fólk þyrpst á sjúkrahúsið til að leita aðstoðar þar sem það hafi hreinlega þjáðst af andnauð og súrefnisskorti. Skyndilega hafi einn liðsmanna Hvítu hjálmanna hrópað „Gas“ og þá hafi allir fyllst skelfingu og byrjað að ausa vatni hvert yfir annað. Þannig að já, læknirinn segir að myndbandið sem farið hefur um alla heimsbyggðina á síðustu dögum, sé ósvikið, en það sýni fólk sem þjáist af andnauð og súrefnisskorti, ekki gaseitrun.“ Ennfremur segir í fréttinni að blaðamaðurinn hafi ekki hitt einn einasta mann í Douma sem staðfesti frásögnina um eiturefnaárás.

Yfirmaður hjá SAS, bresku sérsveitunum, segir að málið hafi einnig vakið athygli breskra herforingja og þeim fundist málið skrýtið og slík árás sýrlenskra stjórnvalda ekki standast nánari skoðun. Í fyrsta lagi höfðu þau leyft tugþúsunda uppreisnarmanna og fjölskyldu þeirra að yfirgefa svæðið óáreitt í rútum og staðið við það samkomulag í hvívetna. Í öðru lagi var aðeins eftir fámennur hópur uppreisnamanna en aðeins var tímaspursmál hvenær þeir gæfust upp. Í þriðja lagi er Sýrlandsstjórn búinn að sigra stríðið að mestu og því mesta glapræði að espa Vesturlönd upp með slíkri tilgangslausri árás sem myndi einmitt kalla á viðbrögð Vesturvelda. Í fjórða lagi myndi slík árás aðeins þjóna hagsmunum andstæðinga Sýrlandsstjórnar og þeir hefðu mestan hag að nýta sér það í áróðursskyni. Eina sem þarf að gera er að bíða eftir rétta augnablikinu og koma af stað umtali.

Ef þessi frétt er rétt, þá hafa átt sér hér stað mistök og bráðræði umræddra þriggja stjórnvalda. Þau biðu ekki eftir að rykið félli, heldur gripu til vopna án þess að kanna málið til hlítar. Málið minni óþægilega á aðdraganda innrásarinnar í Írak á sínum tíma. Þar var búin til tylliástæða til að gera innrás og ekki hlustað á aðvörunarorð sem komu m.a. fram hjá Sameinuðu þjóðunum. Það er áhyggjuefni þegar stórveldi bregðast við með hvatvísi og rannsaki ekki mál áður en gripið er til vopna. Lærdómurinn sem má draga af þessu að friðurinn er brothættari en margur heldur og lítið atvik getur leitt til stórstyrjaldar. Lifum við á hættutímum meðan friðurinn ríkir?