Greinar | 08.October

Íslensk leyniþjónusta í gegnum tíðina

Huginn skrifar:

Tilurð íslenskrar leyniþjónustu

Frægt varð þegar það upplýstist að á tímum kalda stríðsins starfaði hér óopinber leyniþjónusta. Það varð allt vitlaust á vinstri kanti stjórnmálanna vegna þess og sér í lagi vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn stóð á bakvið stofnun hennar.

Þór Whitehead birti grein í ritinu Þjóðmálum um að Bjarni Benediktsson, þáverandi dómsmálaráðherra Sjálfstæðisflokksins hafi upp úr 1950 stofnað "strangleynilega öryggisþjónustudeild", sem var flestum hulin í íslenska stjórnkerfinu. Starfsemi þessarar leyniþjónustu var svo leynileg, að örfáir einstaklingar vissu af henni en starfsmenn hennar voru fáir útvaldir menn. Þeir störfuðu undir hatti lögreglunnar og útlendingastofnunar þess tíma.

Helstu forsvarsmenn íslensku leyniþjónustunnar var lögreglustjórinn í Reykjavík, Sigurjóns Sigurðssonar og Árni Sigurjónson, frændi hans og samstarfsmaður. Þessir aðilar fengu njósnatæki frá Bandaríkjamönnum og var þessi leyniþjónusta starfrækt a.m.k. til enda tíðar Sigurjóns sem lögreglustjóra um 1976 en þá átti hin fræga spjaldskrá um grunaða menn hafa verið brennd í öskutunnu.

Segja má að starfsemi þessara leyniþjónustu hafi beinst að innri öryggismálum á kaldastríðsárunum og hafi snúið um upplýsingasöfnun á vegum hinnar leynilegu öryggisþjónustu en samkvæmt orðum Árna Sigurjónssonar sjálfs, þá var hlutverk hennar fyrst og fremst að fylgjast með íslenskum kommúnistum og útsendurum Sovétríkjanna hér á landi. Starfað var náið með bandarískum leyniþjónustum.

Dó íslenska leyniþjónustan með Sigurjóni Sigurðssyni?

Svo virðist ekki vera og hefur lögreglan eflaust í einhverri mynd safnað upplýsingum um hættur sem steðja að innra öryggi íslenska ríkisins. Samkvæmt fréttum frá 2006 var íslenska leyniþjónustan í samskiptum við erlenda aðila árið 2006. Svo mátti í það minnsta ráða af bréfum sem Jóhann R. Benediktsson, þáverandi sýslumaður á Keflavíkurflugvelli, skrifaði Atlantshafsbandalaginu og norskum stofnunum það ár. Bréfin ritaði hann í nafni Icelandic Intelligence Service.

Greiningardeild ríkislögreglustjóra stofnun formlega 2007

Samkvæmt vef lögreglunnar tók greiningardeild ríkislögreglustjóra þann 1. janúar 2007 til starfa. Hlutverki og markmiðum greiningardeildar er lýst í reglugerð nr. 404/2007.

,,Þar segir að ríkislögreglustjóri starfræki greiningardeild „sem rannsakar landráð og brot gegn stjórnskipan ríkisins og æðstu stjórnvöldum þess og leggur mat á hættu á hryðjuverkum og skipulagðri glæpastarfsemi.“ Einnig greinir vefur lögreglunnar frá:

,,Starfssvæði greiningardeildar ríkislögreglustjóra nær til alls landsins. Deildin ræður ekki yfir rannsóknarheimildum umfram almennu lögregluna.

Stefnumiðaðar greiningar og fyrirbyggjandi verkefni eru stór þáttur í starfsemi deildarinnar. Sú skýrslugerð lítur einkum að skipulagðri glæpastarfsemi á Íslandi og innra öryggi ríkisins.

Greiningardeild hefur umsjón með gagnagrunni og annast öryggisathuganir og útgáfu öryggisvottana. Greiningardeild annast einnig öryggisathuganir vegna þeirra sem þátt taka í alþjóðlegu samstarfi af hálfu stjórnvalda.

Greiningardeild annast alþjóðlegt samstarf við erlendar öryggisstofnanir og lögreglulið. Mikilvægur liður í því samstarfi er viðleitni til að hefta umsvif skipulagðra glæpahópa hér á landi.

Innan greiningardeildar er einnig sinnt verkefnum sem áður féllu undir Varnarmálastofnun og ekki er lýst í áðurnefndri reglugerð. Þau verkefni lúta einkum að forsvari á sviði borgaralegra öryggismála (e. National Security Authority), öryggisvottunum vegna einstaklinga og bygginga/aðstöðu, vöktun og skýrslugerð varðandi erlenda atburði, einkum ófrið og samfélagslega upplausn, sem haft geta áhrif á Ísland og íslenska hagsmuni í víðtækum skilningi.“

Sjá má af þessari lýsingu að greiningardeildin er ætlað það hlutverk fyrst og fremst að afla upplýsinga og fyrirbyggja að hryðjuverk eða alþjóðleg glæpastarfsemi nái að skjóta rótum hér á landi. Hún sinni með öðrum orðum málum sem snúa að innra eftirliti en stundar ekki njósnir á erlendum vettvangi. Hún getur varla talist vera njósnastofnun í víðtækustu merkingu orðsins, það er að stunda greiningu, njósnir og starfa erlendis.

GRD í dag

Greiningardeildin er greinilega ekki bara að fylgjast með hugsanlegum hryðjuverkahópum starfræktum á Ísland eða glæpahópum, heldur greinilega með starfsemi erlendra njósnara á landinu.

Sjá má frétt í Morgunblaðinu mánudaginn 8. október að hún tekur starf sitt alvarlega. Í fréttinni segir að: „Það er mat GRD [grein­ing­ar­deild­ar Rík­is­lög­reglu­stjóra] að er­lend ríki stundi njósnir á Íslandi með svipuðum hætti og í öðrum ríkj­um. Njósn­a­starf­sem­in hér á landi telst viðvarandi.“ Þetta kem­ur fram í skrif­legu svari Gylfa Hammer Gylfa­son­ar, setts aðstoðaryfirlögregluþjóns við grein­ing­ar­deild Rík­is­lög­reglu­stjóra, við fyrirspurn Morgunblaðsins“. Enn fremur kemur fram í fréttinni að ,,Grein­ing­ar­deild hef­ur gefið út áhættumat vegna skiplagðrar glæpastarfsemi, hryðju­verka og álags á landa­mær­um. Hins veg­ar hef­ur deild­in ekki gefið út op­in­ber­lega sér­stakt áhættu- og ógn­ar­mat er snýr að njósnum.“

Er íslensk leyniþjónusta (greiningardeild) nauðsynleg?

Svarið er tvímælalaust já, ef hún hefur það meginhlutverk að greina hættur sem steðja að íslenska ríkinu og vara við. Já, ef hún kemur í veg fyrir starfsemi alþjóðlegra glæpahringa á Íslandi. Já, ef hún kemur í veg fyrir hryðjuverk. Já, ef hún hjálpar lögreglunni við vinnu sína. Nei, ef henni er ætlað að stunda njósnir um pólitíska andstæðinga. Nei, ef hún ætlar sér að stunda njósnir erlendis. Af þessu atriðum upptöldum, er ljóst að hún er nauðsynleg en gæta verður að því hún fari ekki út fyrir valdsvið sitt.