Greinar | 07.January

Gefa íslenskir fjölmiðlar rétta mynd af heimsmálum?

Huginn skrifar:

Þessi spurning kom upp í hugann þegar heimsviðburðir síðastliðna tvo mánuði eru skoðaðir. Nú eru Íslendingar það heppnir að þeir hafa fullan aðgang að öllum fréttamiðlum heims, með aðgangi í gegnum internet eða áskriftarpakka sjónvarpsstöðvanna. Það hefur ekki alla tíð verið svo. Fram á áttunda áratug 20. aldar neyddust Íslendingar til að fylgjast með heimsmálum í gegnum nálarauga íslenskra fjölmiðla.

Vandaðir fjölmiðlar eins og BBC World News eru nú í boði hérlendis og getur Íslendingurinn hlustað á í beinni útsendingu á útvarpsefni hans. En Íslendingar hafa líka aðgang að öðrum erlendum fjölmiðlum, má þar nefna kínverskar, breskar, pólskar, arabískar og, bandarískar sjónvarpsstöðvar.

Landinn fær nú annað sjónarhorn á líðandi atburði og sér þá oftast í beinni útsendingu. Tveir atburðir standa upp úr í fréttaefni síðastliðinn mánuð. Annars vegar eru það fréttir af sögulegri breytingu á skattakerfi Bandaríkjanna sem mun umbylta efnahagskerfi landsins. Sjá greinina:

https://skinna.is/vidskipti/Efnahagshorfur-i-Bandarikjunum-arid-2018

Hins vegar af atkvæðagreiðslu hjá Sameinuðu þjóðunum um lögmæti þess að Bandaríkjamenn flytji sendiráð sitt til Jerúsalems. Nú skal ósagt látið hvort báðar aðgerðir stjórnvalda í Bandaríkjunum hafi verið viturlegar en eru íslenskir fjölmiðlar að greina rétt frá?

Lítum nú á tvær íslenskar sjónvarpsstöðvar sem hafa fréttaþætti í sjónvarpi. Annars vegar fréttir Stöðvar tvö og hins vegar fréttastofu RÚV. Fréttastofa Stöðvar tvö virðist standa sig áberandi betur. Í frétt RÚV af atkvæðisgreiðslu hjá Sameinuðu þjóðunum var sýnt myndbrot af ræðu Nikki Haleys, sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum.

Í myndbrotinu má sjá sendiherrann ávíta þjóðir heims sem styðja ekki Bandaríkjamenn í þessu máli. En ef myndskeiðið hefði verið lengra, hefði mátt sjá rökstuðning Bandaríkjastjórnar en því var sleppt. Stöð tvö stóð sig betur og sýndi frá þegar Nikki Haley útskýrði afstöðu Bandaríkjanna. Eina sem við fengum frá RÚV var skammarræða Nikki Haley en ekki ástæðan fyrir henni! Sem er að Bandaríkjamenn telja sig vera í fullum rétti til að stunda sjálfstæða utanríkisstefnu og staðsetja sendiráð sín þar sem þeir telja henta sig best.

Sjá má þetta sjónarhorn fréttarstofunnar á vef RÚV af þessum atburði, ,,21.12.2017 - 17:42. Nikki Haley, sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum og Donald Trump forseti hafa hótað öðrum þjóðum með yfirlýsingu um að fylgst verði gjörla með því hverjir greiða atkvæði með ályktuninni og þar með gegn Bandaríkjunum. Fjárhagsaðstoð Bandaríkjanna til annarra þjóða var spyrt vandlega inn í þá hótun.“ Ekkert er minnst á málstað Bandaríkjastjórnar í málinu, hvort sem hann er réttmætur eða óréttmætur. Þetta gefur ranga sýn eða að minnsta kosti leiðandi mynd af málinu.

Íslenskir fjölmiðlar þurfa að fara að vanda sig, því að íslenskur almenningur hefur aðgang að vönduðum erlendum fréttamiðlum, og þeir sjá í gegnum pólitík íslenskra fréttamanna. Þegar samanburðurinn er fyrir hendi, og fólk sér að það er verið að reyna að stýra því, þá missir það tiltrú sína á hlutleysi íslenskra fjölmiðla sem er miður.