Greinar | 07.July

Fréttaskýring: Norsk-sómölsk börn pyntuð í erlendum kóranskólum

Ung stúlka sem send var til Sómalíu frá Noregi í kóranskóla segir í opinskáu viðtali við norska ríkisútvarpið frá martröðinni sem hún og múslímskar kynsystur hennar, sem hafa alist upp í Noregi eða fæðst þar, eru neyddar í. Hún var send af fjölskyldunni til Sómalíu og síðan skilin þar eftir til að læra fræði Íslam vegna þess að hún var of sjálfstæð og tók ákvörðun um að skilja við eiginmann sinn.

Stúlkan sem ekki vill koma fram undir nafni segir í viðtalinu frá því hvernig hún var kerfisbundið brotin niður og var hún við það að missa sjálfsvirðinguna. Stúlkan er núna 27 ára. Hér á eftir fer viðtalið við hana í lauslegri þýðingu skinna.is. Í viðtalinu er hún nefnd Nora en myndirnar eru af henni.

- Fann fyrir hatri inni í mér. Hatri á móti öllum, hatri gegn minni eigin móður.

Nora horfir niður fyrir sig eitt augnablik. Tvö tár renna niður kinnarnar.

Hún vill gefa þeim norsku börnum og unglingum sem þvinguð hafa verið í kóranskóla, eða sambærilega skóla í Sómalíu eða Kenía, andlit.

- Ég vil senda skilaboð með þessu viðtali til ungs fólks sem hefur fengið tækifæri til að snúa aftur til Noregs. Ég vil að þau viti að þau eru einhvers virði og það er einhver sem veit hvaða byrðar þau bera á herðunum.

Hún heitir ekki Nora. Af öryggisástæðum köllum við hana Noru.

Hún segir frá umfangs mikilli misnotkun.

Nora þurfti oft að þurrka tárin í viðtalinu.

Hlýðni og skömm

Það var haust þegar Nora kom fyrst til Noregs en þá var hún þrettán ára. Blöðin voru fallin af trjánum, það var að kólna í veðri. Hún segist muna eftir því hvað hún var hissa þegar fyrsti snjórinn féll.

- Á einni nóttu var allt nágrennið orðið mjalla hvítt! Ég man að ég hugsaði að þetta hlyti að vera ríkt land sem gæti málað öll húsin og trén á einni nóttu, segir hún hlæjandi.

Hún ólst upp austarlega í Osló. Hlýðin dóttir sem bar hijab og gerði það sem hún gat til að standa undir væntingum foreldranna.

- Ég hætti í skólanum þegar ég var 17 ára og gifti mig allt of snemma. Það var bara það sem var vænst af mér, segir hún.

19 ára gömul gerir hún hlut sem fjölskyldan getur ekki fyrirgefið. Hún skilur við eigin manninn. Hún brýst út úr óhamingjusömu hjónabandi.

Nora segir að foreldrarnir hafi fengið áfall við fréttirnar um skilnaðinn. Hún segir að að foreldrarnir hafi sagt að hún hafi sært heiður fjölskyldunnar. Foreldrarnir kröfðust þess að hún tæki aftur saman við eiginmanninn fyrrverandi en hún neitaði.

- Móðir mín hafði áhyggjur af mér af því ég var skilin. Hún vildi meina að ég væri andsetin af djöflum eða orðið fyrir göldrum. Þess vegna var ég send á „lækningastöðina“ í Hargeisa í Sómalíu.

Þvinguð til að drekka „heilagt vatn“

Frásögn Noru er samhljóða frásögn annarra ungmenna sem áður hafa sagt NRK frá veru sinni í kóranskólum í Sómalíu.

Nora segir að það hafi verið foreldrar hennar sem beri ábyrgð á því að hún var send á lækningamiðstöðina í Hargeisa. Í næstum eitt ár var hún læst inni segir hún. Það fyrsta sem hún var látin gera var að drekka vatn með hráka í.

-Öldungur las í kóraninum og spýtti annað slagið í fötu fulla af vatni. Svo fékk ég skipun um að drekka þetta „heilaga“ vatn. Þetta er kallað „tahliil“ á sómölsku, segir hún.

Þegar hún neitaði að drekka vatnið komu tveir aðstoðarmenn öldungsins og héldu munninum opnum og vatnið var þvingað upp í hana. Hún horfir niður fyrir sig og þagnar. Það er erfitt að tala um þetta.

- Svo kastaði ég upp. Og það var víst sönnun fyrir því að ég var undir áhrifum galdra, þeir voru í maganum á mér. Það var greiningin sem ég fékk, segir hún.

Þessa mynd tók hún sjálf eftir að hún slapp.

Raflost

En þetta átti samkvæmt frásögn Noru bara eftir að verða verra. Hún segir að verðirnir börðu hana og hinar stúlkurnar með prikum.

Á fætinum er hún með brunabletti og ör eftir að hafa verið gefið raflost.

Hún segir að öldungurinn hafi líka notað raflost í lækningaskyni til að svæla út djöflanna inni í henni.

- Hann batt járnþráð um tvo fingur á báðum höndum og hleypti svo straumi á með hjálp rafgeymis úr bíl.

- Hvernig leið þér?

- Á því augnabliki vildi ég bara deyja, segir Nora lágt.

Hún segir að hún eigi í erfiðleikum með að skrifa í dag. Það tekur tíma að forma stafina. Einn fingur virðist ekki vilja hlýða henni. Hún segir að það sé vegna raflostmeðferðarinnar. Vísifingur á hægri hendi er stífur og kraftlaus, segir hún.

NRK lét fara fram sjálfstæða rannsókn á meiðslum Noru og niðurstaðan er að hún hafi gengið í gegnum raflostmeðferð í Sómalíu.

Ætti að refsa þeim

NRK hefur verið í bænum sem Nora var send til. Hargeisa er höfuðborg landsvæðis í Sómalíu sem hefur lýst yfir sjálfstæði en hefur ekki fengið alþjóðlega viðurkenningu

Sólin er komin hátt á loft og gulur sandurinn þyrlast upp þar sem við keyrum á holóttum veginum.

Í útjaðri bæjarins hittum við baráttumann fyrir mannréttindum, íklæddur jakkafötum og rauðu bindi. Fuleid Ahmed Jama er lögfræðingur og framkvæmdastjóri fyrir samtökin Human Right Centre.

Hann hefur lengi talað gegn þessum „lækningamiðstöðum“ sem kallast „cilaaj“ á Sómölsku. Orðið þýðir lækning, eða heilbrigði, en hann segir að þessir staðir geri einungis vont verra.

- Sumir af þessum stöðum nota raflost til þess að ákveða hvort sjúklingurinn sé andsetinn. Ef manneskjan öskrar þegar henni er gefið raflost er litið á það sem sönnun þess að viðkomandi sé andsetinn, segir Jama.

Hann segir að það séu margar svona stofnanir í Hargeisa og að helsta takmark þeirra sé að græða peninga. Hann hefur ekki nánari upplýsingar um lækningamiðstöðina sem Nora var send á. Hann segir að það sé staðreynd að á þessum lækningastöðum sé fólk læst inni, lamið og gefið raflost.

- Þetta eru árásir og pyntingar og þeir sem bera ábyrgð á þessum aðferðum ætti að refsa, segir hann.

Lögfræðingurinn segir að þessar lækningamiðstöðvar starfi fyrir utan lög og rétt og að meirihluti þeirra sem fara fyrir þessum miðstöðvum og kalla sig trúarleiðtoga skorti alla læknis þekkingu. Hann biður norsk-sómalska foreldra að hætta að senda börn sín í þessar lækningamiðstöðvar í Hargeisa.

MarjaTiilikainen sem starfar við Innflytjendastofnun Finnlands (Migration Institute of Finland) hefur rannsakað þessar lækningastöðvar í Sómalíu og staðfestir að raflost sé notað á þessum stöðum.

Á fundi með öldungnum

Í hliðargötu mitt í Hargeisa liggur stofnunin þar sem Nora segir að henni hafi verið misþyrmt. Lækningamiðstöð öldungsins Maxamed Ismaaciils er umkring háum grænum veggjum. Glerbrot er efst í veggjunum til að halda óviðkomandi úti.

NRK hefur í marga daga reynt að ná samandi við öldunginn í síma án árangurs.

Nú bönkum við upp á. Með okkur eru tveir varðmenn með alvæpni. Spurningarnar sem við höfum fram að færa eru óþægilegar og nærgöngular.

Maður opnar og við göngum inn. Strax flykkjast að fleiri karlmenn, minnst tíu. Þeir umkringja okkur. Okkur er hispurslaust sagt að það sé dónaskapur að koma án þess að eiga pantað viðtal. Þeir tala með háum skerandi röddum. Svo erum við látin bíða.

Eftir fimmtán mínútur er okkur vinkað að koma inn. Öldungurinn ætlar að taka á móti okkur. Okkur er fylgt upp á þak byggingarinnar. Þar bíður leiðtogi stofnunarinnar, öldungurinn Maxamed Ismaaciil.

NRK spyr öldunginn hvert markmið stofnunnar hans sé. Aðstoðarmaður hans þýðir spurninguna frá ensku yfir á sómölsku.

- Hér geri ég tvo hluti. Ég lækna með hjálp grasalækninga og ég lækna með hjálp kóransins, segir Isaaciil.

Hann segist hafa gert þetta í 30 ár og hann meðhöndlar um 50 sjúklinga á degi hverjum. Margir þessara sjúklinga eru börn og unglingar frá vestrænum löndum.

- Hluti af unga fólkinu sem kemur frá Evrópu eða Bandaríkjunum þjáist af einhverfu eða streitu. Sumir eru þunglyndir og aðrir þurfa meðferð gegn illum öndum, segir öldungurinn sem einnig er þekktur í Hargeisa fyrir sjónvarpsþætti sína.

- Hefur þú haft börn frá Noregi hér?

- Já, auðvitað. Frá Noregi koma sjúk börn og ég hjálpa þeim.

Spurður um hvort sjúklingum sé haldið á stofnuninni segir hann svo vera en það fari eftir sjúkdómnum.

Meðan á þessu stendur ganga ungir menn um í kringum okkur og taka myndir. Það koma stöðugt fleiri upp á þakið. Einn af varðmönnum okkar fylgist með viðtalinu en hinn fylgist grannt með ungu mönnunum í kring um okkur. Það er spenna í loftinu. Öldungurinn sjálfur virðist salla rólegur.

NRK biður öldunginn að hlusta á upptöku á sómölsku sem við fengum Noru til að lesa inn með hjálp norsk-sómalsks þýðanda. Í upptökunni talar hún um hvernig hún var lokuð inni, dópuð niður, laminn og pyntuð með raflosti. Maxamed Ismaaciil hlustar hljóður á áður en hann svarar ásökunum.

- Þessi manneskja er að segja hluti sem eru ekki sannir. Ef hún segir þetta þá hlýtur hún að hafa sannanir. Við verðum þá að hittast fyrir rétti og hún verður að hafa vitni og sannanir. Við fyrirgefum ekki að hún skuli segja þetta, segir hann.

- Þessi stúlka skaðar ekki bara mig, heldur líka alla sómölsku þjóðina, segir öldungurinn.

Heim í öryggið

Árið 2012 náði Nora að flýja. Í Hargeisa hitti hún norska fjölskyldu. Þau hjálpuðu henni að komast bréflega í samband við norska sendiráðið þar sem hún sagði frá þeim pyntingum sem hún hafði mátt þola. Hún fékk neyðarpassa frá sendiráði Noregs í Nairobi í Kenya. Hún var komin aftur til Noregs 16. júlí, 2012.

NRK hefur ítrekað reynt að ná samandi við foreldra Noru. Þrisvar höfum við farið heim til þeirra og bankað á dyrnar. Við höfum hringt, sent SMS með ásökunum dóttur þeirra á sómölsku, og reynt að ná í aðra í fjölskyldunni, án árangurs.

Í meira en ár hefur NRK fjallað um norsk-sómölsk börn og unglinga sem send hafa verið í kóranskóla og upplifað þar ofbeldi og pyntingar.

Nora er sú fyrsta sem þorir að stíga opinberlega fram. Hún hefur slitið öllu sambandi við foreldra sína vegna þess sem þeir gerðu henni.

- Það sem þeir gerðu mér var óréttlátt. Mér þykir óskaplega vænt um systkini mín og það kemur fyrir að ég brest í grát því ég sakna þeirra svo mikið. En það sem foreldrar mínir gerðu mér er ófyrirgefanlegt, segir hún.

Nora hefur það gott í dag. Hún hefur slitið öllu sambandi við fjölskylduna og skapað sér sitt eigið líf í Noregi. Nú ætlar hún að berjast gegn því að norsk börn þurfi að þola það sama og hún þurfti að upplifa.

- Mín æðsta ósk er að norsk stjórnvöld taki í taumana. Foreldrar sem skilja barn sitt eftir í Sómalíu eiga að missa umráðaréttinn yfir barninu.

Hún minnir á að sumarfríin eru hápunktur þess að börn séu send utan í kóranskóla og er með skýr skilaboð til norsk-sómalska foreldra sem eru að hugsa um að senda börn sín út:

- Æskan getur verið erfið. Þið þurfið ekki að senda börn í ókunnugt land. Talið frekar við þau, finnið lausnir.

Hefur hafið nýtt líf í Noregi.

Vilja stofna trúarskóla á Íslandi

Í Janúar 2016 fjallaði visir.is um þá ætlan Menningarseturs múslíma á Íslandi að stofna sérstakan trúarskóla, kóranskóla. Aðaltalsmaður þessarar hugmyndar er Kareem Askari samkvæmt fréttinni. Í sömu frétt er viðtal við Salmann Tamimi talsmanns annars hóps múslíma hér á landi og segist hann vara mjög við öllum slíkum hugmyndum.

Myndir og heimild: NRK


Nýjustu fréttir

No ad