Greinar | 01.December

Hundrað ára afmæli fullveldis Íslands


Huginn skrifar:

Þann 1. desember 1918, varð Ísland fullvalda ríki í konungssambandið við Danmörku. Það þýddi í raun að landið varð sjálfstætt að fullu leyti nema það deildi konungi með Danmörku.

Ríkið var ekki tilbúið að axla ábyrgð á öllum þáttum stjórnvalds og má þar nefna að Landhelgisgæslan var stofnuð síðar en hinn 23. júní árið 1926 kom til landsins fyrsta varðskipið, sem smíðað var fyrir Íslendinga, gufuskipið Óðinn.

Eins var með Hæstarétt Íslands. Dómstóllinn var stofnaður með lögum nr. 19/1919 og tók til starfa árið 1920. Áður hafði Landsyfirréttur verið æðsti dómstóllinn innanlands, en dómum hans mátti áfrýja til Hæstaréttar Danmerkur í Kaupmannahöfn. Með stofnun Hæstaréttar fluttist lokaorðið í íslenskum dómsmálum heim til Íslands.

Íslendingar voru lengi eftir háðir Dönum um utanríkisþjónustu og eru enn, því að Danmörk sér til að mynda um vísa áritanir fyrir Íslands hönd í mörgum löndum. En með stofnun fullveldis fengu Íslendingar forræði utanríkismála sinna 1918. Þau heyrðu í upphafi undir forsætisráðherra, sem þá var Jón Magnússon. Frá árinu 1929 var starfrækt sérstök utanríkismáladeild við forsætisráðuneytið. Árið 1940 tóku Íslendingar alfarið meðferð utanríkismála í sínar hendur er Danmörk var hernumin og var utanríkismáladeildinni breytt í ráðuneyti.

Í dag myndar Stjórnarráð Íslands ásamt forseta æðsta stig framkvæmdarvalds á Íslandi. Stjórnarráðið samanstendur af átta ráðuneytum og ráðherrum þess sem saman mynda ríkisstjórn Íslands. Miðað er við að stofnun Stjórnarráðs Íslands hafi verið 1. febrúar 1904, daginn sem Hannes Hafstein tók við embætti ráðherra Íslands og heimsstjórn stofnuð (framkvæmdarvald).

Samkvæmt því sem segir á Wikipedia.is varð til embætti forsætisráðherra Íslands árið 1917 ,,…þó svo að ekki væri enn búið að stofna forsætisráðuneyti Íslands og ráðherrar urðu þrír talsins. Þremur árum seinna var bætt við einum ráðherra. Frá árinu 1927 voru fastir starfsmenn ráðnir til skrifstofu forsætisráðherra og því eiginlegt ráðuneyti orðið til með óformlegum hætti. Fyrsta lagasetningin um Stjórnaráð Íslands varð ekki fyrr en árið 1969 en fram að því hafði íslensk stjórnsýsla verið heldur laus í reipunum.“

Ísland fékk íslenskan ríkisstjóra, Svein Björnsson, í stað konungs er Danmörk var hernumin 1940 og varð lýðveldi með forseta 1944 og umræddur Svein varð fyrsti forseti Íslands.

Það tók því áratugi að koma stjórnskipan Íslands á til fullnustu og hart barist fyrir öllum réttindum sem Ísland og Íslendingar njóta í dag. Þótt formleg réttindi væru komin í höfn, var það ekki nóg. Það þurfti að reka Breta og aðrar þjóðir af Íslandsmiðum, oft með valdi. Það er nú svo að Ísland er ekki bara landið sjálft, heldur einnig hafsvæðið í kringum landið. Fullt efnahagsfrelsi náðist því ekki fyrr en 1976 þegar síðustu togarar Breta sigldu úr landhelgi landsins (utan fáeina sem fengu leyfi til áframhaldandi veiða í ákveðinn tíma).

Það er ljóst að Íslendingar hafa þurft að takast á við erlendar þjóðir sem ásælast auðævi landsins og berjast við landið sjálft sem er óblítt og harðbýlt. Ekkert er sjálfgefið og enn í dag þurfa Íslendingar að horfast í augu við ásælni útlendinga, hvort sem það er í formi bújarða og hlunninda eða um orku landsins. Íslenskir ráðamenn verða því að vera vakandi og aldrei afsala réttindum landsins, nema með samþykki þjóðarinnar sem þeir eru fulltrúar fyrir, en ekki valdhafar. Til hamingju með daginn Íslendingar!