Greinar | 28.November

Innflytjendapakki á leiðinni frá Sameinuðu þjóðunum:Hvað gera íslensk stjórnvöld?


Huginn skrifar:

Sameinuðu þjóðirnar gerðu með sér samkomulag sem ber heitið ,,Global Compact for safe, orderly and regular migration intergovernmentally negotiated and agreed outcome“ eða svo kallaða New York yfirlýsing frá 13. júlí 2018. Þar segir að þjóðhöfðingjar og ríkisstjórn sem og sendifulltrúar hafi komist að samkomulagi um flóttamenn og innflytjendur og þar er lagt til aukna samvinnu á þessu sviði sem eigi að tryggja ,,örugga, skipulagða og reglubundna fólksflutninga.“ Haldinn verður fundur í Marokkó dagana 10. og 11. desember þar sem þetta verður staðfest.

En hver er afstaða íslenskra stjórnvalda? Ef þau samþykkja þetta 34 bls. plagg, þá væri æskilegt og í raun nauðsynlegt að ríkisstjórn Íslands rökstyðji ákvörðun sína. Það er alveg ljóst að þetta mun ekki leysa neinn vanda, ef eitthvað er, þá mun það auka hann og gera ástandið verra. Það er nú ekki gott þegar.

Sjá má í dag að nú reynir á landamæri ríkja og Evrópumenn fengu yfir sig holskeflu yfir 1 milljón efnahags- og hælisleitenda án þess að ráða nokkuð við ástandið árið 2015. Nú er gert áhlaup á landamæri Bandaríkjanna en Bandaríkjamenn ætla að standa fast í fæturna, enda vita þeir svo, að ef þeir hleypa þessu hópi sem þeir kalla á ensku ,,caravan“ inn í landið, fara hundruð þúsunda eða jafnvel milljóna manna af stað norður og sækja um hæli í Bandaríkjunum. Þeim er ljóst að það muni reyna mikið á velferðakerfi landsins, í landi þar sem mikil fátækt er meðal lægst settu borgara landsins.

Ástandið í dag minnir á tíma þjóðflutningana í Evrópu, þegar landamæri Rómaveldis voru stöðugt undir áhlaupi germanna sem sóttust eftir ,,hæli“ með góðu eða illu. Stundum gáfu Rómverjar eftir og hleyptu heilu þjóðunum inn og þær samlöguðust ekki öðrum borgurum ríkisins. Við vitum hvernig fór fyrir Rómaveldi, það féll í einum af þessum áhlaupum 411 e.Kr. og endanlega 476 e.Kr. Fjöldinn var það mikill að ekki tókst að samlaga nýju íbúana inn í ríkið. Sama á við í dag. Sagan sýnir að fyrst gengur ágætlega að taka við förufólki og aðlaga það að samfélaginu en svo missa menn tökin á landamærunum og allt fer í bál og brand. Sjá má þetta í Svíþjóð, í Frakklandi og Þýskalandi í dag, þar sem ástandið er brothætt.

Í Danmörku hafa menn stigið fast til jarðar og t.a.m. ætlar DF ekki að samþykkja fjárlögin í Danmörku nema stjórnin hætti við að skrifa undir þessa samþykkt. Þeir halda því fram að þetta muni aðeins stórauka vandann sem leiðir af vegna efnahagsflóttamanna sem streyma til þróaðra ríkja. Fleiri ríki ætla að neita að skrifa undir og er til að mynda mikil andstaða í Austurríki, Pólandi og fleiri ríkjum. Er einhver andstaða á Íslandi? Eða skrifa menn undir hvað sem er, líkt og virðist ætla að gerast með orkupakka 3? Það er engin skylda að samþykkja alþjóðasamþykktir, sérstaklega ef menn telja að þær stríði gegn hagsmunum ríkisins.