Greinar | 18.March

Íslensk menning eða fjölmenning?


Huginn skrifar:

Greinin er endurbirt þar sem síðasti hluti hennar fylgdi ekki með fyrir mistök skinna.is

Frammi fyrir þessari spurningu standa Íslendingar í dag. Reyndar hafa þeir aldrei verið spurðir af stjórnmálastéttinni í hvaða farveg íslensk menning eða íslenskt þjóðfélag eigi að renna. Málið hefur verið látið leika á reiða og aldrei hefur farið fram djúp umræða meðal þjóðarinnar né henni gefið leyfi til að kjósa um málið.

Íslensk menning

Óhætt er að segja að íslenskur menningararfur og íslensk tunga eigi undir högg að sækja um þessar mundir og hefur ástandið sjaldan verið eins dökkt, nema ef vera skildi á fyrri hluta 19. aldar. Sumir segja að það nægi að fámenn íslensk menntastétt sé til að viðhalda íslenska menningararfinum en aðrir segja að íslenskur almenningur verði að kunna skil á rótum sínum, til að geta skilið stöðu sína í nútíð og markað sér farsælan farveg til framtíðar. Með öðrum orðum að íslensk menning er ekki bara menning yfirstéttarinnar, heldur er hún menning allra Íslendinga og hún verði að láta sig málið varða.

Íslensk tunga

Eins er farið með íslenska tungu. Hana þarf að rækta dags daglega og hún er lifandi verkfæri allra Íslendinga. Staða hennar er veik í dag og er hún komin í sömu stöðu og hún var í, rétt fyrir hrun, þegar viðskiptaelítan heimtaði að viðskiptin og uppgjör fyrirtækja færu fram á ensku og enska væri jafnfætis íslenskunni í viðskiptalífinu. Segja má að efnahagshrunið 2008 hafi bjargað íslenskunni í það skipti og bjargað viðskiptaíslenskunni.

Svo er það allt annar handleggur hvað íslensk stjórnvöld hafa gert til að vernda íslenskuna. Huginn er ekki kunnugt um að hún sé lögvernduð sem aðal- og í raun eina opinbera tungumálið í landinu. Ekki er áhugi þingmanna á íslenskri tungu meiri en það. Annað birtingaform áhugaleysisins er staða íslenskunnar innan skólakerfisins. Nú er svo komið að ung skólabörn kjósa fremur að ræða sín á milli, sum hver að minnsta kosti, á ensku enda er raunheimur þeirra tölvuleikir sem eru að miklum meirihluta á enskri tungu. Hér gegnir íslenska skólakerfið veigamiklu hlutverki, að koma íslenskri menningu og tungu meira inn í hugarheim barna en ljóst er að íslenska kennarastéttin reynir sitt besta og spilar úr því sem henni er gefið.

Fjölmenning

Ljóst er að íslenskt menning er ekki bara menningararfur eða tunga, heldur er það siðurinn og venjur í samskiptum sem móta samfélagið og er lifandi form dags daglega. Það eru bæði skráðar og óskráðar reglur samfélagsins sem flestallir eru sammála um. Rætur íslenskrar siðmenningar og siðfræði liggja í grískri heimspeki og kristinnar trúar og þeirri samblöndu sem hefur átt sér stað milli þessara heima sem og þeirri heimspeki sem kom fram á 17.-18. öld og leiddi til frönsku byltingarinnar með áherslu á frelsi, jafnrétt og bræðralag. Þessum grundavallarhugtökum fara vestræn samfélög, þar á meðal Ísland, eftir í megindráttum og byggja sín lýðræðiskerfi á en einnig lög og venjur.

Íslendingar hafa boðið velkomna þá útlendinga sem hafa viljað setjast hér að, vilja vinna og samlagast samfélaginu. Nú er hópur útlendinga og Íslendinga með erlendan bakgrunn orðinn stór á íslenska vísu og komið hafa fram kröfur úr ranni vinstriflokka um að nú eigi Íslendingar að samlagast svokallaðri fjölmenningu.

Aldrei hefur nákvæmlega komið fram hvað felist í þessu hugtaki fjölmenning en ætla má með lestri að hún felist í að öll menning, siðir og trú allra í heiminum sé jafnrétthá íslenskri menningu eða jafnvel æðri, það er að við Íslendingar eigum að taka upp fjölmenningu en þeirri spurningu sleppt að svara hvað eigi að gera við íslenska menningu? Á hún að vera jaðarmenning þegar útlendingafjöldinn er orðinn það mikill að þeir krefjast að sá menningaheimur sem þá verður orðinn ríkjandi, hver svo sem hann verður, eigi að gilda? Getur íslensk menning lifað samhliða fjölda jaðarmenningaheima og enginn einn ríkjandi? Á að gera þá kröfu til útlendinga sem setjast hér að og vilja búa á landinu, að þeir taki upp íslenska siði og tungu?

Reynsla annarra þjóða

Getum við lært af öðrum þjóðum? Hver er til dæmis reynsla mesta innflytjendalands heims, Bandaríkjanna? Leyfa Bandaríkjamenn að fjölmenning ríki í landinu eða reyna þeir að samlaga innflytjendur að bandarísku samfélagi?

Við vitum alveg svarið við þessum spurningum. Bandaríkjamenn gera skýra kröfu um að allir þeir sem setjast að í Bandaríkjum, taki upp ensku sem sitt tungumál, þeir fá fræðslu um sögu og menningu landsins og þeir eru látnir sverja eið að stjórnarskrá landsins sem eru grunnvallarlög landsins og gildi. Með öðrum orðum, eru þeir gerðir að Bandaríkjamönnum og allar þessar þjóðir og þjóðarbrot sem hafa flutts til landsins síðastliðin tvö hundruð ár, eru gerð að bandarískum ríkisborgurum og þeir samþykkt viljugir bandarísk gildi, lög og venjur.

Samlögun útlendinga að íslensku samfélagi

Engar slíkar kröfur eru uppi hér á landi, líkt og í Bandaríkjunum og flestum öðrum löndum og lítið gert til að samlaga nýja borgara að íslensku samfélagi, nema að sú lágmarkskrafa er gerð um að þeir læri íslensku (en ekki endilega góða kunnáttu þegar þeir öðlist ríkisborgarrétt). Góð íslenskukunnátta, en einnig kunnátta og viðurkenning á íslenskum gildum, lögum og venjum er ekki í dag skilyrt fyrir íslenskum ríkisborgararétti. Ætla má af lestri útlendingalaga, að litlar kröfur eru gerðar til nýju borgaranna og þeir fara jafnvel mállausir og skilningslausir inn í íslenskt samfélag og vegna þeirrar vankunnáttu einangrast þeir í ákveðnum hverfum. Hætta er á að þeir myndi með tímanum jaðarhópa sem gætu reynst skeinuhættir ef þeir verða fjölmennir, enda jaðarsettir.

Enginn lærdómur er dreginn af reynslu annarra Evrópuþjóða og þar er ljóst að vandinn er mikill. Geta Íslendingar reynt að falla ekki í sömu pytti og þær? Það verður ekki gert nema með stýringu og það gæti jafnvel þýtt að landamærahliðinu verði við og við lokað, þangað til að þeir sem komnir eru inn fyrir, nái að samlagast og Íslendingar hafi náð tökum á ástandinu. Það er aftur á móti ekki gott um þessar mundir, enda er innstreymi útlendinga sem vilja setjast hér að til lengri eða skemmri tíma, með mesta móti og íslensk stjórnvöld átt í mesta basli með að höndla ástandið.

Fyrst skrefið er að spyrja þeirrar spurningar hvort eigi að vera ofan á? Íslensk menning eða fjölmenning? Annað skref er að hvort Íslendingar eigi að velja úr þá hópa sem koma hingað til lands. Eru allir velkomnir? Eða á að velja þá inn sem eru taldir samlagast íslensku samfélagi best? Á að leyfa þau gildi, sem samræmast illa vestrænum, að lifa og trúarbrögð sem eru andstæð vestrænum gildum að skjóta rótum?

Þetta eru allt erfiðar spurningar en engin vitræn né almenn niðurstaða hefur komið fram. Þegar umræðan hefst, er farið strax í skotgrafir og hallmæli andstæðra póla í þessum málum skjótast með ljóshraða á ljósvakamiðlunum, engum til góðs. Íslensk stjórnvöld verða að taka af skarið og ekki láta reka á reiðanum eins og þau hafa gert hingað til. Ef þau vilja fjölmenningu, þá eiga þau að segja það opinberlega og reka þá stefnu en þau verða þá á sama tíma að ákveða hvað þau ætla að gera við íslenska menningu. Hvað á að gera við hana?